Sunday, April 19, 2009

Bless bless Guelph!

Jæja!! Þá er hann runninn upp og eiginlega að verða um garð genginn; síðasti dagurinn okkar hérna í Guelph! Helgin fór í þrif og niðurpakkningar og meiri þrif og meiri niðurpakkningar og mig langar að spyrja: Veit e-r hvaðan allt þetta dót kemur?! Núna sit ég hérna á stofugólfinu, umkringd ferðatöskum, sem eru svo gjörsamlega stöppufullar að ég krossa fingur og tær og vona bara að allir rennilásar haldi (svo ekki sé nú minnst á yfirvigtaráhyggjur-en þær koma þó ekki strax af fullum krafti;-) Nei, í alvöru þá finnst mér við ekki hafa verið að versla neitt svakalega mikið hér, ég keypti aðeins af fötum á Þorvald Örn þegar gengið var hagstætt og það er nú trúlega það helsta. Smá af fötum á okkur og smá minjagripir-og samt, belgfullar töskur horfa nú á mig úr öllum áttum...uss uss...
En það breytir ekki því að við erum búin að klára vistina hér í þessum bæ og nú tekur smá flakk við áður en heim verður snúið. Morgundagurinn verður vissulega strembinn, leigubíll-rúta1-rúta2-bílaleigubíll og hátt í 5 tíma keyrsla áður en áð verður í Ottawa. En ég hlakka bara til, er viss um að þetta verður rosa fjör:-) Ferðalög eru svoooooo skemmtileg.
Ég ætla að reyna að setja hér e-ar færslur svona við og við og láta heyra í mér en núna hef ég ekki meiri bloggtíma af því við verðum víst að klára fráganginn, það verður ræs árla í bítið á morgun;-)
-Gangi ykkur öllum vel í öllu ykkar brasi, ég sendi bestu kveðjur frá Guelph -trúlega í síðasta sinn:-)
Heyrumst síðar,
Magga&Þorvaldarnir kveðja í brjáluðu ferðastuði

Sunday, April 12, 2009

Páskar og bráðum ferðalag

Gleðilega páska allir saman!! Ég vona að páskarnir hafi verið –og séu enn, notalegir og góðir og með nóg af súkkulaði…Okkar páskadagur hófst á ratleik með það að markmiði að Þorvaldur Örn fyndi páskaeggið sitt. Það tókst á endanum (lokafelustaður eggsins var frystihólfið) og hann var kampakátur með árangurinn og át meira af egginu en nokkru sinni fyrr. Ég held að það megi rekja til þess að þetta var svona Rísegg og hann, sem er almennt frekar sérvitur þegar kemur að súkkulaði, sætti sig betur við það heldur en ef súkkulaðið hefði verið hreint. Málshátturinn var: Enginn fitnar af fögrum orðum…hmm…en mér er spurn; ætli það sé hægt að grennast af þeim..? Allaveganna, það er ekki eins og Þorvaldur Örn þurfi að passa línurnar, hann er í laginu eins og hrífuskaft blessað barnið (e-r hefði reynt að láta hann drekka rjóma er ég hrædd um;-) Svo var tekinn göngutúr, lesið og dundað inni og svo aftur farið út og dagurinn leið bara í þess háttar rólegheitum hjá okkur mæðginum. Þorvaldur K. eyddi honum hins vegar að mestu leyti á skrifstofunni að lesa fyrir próf morgundagsins sem er á þeim furðulega tíma kl.7 að kveldi…frekar skrýtið það og ég veit ekki hvort það er vegna páskanna (en annar í páskum er ekki alls staðar frídagur hér) eða hvað er málið eiginlega. Mér finnst það amk furðulegt að fara í próf á kvöldmatartíma á almennum frídegi.
En ég ætlaði líka að segja frá páskasteikinni meðan ég man. Þetta var sem sagt lambalæri af e-u mjólkurkyni (get ómögulega munað hvað sölukonan kallaði það, hafði ekki heyrt það áður). Og í stuttu máli þá minnti þetta mig frekar á kálfakjöt en lambakjöt-sem orsakast trúlega af því að þetta var mjólkurlamb en ekki svona páskalamb eins og við eigum að venjast heima. Rosalega meyrt og gott þannig en ekki beinlínis bragðmikið, meira svona út í það að vera mjög bragðlítið. En Þorvaldur brúnaði kartöflur og með St.Dalfour rifsberjasultu og salati var þetta auðvitað sælkeramatur allt saman. -En auðvitað hefur íslenska lambakjötið ennþá vinninginn með sitt fjallabragð-en ekki hvað…?;-)

Við Þorvaldur Örn erum bæði búin að fá okkur vorklippinguna hér og Þorvaldur K. ætlar að fylgja í fótspor okkar með það von bráðar. Við fórum á klippistofu sem er á campusnum og gaurinn sem klippti okkur leit meira út fyrir að vera e-s konar iðnaðarmaður, smiður eða e-ð svoleiðis, heldur en þessi standard klippitýpa sem maður á að venjast. Miðaldra, óskup venjulega gaur en klippti alveg ágætlega svo það greinilega felst ekki allt í lúkkinu hjá þessum klippurum…dettur í þessu sambandi í hug barnalæknirinn sem ég hélt fyrst að væri húsvörður;-)

En það er nú svo komið að nú er síðasta vikan okkar hérna í Guelph að renna upp-jahérna og jéminn hvað tíminn líður hratt. Við erum búin að fastsetja okkur bílaleigubíl í Toronto og búin að fá loforð um að mega geyma hluta af farangrinum þar hjá semi-íslenskri konu, þá þurfum við ekki að dröslast með allt með okkur allan tímann. Svo erum við búin að auglýsa þessi fáu húsgögn okkar sem möguleiki er að selja og alveg heilir 3 aðilar eru búnir að lýsa yfir áhuga á þeim, þannig að ég vonast nú bara til að geta selt þetta allt saman og þannig að fá amk helminginn af peningnum til baka. Svo voru Guðmundur og Jóhanna að segja mér að það sé víst eins gott að þrífa íbúðirnar hérna almennilega, fólkið sem var hérna á undan okkur fékk víst feitan bakreikning af því það þurfti að þrífa betur eftir þau. Eins gott að skúra, skrúbba og bóna-nenni ekki svoleiðis veseni og útgjöldum.
Vikan framundan fer þess vegna í frágang og snatt, húsgagnasölu, þrif og reyndar líka húllumhæ þar sem auðvitað eru feðgarnir báðir að ,,útskrifast” úr skólunum sínum og við verðum nú aldeilis að fagna því:-)
Næsta sunnudag verður allaveganna allt að vera klárt því þá byrjar ferðalagið-og ekki væri verra að krónugreyið myndi nú nota vikuna til þess að taka sig saman í andlitinu og styrkjast þó ekki væri nema um nokkur prósent…það væri óneitanlega ansi gott.

-Njótiði svo restarinnar af páskunum og bara alls hins besta:-)
Páskakveðjur að vestan,
Magga&Þorvaldarnir

Sunday, April 5, 2009

Vor eller ej...?

Á mánudaginn varð litla barnið í fjölskyldunni 5 ára!! Skrýtið að eiga bráðum barn í grunnskóla...tími líður og allt það. Afmælisdagurinn var rólegur, gjafir opnaðar og kaka borðuð og svo bara leikið og dundað í nýju dóti og allir sáttir. Veðrið var líka hundfúlt, ískalt og lítið gaman að útiveru, enda er: Vor-ekki vor, vor-ekki vor besta lýsingin á veðurfarinu sem verið hefur hérna núna undanfarna daga. Á föstudaginn rigndi eins og hellt væri úr nokkrum fötum og í gær var svona páskaeggjaleit fyrir krakka á collegíinu og það var ískuldi! Við dressuðum okkur upp, Þorvaldur Örn í snjóbuxum og úlpu, norpuðum um milli trjánna og týndum upp nokkur plastegg (sem reyndust nú meira vera svona dreifð um svæðið, fremur en týnd...). Hann fékk svo súkkulaði í verðlaun og við flýttum okkur heim og inn úr kuldanum. Svo í dag þá var þetta fína, hlýja vorveður. Við fórum niðrí bæ og byrjuðum á kaffibolla á Red Brick. Við Þorvaldur erum sammála um að það sé leitun að jafn góðum cappucino-bolla og á þessu kaffihúsi, alveg ferðarinnar virði í sjálfu sér. Tilgangurinn var samt ekki bara að sötra cappucino heldur fremur að kíkja á lestarstöðina og athuga hvort það geti verið fjárhagslega hagkvæmara að ferðast með lest fremur en leigja bíl í ferðalagið. Lestarstöðin opnaði ekki fyrr en kl.4 þannig að tímann sem við höfðum nýttum við í kaffidrykkju og svo gerðum við tilraun nr.2 til að skoða ,,dómkirkju“ svæðisins. Hún reyndist opin í þetta skiptið svo við gátum rölt um og skoðað. Ágætis kaþólsk kirkja bara svona og nú erum við amk búin að sjá hana. Svo loksins þegar lestarstöðin opnaði þá fengum við að vita að það er rándýrt að ferðast hér með lestum og ekki sjens að það borgi sig fyrir okkur að reyna slíkt ætlum við að halda budgeti. Skrýtið að almenningssamgöngur skuli vera svona dýrar í svona stóru landi.
Síðan brunaði strætóinn framhjá nefinu á okkur rétt áður en við gátum gómað hann til baka. Af því veðrið var svo frábært ákváðum við að rölta bara aðeins af stað, enda líður alveg hálftími milli vagna. Það teygðist svo úr því rölti því við enduðum heima í íbúð 30 án þess að taka nokkurn strætó. Vorum ekki mikið lengur en ca klukkutíma að því og Þorvaldur Örn labbaði nánast alveg allan tímann, pabbi hans rétt aðeins ferjaði hann síðasta spölinn. Uppskeran úr bæjarferðinni varð því í stuttu máli gott kaffi og góður göngutúr.

-Reyndar var uppskera dagsins aðeins meiri, því Þorvaldur K. skilaði af sér lokaverkefni í einum af þremur kúrsum og er þess búinn í honum og gaman að því, þetta er allt að koma:-)

Næst á dagskrá hjá okkur er að bóka bíl fyrir ferðalagið og gistingu, þ.e.a.s. fyrstu nóttina og svo trúlega á Prince Edward Island líka. Hinum nóttunum verður meira svona reddað þegar þess þarf-óþarfi að hengja sig í of stíf plön;-) Páskarnir alveg á næsta leyti með kanadísku lambakjöti og íslensku páskaeggi fyrir þann 5 ára, það á nú eftir að gera stormandi lukku er ég viss um.
Ætla ekki að hafa þetta mikið lengra í bili, en við sendum rosa góðar kveðjur til ykkar allra og vonum að vorið sé farið að verma klakann:-)
Knús frá Kanada,
Magga&strákarnir

Sunday, March 29, 2009

Afmæliskaffi og sitt hvað fleira

Nú er best að blogga svoldið, ég hef ekki staðið mig alveg í því stykkinu undanfarna dagana! Sko. Geirlaug yfirgaf okkur fimmtudaginn 19.mars. Heimferðin gekk nú e-ð betur hjá henni heldur en ferðin hingað, fyrir utan það reyndar að taskan ákvað að láta e-ð bíða eftir sér, var ekki alveg tilbúin að koma aftur til Íslands greinilega. Svo um helgina síðustu voru opnir dagar í skólanum hans Þorvaldar K. Þetta er árviss viðburður sem gengur undir nafninu Collage Royal (CR) (ég varð nú ekki vör við neina konungborna gesti samt...) og þarna kemur múgur og margmenni að skoða. Það eru um 3000 sjálfboðaliðar úr hópi nemenda sem standa að skipulagningunni og húrra fyrir þeim, því þetta er talsverð vinna trúi ég. Við mættum þarna uppúr hádegi á laugardeginum. Lögðum reyndar af stað um hálf 10 heiman að og tókum þá strætóinn framhjá skólanum og niður í bæ. Erindið var tvíþætt; annars vegar að taka púlsinn á þeim tveimur bílaleigum sem þar eru staðsettar vegna þess að nú líður óðum að ferðalaginu okkar og við þurfum aðeins að fara að skoða ferðamátann. Í stuttu máli voru gaurarnir á leigunum ekkert ægilega jákvæðir út í plönin okkar...það er greinilega ekki vinsælt að leigja bíla og nota þá til að keyra vítt og breitt og svo að ætlast til að geta skilið við þá í öðrum borgum (þar sem eru samskonar leigur eða branches nota bene), það mætti nú ekki miklum skilningi...þannig að við snérum nú fremur dræm frá bílaleigunum og erum núna að spá og spekúlera hvernig við ætlum að tækla þetta í apríl. Hin ástæðan fyrir bæjarreisunni var að sjálfsögðu bændamarkaðurinn góði sem við erum orðin frekar hrifin af. Þar tróðum við talsverðu af góssi í bakpokann, m.a. frábærum niðursoðnum kúrbít-alger snilld með steiktum eggjum, jarðarberjum og eggjum (no eggs, no omelette) úr hænum sem aldar eru upp á Mennonítabýli (gaman að segja frá því). Já og á markaðinum pöntuðum við líka páska-lambið hjá fulltrúa kanadískra sauðfjárbænda þarna. Stefnan er svo að sækja ketið á markaðinn laugardaginn 11.apríl.

Þannig að uppskeran úr bæjarferðinni var í raun ágæt, þó svo að bílaleigurnar hefðu mátt standa sig betur. Við gátum svo geymt bændamarkaðsgóssið á skrifstofunni hans Þorvaldar í skólanum og þurftum ekki að drasla því með okkur um háskólasvæðið. Opnu dagarnir eru nefnilega-eins og nafnið bendir til, opnir í þeim skilningi að allar skólabyggingarnar eru opnar almenningi og ýmislegt í boði á hverjum stað. Við fengum t.d. að strolla um fjósið þar sem boðið var upp á n.k. húsdýragarð og hægt að sjá þessi hefðbundnu húsdýr; kýr (með og án fistúlu-kannski ekki svo hefðbundnar þessar með fistúlurnar...), hross, svín, kindur o.þ.h. Allt saman ágætt við það. Svo var e-r húsdýrasýning í gangi í íþróttahöllinni og við þangað. Það tók okkur smá stund að átta okkur á því út á hvað sýningin gekk vegna þess að það voru dómar í gangi og nemendur að sýna bæði hross, kindur, kvígur og svín-en í raun var verið að dæma nemendurna og hvernig þeir sýndu dýrin en ekki dýrin sjálf! Frekar fyndið allt saman, sérstaklega þegar verið var að dæma svínin og krakkarnir stjórnuðum þeim með svona tré-göngustöfum og grísagreyin nenntu þessu veseni klárlega ekki;-) Þetta voru líka sömu krakkirnar að sýna mismunandi dýr og eins og við skildum þetta, þá höfðu þeir ekkert endilega þjálfað dýrin sjálfir heldur tóku bara við þeim þarna til að sýna þau. Magnað alveg og mjög fyndið. Allaveganna. Eftir meira rölt um fleiri háskólabyggingar (nóg er af þeim) þar sem hægt var að skoða hitt og þetta létum við staðar numið (í þeim skilningi að við löbbuðum heim). Daginn eftir kíktum við reyndar aðeins meira á CR til að sjá þar hundasýningu. Þar voru hlýðnidómar og mis-(ó)hlýðnir hundar á ferð. ÞK eyddi seinniparti dagsins á skrifstofunni og við ÞÖ fórum heim og steiktum lummur svona af því það var sunnudagur og afgangur af hafragraut í ísskápnum.

Síðan hafa dagarnir liðið í tiltölulegum rólegheitum. Kennarinn hans Þorvaldar Arnar stakk upp á því að stytta aðeins daginn hans og síðan þá hefur hann verið sáttur í skólanum-gaman að segja frá því og vonandi að það gangi þannig þessa daga sem eftir eru. Sem eru nú ekki margir þegar maður telur, enda Kanadadvölin tekin að styttast í annan endann.

Veðrið hefur verið ljómandi gott-svona langoftast þessa síðustu daga. Í gær t.d. röltum við Þorvaldur Örn aðra leið heim úr skólanum en vanalega, ákváðum nefnilega að skoða leiktæki sem við höfðum ,,spottað” e-n áður þegar ekki var færi á nánari athugun. Þetta reyndust hin ágætustu leiktæki og undirlagið var þessi fína ljósgráa möl sem Þorvaldur lék sér nú hvað mest að, það var t.d. hægt að fylla stígvélin af henni og búa til snjó-engla og almennt velta sér uppúr henni. Ég naut þess að láta sólina skína á mig á meðan og uppskar rauðan hársvörð fyrir vikið...greinilega spurning um að fara að fjárfesta í sólarvörn áður en langt um líður...

Í gær héldum við svo smá afmæliskaffi fyrir Þorvald Örn en hann verður hvorki meira en minna en 5 ára á mánudaginn kemur! Af því stólaeign okkar er ekki mikil ákváðum við að fá félags-íbúðina lánaða hérna, það er sem sagt bara svona venjuleg íbúð hérna á görðunum sem er nýtt sem svona félagsmiðstöð fyrir íbúana. Við keyptum köku og meðlæti og buðum nokkrum vel völdum gestum og þetta lukkaðist vel í alla staði (nema kannski þegar ég brenndi eplapæið sem Þorvaldur valdi í búðinni og hlakkaði svo til að smakka-það var reyndar hægt að skrapa brenndu skánina ofan af og borða restina, sem var alveg ágæt ;-). Veðrið var frábært og allt morandi í krökkum og fullorðnum úti fyrir og afmælisbarnið var sáttur með daginn. Eins gott að við ákváðum að hafa þetta í gær vegna þess að í dag rignir bara og rignir...

Framundan er svo síðasta kennsluvikan hans Þorvaldar K hvorki meira né minna! Auðvitað eru verkefnaskil og próf og e-ð svona vesen fram til 15.apríl en kennslu er allaveganna að ljúka og gaman að því. Ég er farin að hlakka heilmikið til þess að komast í ferðalagið okkar og sjá aðeins meira af landinu.

Jæja, ætli ég segi þetta ekki gott í bili, ætla að reyna að hafa styttra milli bloggfærslna í framtíðinni:-)
Vona að þið hafið það öll sömul sem allra allra best,
Kveðjur úr rigningunni héðan
Magga&Þorvaldarnir

Tuesday, March 17, 2009

Kveður í runni, kvakar í mó í Kanada

Þá er helgin liðin og við búin að flengjast hér um kanadískar koppagrundir og krummaskuð eins og vit og geta var til. -Þetta er nú kannski aðeins ofsögum sagt en eins og glöggir muna úr síðustu færslu hérna þá er mamma hans Þorvaldar núna í heimsókn og við reynum náttúrulega að sýna henni e-ð af svæðinu. Hún lenti reyndar í veseni á leiðinni hingað, missti af ekki einu heldur tveimur tengiflugum og varð fyrir vikið að eyða fyrstu nóttinni á hóteli í Montreal...tengiflug geta greinilega verið nett pirrandi, ég er bara fegin að allt gekk upp þegar við fórum hingað og eins náttúrulega að hún rataði á leiðarenda fyrir rest.
Og svo ég haldi áfram í jákvæðu deildinni þá er ég líka ægilega ánægð með veðrið sem hefur heldur betur verið til fyrirmyndar upp á síðkastið, bara tveggja stafa hitatölur, sól og fínt. Ég sat t.d. úti í garði í dag og sleikti sólina á hlýrabol og stuttu pilsi! Maður er alvarlega farinn að freistast til að halda að vorið sé rétt ókomið...verst að vera krónískur Íslendingur og búast náttúrulega við áhlaupi fyrst þessi góði kafli kemur núna;-) Hvort áhlaup verði hér um þessar slóðir er reyndar alveg efunarmál og annað mál útaf fyrir sig.

En við sem sagt leigðum bíl um helgina og byrjuðum á að bruna að Niagra fossunum sem Geirlaugu langaði að sjá. Verð að viðurkenna að það var meira gaman að sjá þá í svona góðu veðri, nefið á mér var ekki helblátt af kulda í þetta skiptið. En það er samt alveg nóg að koma þarna tvisvar (jafnvel einu sinni ef veðrið er gott). Á heimleiðinni tókum við smá dí-túr og skoðuðum bæ sem heitir Niagra-on-the-Lake og er rétt hjá fossunum eins og nafnið bendir til. Þetta er bær þar sem gömlu húsin eru mjög vel varðveitt og ótrúlega flott, svoldið eins og að koma í kvikmyndaver. Gaman að því.
Sunnudagurinn fór í bíltúr um nágrennið. Eyddum dálitlum tíma í að reyna finna e-a Equine Centre sem Þorvaldur hafði fundið á netinu og átti að vera hérna rétt hjá en reyndist vera e-s staðar annars staðar en þar sem við leituðum þennan daginn. Í staðinn keyrðum við í nágrannabæ sem heitir Elora og er í ca 25 km fjarlægð frá Guelph. Borðuðum í gamalli myllu þar og strolluðum um bæinn sem er nú í hreinskilni ekkert óskaplega merkilegur...en myllan var frekar fín og veðrið gott þannig að þetta var ágætt. Síðan erum við búin að taka rúnt um háskólasvæðið, skoða miðbæinn og bara hafa það fínt. Og auðvitað höfum við svo farið út að snæða og fundum þennan fína veitingastað hér í Guelph! Við Þorvaldur höfum nefnilega ekki verið neitt of dugleg að gera könnun á þeim (lesist: höfðum ekkert skoðað nema tvö kaffihús), þannig að til að geta nú boðið gestinum upp á e-ð meira fansí þá valdi Þorvaldur þennan úr e-u blaðinu og tókst svona líka vel upp með það.

Þorvaldur Örn tekur því náttúrulega mjög vel að hafa ömmu sína í heimsókn og þau brasa ýmislegt saman, úti og inni. Fyrir vikið fáum við Þorvaldur líka pössun og nýttum tækifærið og barasta fórum í bíó í gærkveldi;-) Ég var að reyna að rifja upp hvenær við fórum síðast saman í bíó og mig minnir að það hafi verið þegar við fórum með Þorvaldi Erni og sáum Bubba Byggir myndina...alveg að standa okkur í bíóferðunum...*hóst*...allaveganna, í gær sáum við Slumdog Millionarie og hún er svakaleg, mjög ljót á köflum en endar vel.
Og fyrst ég er byrjuð að tala um kvikmyndir þá höfum við reyndar tekið nokkrar myndir hér í sjónvarpsleysinu og eytt nokkrum góðum kvöldum í að horfa saman á þær í tölvunni, voða rómó;-) Þannig er ég aðeins búin að saxa á klassíska listann sem mig hefur lengi langað til og get núna strikað yfir myndir eins og An Affair to Remember, My Fair Lady, One Flew over the Cookoo´s Nest og Cat on a Hot Tinroof, já og Mamma Mia-við Þorvaldur vorum víst síðustu tveir Íslendingarnir sem komu því loksins í verk að sjá þá mynd, ætli hún teljist ekki sem klassísk...amk eftir e-r ár. Svo hafa aðrar minna klassískar vissulega flotið þarna með...nýjasta myndin sem við sáum var t.d. Vicky Christina Barcelona sem er vel með farin krúttleg saga og ég mæli með, bara af því hún er ekkert að rembast við að vera kvikmyndalegt stórvirki. -Best er samt serían um Jessicu Fletcher sem Þorvaldur mundi eftir síðan fyrir hundrað árum og við höfum aðeins kíkt á. Þetta er sem sagt glæpasería um hana Jessicu sem er glæpasagnahöfundur komin af léttasta skeiði og leysir, jú rétt er það, alvöru glæpamál í frítíma sínum. Framleiddir um 1970/80 og hrikalega fyndnir útfrá þeim punkti og efnistökum.

Á morgun er svo pre-moveout-inspection hér í Unit 30...ekki spyrja, ég veit ekkert um hvað þetta snýst, Kanadamenn eru mjög uppteknir af að halda vel utan um allt sem snýr að þessum nemendagörðum og hingað hafa komið hinir og þessir viðhalds-húsviðgerðarmenn og fixað hitt og þetta smálegt; gat á þurrkararöri, hurð sem lokaðist ekki, myglu á kjallaraveggjum etc. Og einn þurfti spesferð til að prófa reykskynjarana, ein kom hérna spesferð alveg í byrjun og sagði okkur eitt og annað gáfulegt um íbúðina, t.d. að hún væri gömul (nú er það) og að við skildum ekki setja heitan pott beint á viðarplötuna í eldhúsinu (nú af hverju ekki). Þannig að ég ætla nú ekki að setja mig í neinar stellingar fyrir morgundaginn, finnst ég vera búin að læra það að þessar heimsóknir þeirra heita stærri nöfnum en tilefnin eru til.

-Best væri svo að enda þetta á söng, það ku vera í tísku þessa dagana..hehe, amk á Hvanneyri;-) En þar sem þetta er bara aumt, skriflegt blogg þá verð ég víst að sleppa því. Í staðinn bið ég ykkur vel að lifa og vona að þið gróið bæði og grænkið af geislanæringunni.
Vorkveðjur frá Kanada,
Magga&Þorvaldarnir

Monday, March 9, 2009

Tíðindalítið á Vesturvígstöðvunum

Rigning í Guelph og dumbungsveður-en við erum allaveganna komin yfir á sumartíma þannig að vorið hlýtur að vera á næstu grösum auk þess sem núna munar aðeins litlum fjórum tímum á Íslandinu góða og Kanada. Skrýtið af hverju svona sumar/vetrartími er ekki á Íslandi…ég meina, fyrst enginn sagði neitt við því að nokkrir aðilar byggju til bankakerfi sem var stærra en 12-föld þjóðarframleiðsla, færi e-r að ybba sig yfir einum klukkutíma til og frá…? Það er kannski ekki meira rask á þjóðina leggjandi þessa dagana og best að vera ekki uppi á dekki með svona breytingatillögur;-)
En svo ég tali um annað þá hefur Þorvaldur Örn ekki tekið skólann sinn í fullkomna sátt ennþá…kennarinn lagði til að við myndum stytta daginn hans aðeins og vita hvort hann ætti ekki auðveldara með það. Stundum gengur þetta vel hjá honum en svo er hann voða lítill í sér inn á milli og með því að stytta dvölina þarna e-ð þá er kannski spurning um að hann gúteri þetta betur. Annars er nú faktískt ekki svo langt þar til við yfirgefum svæðið og leggjumst í ferðalög, svo er líka vetrarfrí 16.-20. mars og svo náttúrulega páskafrí, þannig að þetta er nú spursmál um nokkra skóladaga í viðbót hjá honum. Vona það besta bara eins og venjulega í því sambandi. Hann er samt ansi mikið farið að hlakka til að hitta hina íslenskumælandi vini sína á Hvanneyri aftur-skiljanlega, lítið gaman að reyna að tjá sig ef enginn skilur mann almennilega…
Að öðru leyti en smá brasi í kringum skólann hans leið síðasta vika stórtíðindalaust. Þorvaldur K. náttúrulega í sínum skóla eins og vanalega og ég náði smá törn í búðum þá daga sem við Þorvaldur Örn vorum ekki að skottast saman. Við erum nú ekki að tala um háar upphæðir í eyðslu, bara svona mjög svo létt innkaup-enda dollarinn kominn niður í 88 kr-jei! Og talandi um búðir þá skruppum við aðeins niður í bæ um helgina, heilsuðum upp á Red Brick kaffihúsið ,,okkar” og röltum um í rigningunni (sem var nú ekki á okkar dagskrá þarna-en mætti samt). Og á þessu rölti fundum við þessa ægilega skemmtilegu Fair Trade búð. Þar er fullt af öllu mögulegu, flottum fötum í bland við reykelsi (bókstaflega meint, þar sem reykelsislyktin af fötunum er gríðarleg) og bara alls konar dóti-allt auðvitað framleitt skv. stöðlum Fair Trade og alveg Fer-lega flott sumt hvert (haha Magga;-) En grínlaust þá ætla ég að skanna þessa búð betur, greinilega hægt að kaupa slatta þarna ef fjárlög leyfa. Önnur búð þarna sem gaman er að skoða er skemmtileg leikfangabúð. Ekki svona brjálæðislega stór og full af plasti heldur alveg svona temmileg og þótt vissulega sé plastið til staðar þarna þá eru flottir hlutir inn á milli. Þarna fann ég t.d. ótrúlega flottar diskamottur með lotukerfinu-bara þvílík snilld! Verð að fjárfesta í einni slíkri og hafa á skrifborðinu, alltaf gott að vera með frumefnin á hreinu (Mendeljev kallinn vissi hvað hann söng).
Svo í gær kíktum við í heimsókn til Guðmundar og Jóhönnu og sáum nýjasta fjölskyldumeðliminn sem er ægilega lítil og krúttleg eftir því. Þar náði Þorvaldur Örn sér á strik í leik með strákum á hans aldri sem tala íslensku og hann var ekki lítið glaður með það stubburinn.

Mamma hans Þorvaldar er svo væntanleg í heimsókn núna á miðvikudaginn og verður fram til 20.mars hjá okkur. Við ætlum að leigja bíl um helgina og gera e-ð skemmtilegt með henni þá, gaman að því og gaman að fá hana í heimsókn.

Svo hef ég ekki meira að segja þannig að ég ætla nú bara að enda þetta á að senda afmælisbarni dagsins netleiðis knús og kossa frá mér-til lukku með að vera enn og aftur orðin tvítug Þóra mín;-)
Hafið það ljómandi gott öll sömul,
-kveðjur á sumartíma
Magga&Þorvaldar

Sunday, March 1, 2009

Mars eins og nammið

Kominn sunnudagur og mars byrjaður. Hérna er líka svona aðeins eins og það sé farið að glitta í vorið...eða svoleiðis... Við Þorvaldur Örn fórum út á föstudaginn fyrir hádegi í hlýindum og rigningu og það var sullað og drullumallað enda snjórinn að bráðna og allt á floti (stígvélin komu þarna sterk inn). Svo þegar við fórum aftur út eftir hádegi þá var bara kominn ískuldi og héla á öllum pollum og við erum að tala um nokkra klukkutíma þarna á milli! Og restin af helginni hefur nú barasta verið fremur svöl (lesist: ísköld). Best greinilega að halda ekkert niðrí sér andanum hvað vorkomuna varðar hér...
Vikan var annars tiltölulega róleg. Þorvaldur K. eyddi meginparti tímans á skrifstofunni með nefið ofan í bókunum-þó ég segi sjálf frá þá finnst mér hann vera hellings duglegur við þetta kallinn. Enda er viðhorfið að nýta tímann hér í skólanum sem best og ná sem flestum einingum útúr þessu-það er auðvitað megintilgangurinn. Allaveganna. Þriðjudagurinn var skóladagur hjá Þorvaldi Erni og það gekk þokkalega. Fimmtudagurinn gekk ekki alveg eins vel, einhver neikvæðni í gangi hjá mínum manni og e-r mótþrói (vatnsneskur...?) gagnvart fyrirmælum. Við ætlum að reyna að bæta þetta ástand og byggja upp jákvæða stemmningu. Þorvaldur Örn er líka búinn að kynnast stelpu hérna í hverfinu, hún er frá Ísrael og er með honum í bekk. Þau náttúrulega skilja hvort annað frekar takmarkað og þetta er hálffyndið þegar þau eru að leika saman annað hvort hér í okkar íbúð eða hjá þeim, þá er ég að túlka fyrir Þorvald á íslensku og stelpan talar hebresku við mömmu sína og svo er það enskan þar á milli! Svoldill hrærigrautur allt saman en gaman að því og ég er alveg að pikka upp hebreskuna...hehe-eða ekki;-) Mamma stelpunnar vinnur ekki úti frekar en ég og við höfum aðeins verið að brasa saman með krakkana, fórum t.d. í dollarabúðaleiðangur eftir skóla á fimmtudaginn með þau sem endaði á Dairy Queen og fórum svo með þau í svona leiktækjasmiðju í dag. Sú smiðja heitir Funworkx og er ca 40 mín frá Guelph. Þetta er svona boltaland+rennibrautir+klifurgrind+e-ð meira á þremur hæðum og innandyra. Þetta var alveg ágætt, Þorvaldi Erni fannst gaman að príla og hlaupa þarna um. Og þar sem Þorvaldur K. var hvort sem er í áframhaldandi prófalestri í dag þá kom þessi tímasetning vel fyrir okkur öll og engum leiddist (jah, stuðið var trúlega meira hjá okkur mæðginum, þar sem það er lítið fjör að læra fyrir próf-en hann fékk amk gott næði til þess;-)

Í bókasafnsferðinni sem var á miðvikudaginn byrgði ég mig upp af ferðabókum. Við ætlum að skoða Toronto betur og svo er það lokaferðin náttúrulega. Við erum svona að settlast á ferðatilhögun og aðeins að byrja að kíkja á það svæði sem til stendur að skoða. Trúlega verður planið nú aldrei mjög stíft en það er svona skemmtilegra að vita e-ð um hvert maður fer áður en lagt verður af stað. Og talandi um að vita hluti þá var ég spurð í búð um daginn hvar þetta Ísland eiginlega væri...? Ég náttúrulega teiknaði í snarhasti þetta fína heimskort með puttunum á afgreiðsluborðið á meðan ég velti fyrir mér hvort og þá hvaða landafræði manneskjan hefði fengið í skóla. Og svo fór hún að spyrja hversu lengi við ætluðum að vera hérna í Kanada og kannski myndi okkur bara líka svo vel að við myndum bara setjast hér að en ég hélt nú ekki, við myndum snúa aftur á klakann eins og farfuglarnir. Hins vegar, eins og ástandið er heima þá mætti kannski réttilega spyrja hvað maður er að sækja til Íslands þessa dagana. En maður sér nú farfuglana líka koma úr suðlægri sælu til þess eins að hreppa norðlenskt hret í allri sinni ísköldu dýrð...Fréttaflutningur að heima er samt með ólíkindum-sem orsakast trúlega af því að ástandið er með ólíkindum. -En sjensinn að maður fari ekki heim sín aftur. Meðan flýtur og rammar taugar og allt það...

Og ætli ég láti það ekki bara verða lokaorðin í kvöld. Lifiði öll í stormandi lukku:-)
Knús að vestan,
Magga&Þorvaldarnir

Monday, February 23, 2009

Ferðasagan:-)

-Ég verð nú bara að segja VÁ. Og aðeins meira VÁ. Ég hafði heilmiklar væntingar til New York borgar og hún stóð algerlega undir þeim og meira til. Þessi borg er bara mögnuð, segi og skrifa mögnuð. Þarna gæti ég sko eytt heilmiklum tíma og sjálfsagt öðru eins af peningum því borgin flotta er frekar dýr (og Manolo Blahnik var ekki á okkar budget í þetta skiptið...) En sem sagt, borgin er frábær og ég mæli eindregið með henni. Og þá að frekari smáatriðum ferðarinnar:-) Við sem sagt lögðum af stað Guelph-Toronto á mánudagsmorgni í prýðisveðri, röltum upp í háskóla hvaðan rútan fór (svona Greyhound rúta ef e-r kannast við þær). Við vorum reyndar ansi tímanlega á þessu rölti sem skýrist kannski af noju minni við að missa af rútunni (og þar með fluginu og þar með New York) og ekki síður vegna þess að allir voru orðnir leiðir á að bíða heima og mun betra að sitja í rútuskýli og eyða slatta af mínútum í vísbendingaleik. Rútan kom svo auðvitað á endanum og við brunuðum í miðbæ Toronto aðeins til að taka þaðan aðra rútu út á flugvöll. Meiri bið á flugvellinum, öryggishlið og vesen eins og gengur en svo tókum við loks þessa fínu flugvél og lentum á JFK eftir ca 2 tíma ferð. Þá var klukkan orðin 6 að kveldi og við ákváðum að hóa í einn ekta gulan TAXA áleiðis á hótelið og fengum þá snarbrjáluðustu leigubílaferð sem ég hef upplifað, ég var eiginlega í hálfgerðu flisskasti alla leið yfir keyrslulaginu á manninum því þetta var eins og Þorvaldur orðaði það; ,,Eins og hann sé í tölvuleik maðurinn”-það var bara brennt fram úr og troðist milli bíla, flautað og flautað meira og gefið grimmt í, ég leyfi mér að efast um að bílstjórinn hefði getað keyrt öllu hraðar þótt hann hefði verið að flytja okkur með hjartastopp á sjúkrahús. En sem betur fer enduðum við nú bara á President hótelinu á Manhattan sem er staðsett rétt við Times Square. Og það svæði bókstaflega iðar allt, við tókum smá kvöldrölt eftir inntjekkun og vissum eiginlega ekki hvert við áttum að glápa því alls staðar blikkuðu ljós og alls staðar var hávaði og e-ð að sjá. Og haugur af fólki, alls konar fólki, alls staðar. Eftir aðeins meira rölt og smá át strolluðum við, dasaða fólkið úr sveitinni;-) upp á hótel og sofnuðum vært.
Dagur 2 hófst snemma með heimsókn á morgunverðarstað handan götunnar (Steina frænka fær meira kredit fyrir góða ábendingu þar, sem og víðar). Eins og sumir sem þetta lesa kannski vita þá elska ég góðan morgunmat og þarna hlóðum við batteríin vel fyrir komandi dag, Þorvaldur Örn átti samt vinninginn þar með góðan skammt af eggjum og beikoni (gott að vera ennþá á því stigi að vaxa upp en ekki til hliðanna...;-) Jæja, svo var labbað af stað. Labb var án efa lykilorð ferðarinnar og í ljós kom að regnhlífarkerran góða borgaði sig upp á fyrsta degi, ekki sjens að við hefðum komist allt sem við fórum án hennar. Við byrjuðum á Empire State byggingunni enda veðrið frábært og útsýnið ennþá betra, geggjað að sjá borgina svona vel til allra átta og þessi bygging er náttúrulega magnað mannvirki og einstök sem slík. Svo var labbað víðar, farið í Rockefeller Centre og skautasvellið skoðað og svo tekið gott stopp í Barnes and Nobles risabókabúð sem á vegi okkar varð. Þar keyptum við okkur öll bækur (þemað var New York, svo frumleg við fjölskyldan;-) Eftir bókabúðina var labbað ofar og farið í hestavagnaferð um Central Park. Sá garður er ennþá stærri en ég hafði ímyndað mér og það var ótrúlega gaman að feta þar um (fyrst í vagninum og svo á eigin tveimur), veðrið var svo gott og ekki margir á ferli og þetta er bara ótrúlega flottur staður. Og eflaust ennþá flottari þegar allur gróðurinn nýtur sín. Þarna fórum við Þ.Ö. í 100 ára gamla hringekju og skemmtum okkur bæði tvö (vorum í villtu stóði eins og sá stutti orðaði það;-) Frá hringekjunni strolluðum við á Metropolitan safnið og vildi þá svo skemmtilega til að það var frítt inn þann daginn, ekki amalegt það. Við vorum annars svoldið að upplifa okkur eins og art-hraðlest þarna á safninu, þetta er náttúrulega alveg magnað safn og RISA stórt og auðvitað þarf maður marga daga til að mastera það. Þann tíma höfðum við bara ekki og þess vegna var ákveðið að taka bara kæruleysið á þetta, rölta bara um hingað og þangað (ekki eins og við hefðum séð neitt af öllu þessu áður hvort sem er) og reyna bara að absorba allt sem fyrir augun bar eins mikið og hægt var. Frá safninu var stefnan svo tekin þvert í gegnum C.P. og svo labbað að vestanverðu niður áleiðis að hótelinu aftur. Af því kvöldin sem við höfðum til ráðstöfunnar í borginni voru 3 ákváðum við að hvert okkar mætti velja einn veitingastað. Ég byrjaði og hvað annað en asískan mat á minn disk. Hann fundum við á veitingastað sem mælt var með í e-i túristabókinni, heitir Bangkok House og er rétt hjá hótelinu og maður minn og lifandi hvað maturinn var góður! Vá, mæli með þessum stað-ekki vafi. Enginn sérstakur barnamatseðill reyndar í boðinu en Satay-kjúlli á grillpinnum sló í gegn hjá Þorvaldi Erni og eldri Þorvaldur sagðist aldrei hafa smakkað betri kjúklingarétt en þann sem hann valdi sér. Ég valdi mér að sjálfsögðu núðlur með sjávarfangi og ætla ekki að fara út í nánari lýsingar á þeim rétti hér þar sem mig langar hrikalega í hann aftur og það er grænmetissúpa og spæld egg á borðum í Kanada í kveld...
Allaveganna. Næsta dag tókum við rútu með guide, svona Sightseeing rútu þið vitið. Veðrið var leiðinlegra en daginn áður og fínt að byrja svalan dag í heitri rútu. Leiðsögumaðurinn sem við fengum var alger snillingur, bara svona venjulegur New York búi sem sagði manni fullt af hlutum um borgina-ekki bara tölulegar staðreyndir heldur líka svona skúbb-hluti á mannamáli og svo var hann fyndinn á köflum líka sem var ekki verra. Við fórum út neðarlega á Manhattan (vissuð þið að Manhattan er 59.47 km²? Spurning dagsins er þess vegna: Hvað er Vatnsnesið stórt?) og byrjuðum á því að kíkja á Ground Zero. Það verður reyndar að viðurkennast að við nenntum nú eiginlega ekki að skoða það svæði mjög nákvæmlega, enda veit ég svo sem ekki nákvæmlega hvað er þar að skoða, við sáum bara vel afgirt byggingarsvæði...en auðvitað er staðurinn merkilegur útaf fyrir sig. Og hrikkkalega góður samlokustaður þar rétt hjá þar sem kaffibollarnir eru eins og súpuskálar sem er gríðarlega jákvætt í mínum huga. Við löbbuðum þaðan yfir Brooklyn brúna (1.825 m skv.upplýsingum) og það er virkilega gaman að því (muniði ekki eftir þegar Miranda og Steve hittust þar...?;-). Reyndar ekki eins gaman að veðrinu því á bakaleiðinni yfir brúna fór að slydda á okkur og slyddan varð svo að rigningu sem kom til með að endast restina af deginum...svo að útsýnið þennan daginn var nú faktískt ekki upp á marga fiska. En skítt með útsýni, hver þarf það...ehehe? Svarið við þessari spurningu fékkst þegar við tókum ferjuna yfir til Staten Island og reyndum með góðum vilja að sjá Frelsisstyttuna...ok, við sáum hana en svona kannski mest af því að við vildum sjá hana og vissum af henni þarna;-) Þessu vandamáli var svo reddað seinna í ferðinni með því að fjárfesta í verrrulega stóru og góðu póstkorti af þessari ágætu konu með kórónuna sína og kyndilinn. Eftir ferjutúrinn var labbað af stað og markmiðið var að Þorvaldur Kristjánsson veldi veitingastað á leiðinni heim. E-r valkvíði var hins vegar að hrjá húsbóndann þetta kvöldið og þegar við vorum komin alla leiðina upp í Greenvich Village hverfið var ástandið orðið frekar krítískt, allir blautir, svangir og labbþreyttir. Ákveðið var að taka einn gulan og veitingastaður valinn nálægt hótelinu úr bókinni góðu. Sá reyndist vera fullbókaður og stemmingin í hópnum varð ennþá dræmari fyrir vikið...fyrir lán og lukku fundum við samt rosa fínan ítalskan stað (Þ.K. ætlaði alltaf að velja einn slíkan) og átum okkur þar pakksödd og sæl. Og ekki spillti fyrir að húsbóndinn var svo sætur að panta Cosmopolitan handa okkur tveimur -sem er alveg snilldar góður drykkur og greinilega ekki bara flottur og frægur. Fyndið samt að hann minnti okkur aðeins á ákveðinn skagfirskan landadrykk..hehehe;-)
Jæja. Síðasti dagurinn rann upp bjartur og fagur og við af stað vopnuð kerrunni góðu. Byrjuðum í MogM búð á þremur hæðum takk fyrir sem er rétt hjá hótelinu. Gríðarlega vinsælt fyrirbæri hjá Þorvaldi Erni og verður að segjast eins og er að þetta er auðvitað snilld útaf fyrir sig. Bara það eitt að láta sér detta í hug vörur allt frá jólaskrauti upp í skartgripi upp í alklæðnað á hunda sem tengjast þessu sælgæti er snilldarlegt og auðvitað brjálæðislegt líka. Og það var gaman að skoða þá snilldarlegu brjálsemi. Næst á dagskrá var Metro ferð niður á Union Square. Þaðan var labbað niður í Kínahverfið-sem er brillíant hverfi, við römbuðum beint inn á e-r matarmarkað og ég vissi ekki hvað helmingurinn hét af öllu þessu dóti sem var á boðstólum. Þröngar götur, kínversk skilti, kínverskt dót og auðvitað Kínverjar og fullt af þeim. Magnað allt saman. Á bakaleiðinni var komið við á svona gamaldags Diner og við Þorvaldur Örn fengum okkur ekta milkshake, hrikalega góður og gressilega fullur af kaloríum...og talandi um kaloríur þá bættum við nokkrum slíkum við í Magnolia Bakery í Greenvich Village þegar við keyptum okkur alvöru cup-cake svona upp á stemminguna;-) Metroið var svo tekið til baka upp á Upper West þar sem við ætluðum að skoða safn sem er sérhannað fyrir börn. Því miður höfðum við bara ekki nógu langan tíma þar sem skrifast á okkur foreldrana þar sem við föttuðum ekki alveg hvað tímanum leið og smá villutúr með Metro-inu var ekki til að bæta ástandið. En safnið er alger snilld og hefði verið stuð að geta stúderað það miklu betur. En klukkan 5 var lok og læs og við urðum að kyngja því. Og þá var komið að Þorvaldi Erni að velja veitingastað. Og hann tók hlutverkinu af fullri alvöru, vissi að sig langaði í hamborgara en staðarvalið reyndist vandasamt. Að lokum enduðum við á ekki ófrægari stað en MacDonalds og þar sem Þ.Ö. hefur aldrei áður farið á slíkan stað var ekki slorlegt að byrja í NYC. Hann var líka kampakátur með sitt barnabox og enginn fór svangur út.

Þetta fer nú annars að verða dáldið langt mál hjá mér, ég sé það núna, enda er nú svo sem flest upptalið sem við gerðum og sáum í þessari frábæru ferð. Þannig að til að enda þetta einhvern tímann þá er skemmst frá því að segja að við komust öll heil og höldnu heim aftur til Guelph og Kanada tók á móti okkur með kulda og snjó. Helgin leið og bolludagurinn er að klárast í þessum orðum töluðum. Við Þ.Ö. versluðum það sem okkur fannst líkjast bollum mest og redduðum þessu fína bollukaffi. Saltkjöt hins vegar finnum við trúlega ekki hér fyrir morgundaginn...það bíður mín í frystikistunni heima hins vegar ásamt slátrinu og bjúgunum og saltfiski og lambahakki og folaldakjöti og fleiru góðu. Spurning um að hafa þjóðlegt hlaðborð þegar heim verður snúið;-)
Og til að slútta þá bara ítreka ég það að þeir sem hafa möguleika á að heimsækja New York ættu endilega að gera það, þetta er gríðarlega skemmtileg borg að skoða og upplifa. Hún er óneitanlega frekar dýr en hverrar krónu virði.
Svo óska ég ykkur góðra bollna í dag, góðs saltkjöts á morgun og góðs veðurs á öskudaginn með alla sína 18 bræður:-)
Knús frá Kanada (og uppsafnað frá því í New York)

Magga&strákarnir

Sunday, February 15, 2009

Í ferðahug

Hvað get ég sagt nema New York, New York!! Loksins er sem sagt komið að því, við erum að fara til Stóra Eplisins og það barasta á morgun. Við erum öll spennt fyrir þessari ferð, Þorvaldur Örn sér fyrir sér M&M búð og hestavagnaferð í Central Park og það gerum við Þorvaldur K. reyndar líka-ásamt fleiru sem á dagskrá er.
En svo ég tali nú um e-ð annað en borgarferðina þá kom svona smá bakslag í skólagleðina hjá litla guttanum á fimmtudaginn. Þá var hringt í mig rétt fyrir 9 og bara sagt að hann væri ekki alveg að finna sig í dag, hvort ég gæti komið. Og ég náttúrulega fór og hitti minn mann sem var frekar lítill í sér og vildi alls ekki að ég færi. Það átti að vera smá Valentínusar-,,veisla” fyrir þau síðast um daginn og hann langaði nú svoldið að kíkja á það. Þannig að þetta endaði með því að ég var allan daginn í skólanum að skottast með stráknum mínum. Ágætis skóli alveg, ég held bara að honum finnist svo fúlt og glatað að geta ekkert tjáð sig við neinn, þótt að öllum kennurum beri saman um að hann geti alveg skilið það sem er um að vera þá náttúrulega getur hann ekki svarað eða tekið fullan þátt í því sem gengur á. Föstudagur var annar skóladagur og þegar það var svona klst eftir af deginum þá hringir skólinn í mig og þá langar Þorvald Örn að heyra í mér. Og við spjöllum aðeins saman, hann vildi bara að ég kæmi og næði í sig strax en ég gat talið hann á að klára daginn og hann var sáttur við það þegar upp var staðið. Vona bara að þessi frívika í NYC virki vel á skólagleðina hjá honum og hann verði tilbúinn að mæta næst þegar við komum aftur. Skil hann að sumu leyti samt mjög vel, mér þætti örugglega ekkert rosalega skemmtilegt að vera í t.d. rússneskum skóla og geta ekkert spjallað við neinn…en eins og ég hef sagt þá finnst mér mikilvægt að þetta geti gengið vel hjá honum og hann geti hitt og leikið sér við jafnaldra sína.

Í gær fórum við svo niðrí bæ og byrjuðum á því kíkja á Farmer´s Market. Það er mjög gaman að kíkja á hann, við höfum einu sinni áður farið og þetta er verulega sniðugt fyrirbæri. Alls konar dót, aðallega matur (kjöt, fiskur, grænmeti, ávextir, bakstursvörur…o.sv.fr.) á boðstólum og ýmislegt sem maður sér ekki oft m.a. alls konar vörur úr bæði sauða- og geitamjólk, hefur e-r t.d. smakkað ís úr geitamjólk?:-) Gaman að þessu og greinilega er þetta að svínvirka, alveg fullt af fólki sem mætir þangað og kaupir frekar beint af býli heldur en úr búð. Eftir að hafa sest aðeins niður, drukkið kaffi og spjallað aðeins við einhverja staðarbúa (allir voða kammó hérna) þá röltum við að finna rútustöðina (BSÍ þeirra hérna í Guelph). Þar keyptum við okkur miða til að komast nú örugglega til Toronto á morgun og líka heim á föstudaginn. Verðlagið aðeins undir því sem er heima (amk síðast þegar ég ferðaðist með rútu þar-sem er nú kannski ekkert til að miða við lengur…)
Og eins og ég minntist á um daginn þá fannst mér nauðsynlegt að fjárfesta í regnhlífarkerru fyrir guttann áður en út í stórborgarröltið væri haldið. Við lögðum því af stað í hina frábæru verslun Zellers þar sem hægt er að kaupa u.þ.b. allt en gæðin eru kannski ekkert til að fara heljarstökk yfir. Kerruna fundum við og þetta var reyndar alveg bráðfyndið allt saman. Þorvaldur Örn er náttúrulega að verða 5 ára og stór eftir aldri (hefur stærðina trúlega ekki frá móður sinni...)þannig að fyrst höfðum við augastað á kerru sem var frekar stór og hentaði honum ágætlega en hann var ekkert rosalega hrifinn af henni sjálfur, auk þess sem hún var helmingi dýrari en minni kerrur sem voru í boðinu líka. Hann hálftróð sér í eina slíka og fannst hún frábær og af því að ég sé ekki fram á notkun á þessum kerrugrip mikið umfram þessa borgarferð var ákveðið að spara pening og splæsa í eina af minni (og ódýrustu) gerðinni. Þannig að við strolluðum flissandi útúr búðinni með þetta fína farartæki og mér leið næstum því eins og ég væri að keyra pabba hans, því kerran er vissulega lítil og barnið vel stórt;-) En fyrir vikið getur hann hvílt sig aðeins á labbi í NY og við komumst hraðar yfir með hann í þessu kerruskrípi.

Svo í dag þá fór húsbóndinn aðeins í skólann en honum hefur tekist það sem hann ætlaði sér í lærdómi áður en frívikan kæmi og húrra fyrir því. Við Þorvaldur Örn dunduðum okkur á meðan við að pakka niður þeim þvotti sem þurr var orðinn, skila á bókasafnið og svo horfðum við (lesist aðallega ég) á Söngvakeppni Sjónvarpsins frá því á laugardaginn.
Þannig að svona er staðan núna, ferðalagið hefst snemma á morgun og JIBBÍ fyrir því. Læt kannski heyra frá mér ef tækifæri býðst meðan á dvölinni þarna stendur, annars bara þegar heim er komið.

Vona að þið séuð öll spræk og hafið það sem allra best, til sjávar og sveita:-)
-knús að vestan frá okkur
Magga&Þorvaldar

Tuesday, February 10, 2009

New York a naestunni

Nu sit eg herna i tolvuveri bokasafns skolans (hans Thorvaldar K sko). Aetladi ad virkja islenskt lyklabord svo tad yrdi skemmtilegra ad lesa tetta en eg er ekki alveg viss um hvernig tad er gert tannig ad tetta verdur ad duga. Skoladagur hja Thorvaldi Erni i dag og vid lobbudum/ runnum tangad adan, tvi nu er hlaka herna og varla staett a halku. Reyndar a svo e-d ad kolna aftur tannig ad tetta stefnir i aframhaldandi rennsli eftir gangstettum:-)
Helgin sidasta var roleg, forum aftur i sledabrekkuna godu a fostudagskvoldid og tad var mjog gaman. Tad voru mjog fair a ferli tar a teim tima svo vid hofdum eiginlega stadinn utaf fyrir okkur. Thorvaldur Orn vildi endilega profa brettabraut sem er vid hlidina tar sem vid rennum okkur og vid leyfdum honum tad...saum svo a eftir honum a milljon og sjotiu km hrada bruna tar nidur og ta mundi eg ad tad er svona sma stokkbretti tarna...litli kallinn natturulega brenndi beint a tad og flaug af...oabyrgu foreldrarnir hlupu nidur til ad meta skadann sem reyndist ekki vera mikill og lagadist eftir nokkur tar-sem betur fer;-)
Svo a laugardaginn kiktum vid adeins nidur i bae og aetludum ad skoda stora og myndarlega kirkju sem er herna en hun reyndist vera hardlaest. Ta aetludum vid ad fara a uppahaldskaffihusid okkar herna en tad reyndist fullsetid og ekkert plass fyrir okkur...tetta var sem sagt svona dagur tar sem ekkert er almennilega ad virka (vorum sko buin ad missa af straeto lika). En vid skundudum bara a annad kaffihus i stadinn og kiktum i flottu bokabudina sem er tar rett hja. Tannig ad tetta bjargadist allt saman fyrir horn.
Sunnudagurinn var somuleidis tidindalitill, Thorvaldur K er a milljon i skolanum, allt a fullu ad gera tar tessa dagana tannig ad hann for a skrifstofuna fyrir hadegi. Vid maedginin vorum i sma heimaskola a medan. Svo var tolt yfir i stormarkad og verslud stigvel a guttann, akvadum ad skilja Nokia gomlu eftir heima og redda okkur her med einhverjum odyrum bomsum. Sem vid og gerdum, fundum aegilega fin vadstigvel og allir sattir. Enda veitti ekki af, kuldastigvelin alveg a sidustu metrunum og vorid ad koma;-)
Gaerdagurinn var svo bara venjulegur, vid voknudum og Thorvaldur K for i skolann. Vid maedginin vorum heima, reyndar ekki skolatimi hja okkur tar sem vid vorum svo dugleg um helgina. Dundudum inni og forum i godan gongutur enda frabaert vedur. Kiktum svo a vef Namsgangastofnunnar e.h., fullt af skemmtilegu doti tar ad gera og Thorvaldur Orn er mjog hrifinn af svona nams-tolvuleikjum. Svo kom Thorvaldur heim ur skolanum og seinniparturinn leid i rolegheitum. Fiskmaltid vikunnar var svo snaedd i gaerkveldi, fiskur er dyr herna og ekkert vodalega godur, amk ekki hvitur fiskur sem madur kaupir i budinni. Vid keyptum e-n timann fisk (sem eg veit ekki islenska heitid yfir) og aetludum nu aldeilis ad steikja hann og hafa godan. Attum ekkert rasp, tannig ad akvedid var ad nota kornflex i stadinn og ollu draslinu skellt a ponnunum eins og venjan er. I stuttu mali ta hef eg aldrei sed jafn mikid vatn koma ur neinu daudu sjavardyri og vid fengum tarna sod-steiktan fisk med blautu kornflexi sem bragdadist ekkert svakalega vel...sidan hefur verid keyptur lax einu sinni i viku og engir sjensar teknir, bara sodid i potti og kartoflur med. Matur yfirhofud er reyndar frekar dyr herna og vid reynum ad fara ekki of oft i budina. En eitthvad verda vist allir ad borda og engar ahyggjur mamma ef tu lest tetta, vid erum ekki ad veslast upp ur sulti herna:-)
Tad sem er annars adallega i frettum tessa dagana er ad sjalfsogdu New York ferdin i naestu viku!! Vid fundum tokkalega odyrt flug og gistingu a mjog godum stad (takk Steina fraenka fyrir abendinguna) og hlokkum oll mikid til ad fara. En planid er sem sagt ad taka rutu hedan til Toronto og fljuga tadan og vera 5 daga (eiginlega bara 3 i borginni af tvi vid fljugum seint tangad og snemma til baka). Og tad er kominn listi yfir hluti sem okkur langar ad sja og gera en ekkert er alveg neglt ennta eftir dogum. Vid aetlum bara ad taka algera turista a tetta, (enda erum vid algerir turistar ) og sja og skoda eins mikid og vid getum. A listann er komid: Central Park, Metropolitan safnid, Frelsisstyttan, Empire State byggingin, Soho, Brooklyn bruin og svo natturulega Times Square. Einhvad verdur svo bordad og skodad svona utan dagskrar eins og alltaf er. En eins og eg segi ta finnst mer tetta mjog spennandi borg og hlakka tvilikt til ad skoda hana. Reyndar setur tessi ferd akvedna laerdomspressu a husbondann af tvi eins og eg sagdi ta er allt a skrilljon nuna i skolanum hja honum i verkefnaskilum og midvetrarprofum hingad og tangad, tannig ad trulega verdur hann ad laera eins og hann getur um helgina adur en vid forum og svo aftur tegar vid komum. En tad bjargast orugglega:-)

Vona ad ykkur lidi ollum vel, hvar sem tid erud stodd og endilega kommentid, tad er svo gaman ad heyra fra ykkur:-)
Knus fra Kanada;
Magga&Thorvaldar

Wednesday, February 4, 2009

Helgin í miðri viku og fleira...

Góða kvöldið!
Þá kemur smá skýrsla um það helsta sem við höfum afrekað síðan síðast:-)
Á laugardaginn skelltum við okkur til Toronto. Farið var í rútu (sem var reyndar svona skólabíll, gulur og fínn og alveg eins og í Simpsons fyrir þá sem kannast við slíkt, nema að bílstjórinn hét ekki Ottó…) Allaveganna. Við vorum búin að ákveða fyrirfram að skoða ROM (Royal Museum of Ontario) og sú ákvörðun reyndist vera býsna góð þegar á hólminn kom þar sem veðrið leyfði ekki mikið rólegheitarölt, á meðan við strunsuðum áfram í leit að lestarstöðinni hélt ég að fésið myndi frjósa af mér…en það tolldi á sem betur fer og stöðina fundum við og tókum metróið á safnið góða. Þetta er mjög flott safn, riiiiisastórt og fuuuuulllllt að skoða þarna. Við byrjuðum reyndar á veitingastaðnum þar sem allir voru orðnir glorsoltnir og lítt hæfir til annarra verka fyrr en maginn fengi sitt. En svo lá leiðin í risaeðludeildina, eygypsku deildina, inkadeildina, grísku deildina og ég veit ekki hvað og hvað. Þarna er líka vel gert við börn, fullt af sniðugu safna/vísindadóti fyrir þau að skoða og fikta í, enda lærir maður mest af slíku, ekki bara horfa í gegnum gler á gamalt dót…
Að öðrum deildum ólöstuðum held ég að risaeðludeildin standi uppúr eftir þennan dagspart þarna á safninu (sem reyndar spannaði milljónir ára og mörg menningarsamfélög þegar ég hugsa út í það…)
Um borgina sjálfa er það annars að segja að hún er vissulega stórborg og allt andrúmsloft og umhverfi markað af þeirri staðreynd. Við náðum aðeins að upplifa stemminguna með smá kaffihúsarölti eftir safnferðina og svo annarri metróferð til að kíkja á markað sem er mælt var með í túristaupplýsingum. Markaðurinn var mjög flottur, aðallega matur á boðstólum og við fjárfestum í ostum, salami og brauði. Þorvaldur Örn var á þeim tímapunkti orðinn frekar þreyttur og tíminn sem við höfðum til umráða við það að renna út, þannig að markaðurinn var skannaður fremur hratt og svo skálmað til baka í gula skóla/rútubílinn. Sá stutti svaf líka alla leiðina heim og foreldrarnir voru í svipuðum gír sömuleiðis. En dagurinn var góður og ferðin vel þess virði og þá er smá þreyta nú vel réttlætanleg. Nú hefur maður aðeins hugmynd um hvernig þessi borg lítur út og hvað er þar hægt að brasa.

Sunnudagurinn reyndist vera heitasti dagurinn sem við höfum fengið hér í Kanada. Veðrið var alveg frábært, sólin skein og enginn vindur, snjórinn bráðnaði á húsþökum og við Þorvaldur vorum reyndar sammála um að þetta minnti okkur bæði á ákveðna gerð af íslensku útmánaðaveðri...mig fór bara að langa norður á Vatnsnes í volgar kleinur og ískalda mjólk;-) Við ákváðum að nota veðrið og fá okkur góðan göngu/sleðatúr. Fundum rosa flotta brekku í almenningsgarði hér aðeins í burtu og tókum nokkrar góðar sallibunur í henni, Þorvaldur Örn náttúrulega aðalmaðurinn í því. Við þessi eldri fengum reyndar náðarsamlegast að fljóta með í nokkur skipti. Svo ætluðum við að rölta e-ð aðeins meira og fórum í skógargöngu í skóg sem var þarna alveg við brekku-garðinn. Þetta reyndist vera risastór skógur og ég hélt á tímabili að við kæmumst aldrei útúr þessum ósköpum, ég er ekkert rosalega hrifin af skógum svona almennt séð og mér var farið að þykja nóg um. Þorvaldi fannst það bara fyndið, so much fyrir skilning á þeim bænum…enda komumst við svo sem útúr þessu fyrir rest en þá vorum við auðvitað komin lengst í burtu að heiman svo við tók heillangt þramm til baka. Sem auðvitað var bæði hressandi og hollt í þessu góða veðri. Ég ákvað svo um kvöldið að taka einn skokk hring í tilefni veðurblíðunnar og komst alveg ókalin frá því;-)

Mánudagurinn komst svo mjög nærri sunnudeginum að veðurgæðum. En ef e-ð er að marka íslensku vísuna um kyndilmessu sem og múrmeldýrið Phil þá ku það ekki vera mjög jákvætt svona upp á veðurfarið næstu vikurnar…æi, ég nenni nú ekkert að vera að stressa mig yfir því, það kemur allt í ljós. Maður hefur a.m.k. afsökun að hanga í verslunum ef veðrið er leiðinlegt…hehehe;-)

Gærdagurinn var síðan skóladagur hjá Þorvaldi Erni. Og hann stendur sig ótrúlega vel krakkinn, er farinn að pikka upp eitt og annað úr engilsaxneskunni, þetta er allt á góðri leið:-)
Svo er stefnan að fara að negla og planleggja ferð til NYC. Það á víst að vera möguleiki að redda þokkalega ódýrum flugmiðum þangað í febrúar og þá er bara að finna dísent gistingu á Manhattan og fara að hlakka til:-) Já, og ef eitthvað verður tekið með í þá borgarferð þá verður það sko regnhlífarkerra fyrir Þorvald Örn þar sem ég sé fram á massívt stroll um göturnar og hans fjöggra ára fætur eru ekki að nenna slíku ef ég þekki þær rétt...;-)

Þetta er nú svona það helsta það sem á síðustu dagana hérna dreif. Endilega sendið mér línu ef þið hafið e-ð merkilegt eða ómerkilegt að segja:-)
Hafið það gott öll sömul,
Kveðjur að vestan
Magga&Þorvaldar

Thursday, January 29, 2009

Þorramas

Kominn tími á nýja bloggfærslu-er það ekki bara…? Allt er svosem gott héðan. Þorvaldur Örn er búinn að fara þrjá heila daga einn og óstuddur í skólann og líkar bara ágætlega. Hann er til skiptis 2 daga aðra vikuna og 3 hina og er einmitt á morgun líka. Hann fer m.a. í bóksafnstíma og leikfimi-sem á nú vel við minn mann sem vill stanslaust vera á iði. Reyndar tilkynnti hann mér að honum þætti leikfimiskennarinn sinn eiginlega aðeins of stjórnsöm, hún vildi ráða öllu...hmm...ég reyndi að útskýra fyrir honum að þannig væri það nú eiginlega alltaf í skóla, það væri einn fullorðinn kennari sem vildi ráða öllu, þannig væri það nú bara;-)
Maður kemst líka að því hvað maður er vanafastur þegar maður kynnist nýjum siðum í nýju landi. Hér er t.d. nestismenning ráðandi í skólum. Ég hafði svolitlar áhyggjur af Þorvaldi Erni vegna þess, veit að hann fær góðan heimaeldaðan og heitan mat í sínum leikskóla heima og er vanur því en nú verð ég að treysta því að barnið borði það sem ég sendi með honum og borði sig saddan af því. Og hingað til hefur þetta allt saman sloppið fyrir horn, verð samt að viðurkenna að ég er hrifnari af matarfyrirkomulaginu á Íslandi…mun minna vesen fyrir alla;-)

Ég notaði tækifærið verandi barnlaus heima í dag og kíkti aðeins í búðir (gengið líka hagstæðari en verið hefur…*hóst*) Gerði ágætis kaup og ekki orð um það meir:-) Svo heimsótti ég Þorvald í skólann, hann var í eyðu og við borðuðum saman í matsölunni þarna sem samanstendur af skrilljón tegundum af matsölustöðum og einum góðum matsal til að snæða öll herlegheitin í. Við kíktum líka á bókasafn skólans sem er á fimm hæðum, takk fyrir og bókafjöldinn eftir því. Mjög flott. Mér finnst alltaf svo frábært á bókasöfnum, eitthvað svo mikill sjarmi og notalegheit yfir þeim.

Svo erum við búin að planleggja dagsferð til Toronto um helgina:-) Vorum eitthvað að vesenast inn á einhverjum rútusíðum en ekki búin að kaupa miða, svo sér Þorvaldur fyrir tilviljun auglýsta ferð í skólanum og stökk á hana og gerði góð kaup þar. Þetta tekur ca 1 tíma og 40 mín með rútu og verður bara gaman er ég viss um. Stefnan er að skoða Royal Museum of Ontorio og ná bæjar/kaffihúsarölti. Meira held ég nú að vinnist ekki tími til í þetta skiptið-en það í allt í lagi af því við förum örugglega aftur til Toronto.

Kærar kveðjur héðan úr vetrarríki, vona að þið hafið það gott í stjórnleysinu þarna heima:-)
Magga&Þorvaldar

Sunday, January 25, 2009

Helgarútgáfan

Sunnudagurinn að kveldi kominn hér í Kanada og kominn tími til að segja aðeins frá helginni. Hún einkenndist af miklum bílferðum og góðum mat og var í alla staði vel lukkuð. Til að byrja nú á bóndadeginum (og til hamingju allir húsbændur á Íslandi með hann) þá komum við Þorvaldur Örn pabba hans á óvart með kökubakstri þegar hann kom heim úr skólanum. Svoldið gaman að segja frá því að kakan sem bökuð var kom úr nægtabúri Betty Crocker og það var reyndar Þorvaldur Örn sjálfur sem sá pakkann í búðinni einu sinni og leist svo vel á að hann stakk henni bara í körfuna án þess að vera neitt að bera það undir foreldrana (hefur greinilega ekki búist við samþykki við þeirri hugmynd sinni…hehehe). Allaveganna, e-n veginn þvældist kakan heim án þess að við tækjum eftir henni á færibandinu og á sínum tíma vorum við nú ekkert sérstaklega ánægð með þetta framtak guttans til að auka á sætabrauðsát heimilisins. En það breyttist nú allt um helgina þegar hún kom í svona líka góðar þarfir og smakkaðist alveg prýðilega. Betty Crocker veit greinilega alveg hvað hún er brasa blessunin, þetta eru mínu fyrstu kynni af þessari öflugu húsmóður og ég hugsa að hún eigi eftir að koma í góðar þarfir hérna í útlandinu ef baka þarf kökur í hvelli án þess að leggja í mikinn stofnkostnað við slík verk. Þorvaldur Örn var t.d. ekki alveg að gútera að það þyrfti bara duft úr pakka, egg og mjólk til verksins og fannst e-ð vera að gleymast. Á hinn bóginn er ég nokkuð viss um að Betty er ekkert mikið að tapa sér í hollnustunni…hefur trúlega ekki verið snefill af spelti eða hrásykri í þessu pakkadufti…-en skítt með það, kakan var góð og maður er nú ekki að þessu nema til hátíðabriggda;-)
Svo um kvöldið þá höfðum við fjölskyldu videokvöld og hvað haldiði að hafi verið í boði nema The Road to Avonlea!! Vá, það var fyndið að sjá þetta allt aftur, bara næstum eins og hitta gamla vini, maður kannaðist við öll andlitin og atriðin rifjuðust upp þegar maður sá þetta. Og Þorvaldur Örn skemmti sér prýðilega, greinilega smekkmaður á gott sjónvarpsefni.
En áfram með smjörið. Laugardagurinn var tekinn snemma, við nestuðum okkur upp og lögðum upp í ferð til að skoða fossana miklu. Og þeir voru á sínum stað blessaðir og bara býsna flottir. Reyndar var svo kalt til að byrja með að ef ég kem e-um myndum hér inn á eftir þá eigiði eftir að sjá mjög svo rauðnefjaða fjölskyldu á ferðinni…Það sem manni fannst náttúrulega skrýtnast við þetta allt saman er hvað umhverfið er brjálæðislega manngert og það er næstum eins og fossarnir, sem fólk kemur væntanlega fyrst og fremst til að skoða, séu bara aukaatriði. Þarna er allt gert til að selja fólki e-ð annað, spilavíti, hótel, matsölustaðir í massavís, spilasalir og ég veit ekki hvað og hvað. Svoldið annað en að skoða Dettifoss þar sem er einn kamar á ómalbikuðu bílastæði og svo bara göngustígur. Og hvort sem það er þjóðremba eða sveitamennska (og það er jákvætt orð í mínum huga) þá kann ég betur að meta svoleiðis aðkomu að náttúrunni. E-n veginn eðlilegra hefði maður haldið. Engu síður var gaman að sjá þetta allt, við borðuðum m.a. hátt upp í turni með útsýni yfir fossana og nágrenni og það var rosa fínt. Að lokum var tekinn góður skoðunarrúntur um staðinn og síðan haldið heim á leið. Þegar heim var komið heyrði ég aðeins í afmælisbarni dagsins-og innilega aftur til hamingju með daginn pabbi minn:-)
Sunnudagurinn rann svo bjartur og fagur og fjölskyldan bílóða hélt ótrauð keyrslunni áfram. Í þetta skiptið var ferðinni heitið til nágranna-smábæjar sem heitir St.Jacobs. Hann er m.a. þekktur fyrir stóran bændamarkað sem okkur langaði að kíkja á og sjá og kaupa kanadísku útgáfuna af beint frá býli vörum. Reyndar komumst við að því að markaðurinn er ekki opinn á sunnudögum…úps…en það var ákveðið að gera gott úr því, skoða bæinn (sem er krúttlega Lauru Ashley útgáfan af Hvammstanga) og fá sér e-a næringu og svona. Við römbuðum inn á veitingastað og ætluðum að fá okkur e-ð létt, súpu og salat eða e-ð svoleiðis bara en viti menn-við höfðum rambað á eitt það svakalegasta sunnudags-brunch sem ég hef á ævi minni upplifað. Þetta var í rauninni fáránlega ódýrt miðað við matarmagnið og úrvalið, 17 dalir fyrir hvort okkar Þorvaldar og ókeypis fyrir 4ja ára og yngri. En jéminn eini, það sem var í boði þarna! Og ég verð að viðurkenna að ég er farin að skilja offituvandamál í þessum heimshluta ef þetta er sýnishorn af normal matarmenningu. Þetta var vissulega gaman, maður var að smakka mat sem maður þekkti ekki og mér fannst t.d. gaman loksins að vita hvernig pumpkin-pie bragðast-sem er reyndar ekkert sérlega vel en það er aukaatriði ;-) Við ákváðum a.m.k. að kíkja þarna einhvern tímann aftur áður en Þorvaldur Örn verður 5 ára og þá líka á bændamarkaðinn.
Leiðin heim einkenndist af setningum á borð við: Hmmm…helduru að þetta sé rétta leiðin…? Mér finnst eins og við hefðum átt að beygja áðan…æi…þetta reddast, ég held að við séum örugglega amk að keyra í rétta átt…-og fleiri slíkum góðum þar sem við Þorvaldur náðum ekki alveg nógu góðum kontakt við google-leiðarlýsinguna…hehe…en e-n veginn gekk þetta nú allt saman og við enduðum hér heima öll sömul. –Nýttum reyndar að sjálfsögðu tækifærið og fórum í matvörubúð fyrst við vorum á bíl. Þar var ávaxtadeildin vel skönnuð, enda ætla ég ekki að taka þátt í þessari matarbilun (nema um svona sparihelgar þe;-)
Jæja, nú er ég búin að blaðra óhóflega mikið hérna og er að hugsa um að láta staðar numið. Fram undan er 3ja daga skólavika hjá Þorvaldi Erni og spennandi að sjá hvort það gengur ekki bara vel, a.m.k. gekk allt ljómandi vel á fimmtudaginn síðasta þegar hann var einn í skólanum næstum fullan dag. Áfram að vona það besta í því sambandi.

Sendum svo að lokum öll góðar kveðjur heim (og líka til útlandalesaranna) og vonum að sem flestir nái að borða fullt af góðum þorramat þessa dagana:-)

Bless í bili öll sömul og ég hlakka til að heyra frá ykkur,
Magga&Þorvaldar

Wednesday, January 21, 2009

Miðvikudagur og lífið gengur sinn gang

Þá eru komnar 3 vikur hér í Kanada og nokkurn veginn hægt að fara að tala um rútínu á heimilisfólki. Aðlögun Þorvaldar Arnar í skólanum er reyndar ennþá í gangi, við mættum í gær og förum aftur á morgun. Gærdagurinn gekk fínt, hann hefur reyndar ekki mikla þolinmæði þegar það eru tímar þar sem á að hlusta og sitja kyrr…en leiktímarnir úti og inni gengu vel. Ég er því bara býsna bjartsýn á þetta allt saman:-) Svo var keypt snjóþota á heimilið og hún stendur sig vel í hlutverki heimilisbílsins og er notuð til flutninga á barni, mat og töskum, alveg heilmikill munur. Hún svínvirkar líka sem snjóþota, við stórbætum millitímann í hvert skipti sem við brunum niður þessu fínu brekku sem er rétt við skólann (og er reyndar göngustígur líka...;-)

Við fundum bókasafnið í ca 1km fjarlægð héðan. Lítið útibú, minna en í Borgó reyndar-en þjónar sínu hlutverki og barnadeildin er alveg sérstaklega góð. Við mægðinin röltum þangað í dag og komum klifjuð heim. Öll útlán, bæði á bókum og dvd myndum eru ókeypis svo lengi sem maður bara býr í Guelph. Og þetta nýtum við okkur óspart og tökum fullt af bókum. Svo reyni ég að lesa Franklín skjaldböku og Litlu Snillingana á ensku og þýða jafnóðum yfir og vona að það skili sér í aukinni enskukunnáttu guttans. Og af því að hér er ekkert sjónvarp (sem venst býsna vel) þá flutu nokkrar dvd myndir með heim líka til að kíkja á í tölvunni á kvöldin. Úrvalið er bara gott, eiginlega frekar gamalt og gott;-) Ég tók t.d. The Road to Avonlea, ef e-r (væntanlega kvenkyns) man eftir þeim þáttum síðan…vá…alveg 1995 eða 96 minnir mig. Gaman að rifja það upp, á að gerast að mig minnir hérna í Kanada.

Um helgina er svo planið að leigja bíl og fara og skoða Niagra-fossana sem eru hérna rétt hjá. Örugglega gaman að því. Og svo ég tala aðeins meira um ferðaplön þá er ferð til NYC á dagskrá í febrúar!! Mig langar rosalega mikið til að skoða þá borg og hún er ekki það langt í burtu (amk ekki ef maður hugsar eins og flugvél…) og við ætlum að grípa tækifærið og kíkja þangað. Svo er jafnvel stefnan að skoða Toronto í mars, apríl er óráðinn en tvær vikur í maí fara í pjúra ferðalög.

Takk annars kærlega fyrir kommentin, það eru nokkrir sem hafa talað um að kommentakerfið sé ekki að standa sig sem slíkt en ég hef bara ekki hugmynd af hverju…þannig að endilega þeir sem geta kommentað þeir geri það af miklum móð-hinum er meira en velkomið að senda mér línu í pósti í staðinn:-)Alltaf gaman að heyra að heiman (þótt það virðist ríkja skálmöld á Íslandi núna, amk á Austurvelli…mér datt nú bara Flóabardagi í hug þegar ég heyrði um þetta grjótkast...).
Allaveganna, þá vona ég að þið hafið það öll sömul gott til sjávar og sveita.

Bestu kveðjur frá Kanada í bili,
Magga&Þorvaldar

Ps Ennþá kalt-en við höndlum það (vorum svo svöl fyrir hehehe)

Friday, January 16, 2009

Kalt-kaldara-kaldast

Þá er kominn föstudagur og helgin framundan. Síðan ég bloggaði síðast (sem var jafnframt þegar ég bloggaði fyrst) þá hefur lífið bara gengið bærilega hér í kuldanum. Sem er reyndar pent orð yfir þetta veður sem er hérna og er fremur mannfjandsamlegt. Ég taldi mig nú þekkja kulda utandyra ágætlega, borin og barnfædd á mínu frábæra annesi í nokkurn veginn beinni sjónlínu við Norðurpólinn. En eftir tilraunir mínar til reka hér út mitt norðlenska nef þá efast ég um kuldaþol mitt og minn stórkarlalega hlátur..ehemm. Ég hef t.d. reynt að skokka hérna nú í nokkur skipti og fram til þessa gengið bara ágætlega. Dressaði mig svo upp áðan í ullarnærföt og lopapeysu, með trefil og tvenna vettlinga og ætlaði aldeilis að massa þetta asnalega veður og taka einn góðan hring. Komst reyndar aðeins minni útgáfu af þeim hring sem ég hef tekið hingað til en mikið svakalega var mér kalt! Ef þið hafið séð Tomma&Jenna þáttinn þegar Tommi hendir Jenna út í snjóinn og tekur hann svo inn aftur með krumpað skott og helbláan þá var það nokkurn veginn þannig sem mér leið (mínus skottið). Veðurlýsingin talar um -18°C frost, sem ”feels likes -28°C” væntanlega út af því að samhliða er 71% raki og vindkæling...brrr...
En ekkert kvart hér, maður fær sér bara heitt kakó og hefur það kósí á meðan þetta varir.
Ég veit annars ekki hvort það var kuldinn eða hvað en Þorvaldur Örn varð lasinn í gær. Við vöknuðum extra snemma af því hann átti að byrja í skólanum. Svo gat minn ekki klárað morgunmatinn sinn, sem mér fannst pínu skrýtið því venjulega borðar hann manna mest. En áfram var haldið og við mæðginin löbbuðum í skólann í skítakulda. Þar varð hann fljótlega alveg ómögulegur, hékk bara á mér og vildi ekkert gera. Ég hélt kannski að þetta væri bara mótþrói og kvíði útaf skólanum en svo leit ég á krakkann og allt í einu kveikti ég á perunni-hann var að verða lasinn. Í stuttu máli þá voru þetta ekki skemmtilegar 2 klst í þessum skóla (sem mér líst reyndar annars alveg prýðilega á, fullt af skemmtilegum hlutum sem verið er að gera með krökkum þarna). Alltaf dró meira og meira af mínum manni og hann var orðinn heitur á enninu og ískaldur á höndunum þegar við fórum. Og þá sá ég fram á labb heim í títtnefndum ískulda, með strákinn sem stóð varla undir sjálfum sér plús töskur...en haldiði að ég sjái þá ekki eitt stykki Taxa í íbúðargötunni við skólann og ég dröslaði barninu yfir götuna og að bílnum og höslaði okkur far heim. Góðhjartaða konan sem keyrði hefur örugglega unnið í lottóinu í gær ef karma virkar. En Þorvaldur Örn fór beint í bólið og var svo með yfir 40 stiga hita í gærkvöldi. Hann var samt sem betur fer hitalaus í dag og þetta er vonandi að rjátlast af honum.
Læt þetta duga í bili. Á helgarplaninu er ekkert sérstakt, en ætli það fari ekki eftir heilsu- og veðurfari hvað verður gert.

Kveð í bili (stefnan er svo að setja hér inn e-ar myndir, e-n tímann...)
Magga&Þorvaldar

Tuesday, January 13, 2009

Sælt veri fólkið!

Jæja. Ég ákvað að á meðan vestanhafsdvölinni stendur myndi ég sjá um að skrá hérna helstu fréttir og ekki-fréttir af okkur fjölskyldunni. Ákvað reyndar fyrir löngu að fyrr myndi ég nú gera ýmislegt annað heldur en að blogga en svona gengur þetta stundum, greinilega á maður aldrei að segja aldrei (eða allaveganna frekar sjaldan…). En við erum sem sagt lent í Kanada, í bænum Guelph nánar tiltekið. Við komum hingað á nýársdag og ferðalagið gekk vonum framar. Bárum Þorvald Örn sofandi inn og útúr seinni flugvélinni og vorum öll orðin fremur slæpt þegar við náðum loks á gistiheimilið. Ákváðum að eyða fyrstu nóttinni þar vegna þess að okkar íbúð á kollegíinu (góð íslenska hér…) var gersamlega galtóm. Enda hafa þessar fyrstu vikur hérna farið í að skrapa saman dóti og helstu nauðsynjavörum svo við hringlum ekki þar bara þrjú. Annars er þetta ágætis íbúð og frekar stór á íslenskan nemendagarða-mælikvarða. Það er kjallari-með þvottavél og þurrkara (já!), svo eldhús, anddyri og stofa á 1.hæð og 2 svefnherbergi og bað efst. Allt með ágætum sem sagt. Og eftir nokkrar ferðir í nálægar búðir og eina á leigðum bíl í hina ljómandi fínu og alþjóðlegu verslun IKEA í nágrannabæ höfum við flest sem við þurfum. Enda eru nauðsynjavörur vissulega teygjanlegt hugtak, uppþvottavél er t.d. æðisleg en ekki nauðsynleg…nema maður eigi fjóra krakka og einn mann eins og Þorbjörg systir;-) Svo hefur maður vissulega gott af því að hafa hvorki bíl né sjónvarp og þurfa þ.a.l. bæði að hugsa og labba meira en ella. En tölvan er þó hér, árgerð 2005 og vel nettengd og þá er nú sambandið við umheiminn komið. (Svo getur Þorvaldur auðvitað horft á landsmótsdiskinn í henni;-)
Allaveganna. Hérna á kollegíinu er fólk af ýmsum þjóðernum, m.a. Íslendingar aðrir en við. Þau Guðmundur og Jóhanna sem bjuggu einu sinni líka á Skólaflöt 12 ásamt sínum strákum eru hér og búin að vera í 2 ár. Við fengum rosa góðar móttökur hjá þeim, munaði sko aldeilis um það þegar maður er nýr og þekkir ekki áttirnar, hvað þá meira. Svo er ein kona hérna líka sem bjó á Íslandi í 16 ár og tók vel á móti okkur sömuleiðis. Kollegíið sjálft eru nokkrar blokkir sem mynda lítið hverfi þar sem ekki er keyrt á bíl inn í (aha-sniðugt) og hér er smá leikvöllur fyrir börn og þetta er bara mjög fínt og skemmtilegt umhverfi. Blokkirnar sjálfar komast nú trúlega seint á heimsminjalista fyrir fagurfræðilegan arkitektúr en hverjum er ekki sama fyrst hverfið er fínt og staðsetningin góð.
Þorvaldur er ca korter að labba í skólann og við Þorvaldur Örn erum búin að skoða skólaumhverfið með honum. Þetta er reyndar alveg hellingur af byggingum á stóru svæði sem útleggst á ensku sem campus, allt fullt af lærandi fólki alls staðar og skemmtilegur andi yfir þessu öllu. Þorvaldur skráði sig í fimm kúrsa alls, síðasti skráningardagur var á föstudaginn og hann ákvað bara að skrá sig eins og enginn væri morgundagurinn og geta svo frekar skráð sig úr einhverju ef það virkar ekki. Fyrir vikið þá hefur hann nóg að brasa í skólanum.
Í dag fórum við í heiiiiilalanga strætóferð til að hitta skólanefndarkonu og fá hjá henni plagg svo við getum farið og skráð Þorvald Örn í skóla hérna. Krakkar byrja hér 4ja ára í svokölluðum junior-kindergarten sem er svona n.k. for-forskóli…magnað það. Og við mæðginin ætlum á morgun að trítla í skólann sem hann á að fara í –sem er í 15 mín. labbfæri héðan og vita hvort þetta gengur nú ekki allt upp. Samkvæmt okkar upplýsingum verður hann 2 daga aðra hverja viku og 3 hina. Dagana sem hann verður ekki í skólanum munum við tvö brasa e-ð saman, ég hef verið að halda uppi ákveðinni mynd af heimaskóla það sem af er og stefni ótrauð áfram. Verð samt að nota tækifærið og lýsa aðdáun minni á kennurum, er búin að komast að því að mínar þolinmæðislímingar dygðu skammt í slíkum störfum.
Og þá að veðri. Stutt og laggóð lýsing væri: Kalt. En svona til að prjóna aðeins við hana þá er reyndar mis-skítkalt og svo verð ég að viðurkenna að það er miklu meiri vetur hér heldur á Íslandinu góða. Þetta er svona vetur eins og ég man eftir síðan ég var krakki og eyddi löngum stundum í skólabíl, mismikið föst í skafli á góðum vegum Vatnsnesins. Snjór og kuldi maður lifandi en ekki snjór í tvær mínútur og svo er hann fokinn út í hafsauga, nái hann ekki bráðna í rigningunni fyrst. Og við erum vel búin og hlægjum bara stórkarlalega í kuldanum...ehehe
Svo erum við búin að skoða miðbæinn (sem lofar góðu) og finna okkar-kaffihús (sem Þorvaldur reyndar á heiðurinn af að finna með hjálp kaffilegu konunnar), búin að finna bíó og sjá þar frekar subbulega rottu-músa teiknimynd. Af hverju er ekki hægt að nota minna af loðnum nagdýrum og meira af raunverulegum börnum þegar verið er að gera teiknimyndir fyrir börn...? Best að láta Mikka mús svara þessu...
Og svona til að hafa smá samantekt á þessu þá erum við öll spræk og bjóðum nóg af gistiplássi ef einhvern langar í heimsókn:-)

Kveðjur úr Vesturheimi,
Magga&Þorvaldar