Sunday, March 29, 2009

Afmæliskaffi og sitt hvað fleira

Nú er best að blogga svoldið, ég hef ekki staðið mig alveg í því stykkinu undanfarna dagana! Sko. Geirlaug yfirgaf okkur fimmtudaginn 19.mars. Heimferðin gekk nú e-ð betur hjá henni heldur en ferðin hingað, fyrir utan það reyndar að taskan ákvað að láta e-ð bíða eftir sér, var ekki alveg tilbúin að koma aftur til Íslands greinilega. Svo um helgina síðustu voru opnir dagar í skólanum hans Þorvaldar K. Þetta er árviss viðburður sem gengur undir nafninu Collage Royal (CR) (ég varð nú ekki vör við neina konungborna gesti samt...) og þarna kemur múgur og margmenni að skoða. Það eru um 3000 sjálfboðaliðar úr hópi nemenda sem standa að skipulagningunni og húrra fyrir þeim, því þetta er talsverð vinna trúi ég. Við mættum þarna uppúr hádegi á laugardeginum. Lögðum reyndar af stað um hálf 10 heiman að og tókum þá strætóinn framhjá skólanum og niður í bæ. Erindið var tvíþætt; annars vegar að taka púlsinn á þeim tveimur bílaleigum sem þar eru staðsettar vegna þess að nú líður óðum að ferðalaginu okkar og við þurfum aðeins að fara að skoða ferðamátann. Í stuttu máli voru gaurarnir á leigunum ekkert ægilega jákvæðir út í plönin okkar...það er greinilega ekki vinsælt að leigja bíla og nota þá til að keyra vítt og breitt og svo að ætlast til að geta skilið við þá í öðrum borgum (þar sem eru samskonar leigur eða branches nota bene), það mætti nú ekki miklum skilningi...þannig að við snérum nú fremur dræm frá bílaleigunum og erum núna að spá og spekúlera hvernig við ætlum að tækla þetta í apríl. Hin ástæðan fyrir bæjarreisunni var að sjálfsögðu bændamarkaðurinn góði sem við erum orðin frekar hrifin af. Þar tróðum við talsverðu af góssi í bakpokann, m.a. frábærum niðursoðnum kúrbít-alger snilld með steiktum eggjum, jarðarberjum og eggjum (no eggs, no omelette) úr hænum sem aldar eru upp á Mennonítabýli (gaman að segja frá því). Já og á markaðinum pöntuðum við líka páska-lambið hjá fulltrúa kanadískra sauðfjárbænda þarna. Stefnan er svo að sækja ketið á markaðinn laugardaginn 11.apríl.

Þannig að uppskeran úr bæjarferðinni var í raun ágæt, þó svo að bílaleigurnar hefðu mátt standa sig betur. Við gátum svo geymt bændamarkaðsgóssið á skrifstofunni hans Þorvaldar í skólanum og þurftum ekki að drasla því með okkur um háskólasvæðið. Opnu dagarnir eru nefnilega-eins og nafnið bendir til, opnir í þeim skilningi að allar skólabyggingarnar eru opnar almenningi og ýmislegt í boði á hverjum stað. Við fengum t.d. að strolla um fjósið þar sem boðið var upp á n.k. húsdýragarð og hægt að sjá þessi hefðbundnu húsdýr; kýr (með og án fistúlu-kannski ekki svo hefðbundnar þessar með fistúlurnar...), hross, svín, kindur o.þ.h. Allt saman ágætt við það. Svo var e-r húsdýrasýning í gangi í íþróttahöllinni og við þangað. Það tók okkur smá stund að átta okkur á því út á hvað sýningin gekk vegna þess að það voru dómar í gangi og nemendur að sýna bæði hross, kindur, kvígur og svín-en í raun var verið að dæma nemendurna og hvernig þeir sýndu dýrin en ekki dýrin sjálf! Frekar fyndið allt saman, sérstaklega þegar verið var að dæma svínin og krakkarnir stjórnuðum þeim með svona tré-göngustöfum og grísagreyin nenntu þessu veseni klárlega ekki;-) Þetta voru líka sömu krakkirnar að sýna mismunandi dýr og eins og við skildum þetta, þá höfðu þeir ekkert endilega þjálfað dýrin sjálfir heldur tóku bara við þeim þarna til að sýna þau. Magnað alveg og mjög fyndið. Allaveganna. Eftir meira rölt um fleiri háskólabyggingar (nóg er af þeim) þar sem hægt var að skoða hitt og þetta létum við staðar numið (í þeim skilningi að við löbbuðum heim). Daginn eftir kíktum við reyndar aðeins meira á CR til að sjá þar hundasýningu. Þar voru hlýðnidómar og mis-(ó)hlýðnir hundar á ferð. ÞK eyddi seinniparti dagsins á skrifstofunni og við ÞÖ fórum heim og steiktum lummur svona af því það var sunnudagur og afgangur af hafragraut í ísskápnum.

Síðan hafa dagarnir liðið í tiltölulegum rólegheitum. Kennarinn hans Þorvaldar Arnar stakk upp á því að stytta aðeins daginn hans og síðan þá hefur hann verið sáttur í skólanum-gaman að segja frá því og vonandi að það gangi þannig þessa daga sem eftir eru. Sem eru nú ekki margir þegar maður telur, enda Kanadadvölin tekin að styttast í annan endann.

Veðrið hefur verið ljómandi gott-svona langoftast þessa síðustu daga. Í gær t.d. röltum við Þorvaldur Örn aðra leið heim úr skólanum en vanalega, ákváðum nefnilega að skoða leiktæki sem við höfðum ,,spottað” e-n áður þegar ekki var færi á nánari athugun. Þetta reyndust hin ágætustu leiktæki og undirlagið var þessi fína ljósgráa möl sem Þorvaldur lék sér nú hvað mest að, það var t.d. hægt að fylla stígvélin af henni og búa til snjó-engla og almennt velta sér uppúr henni. Ég naut þess að láta sólina skína á mig á meðan og uppskar rauðan hársvörð fyrir vikið...greinilega spurning um að fara að fjárfesta í sólarvörn áður en langt um líður...

Í gær héldum við svo smá afmæliskaffi fyrir Þorvald Örn en hann verður hvorki meira en minna en 5 ára á mánudaginn kemur! Af því stólaeign okkar er ekki mikil ákváðum við að fá félags-íbúðina lánaða hérna, það er sem sagt bara svona venjuleg íbúð hérna á görðunum sem er nýtt sem svona félagsmiðstöð fyrir íbúana. Við keyptum köku og meðlæti og buðum nokkrum vel völdum gestum og þetta lukkaðist vel í alla staði (nema kannski þegar ég brenndi eplapæið sem Þorvaldur valdi í búðinni og hlakkaði svo til að smakka-það var reyndar hægt að skrapa brenndu skánina ofan af og borða restina, sem var alveg ágæt ;-). Veðrið var frábært og allt morandi í krökkum og fullorðnum úti fyrir og afmælisbarnið var sáttur með daginn. Eins gott að við ákváðum að hafa þetta í gær vegna þess að í dag rignir bara og rignir...

Framundan er svo síðasta kennsluvikan hans Þorvaldar K hvorki meira né minna! Auðvitað eru verkefnaskil og próf og e-ð svona vesen fram til 15.apríl en kennslu er allaveganna að ljúka og gaman að því. Ég er farin að hlakka heilmikið til þess að komast í ferðalagið okkar og sjá aðeins meira af landinu.

Jæja, ætli ég segi þetta ekki gott í bili, ætla að reyna að hafa styttra milli bloggfærslna í framtíðinni:-)
Vona að þið hafið það öll sömul sem allra allra best,
Kveðjur úr rigningunni héðan
Magga&Þorvaldarnir

1 comment:

  1. Til hamingju með 5 ára stubbinn, ótrúlegt hvað tíminn líður.
    Klem á ykkur

    ReplyDelete