Sunday, April 19, 2009

Bless bless Guelph!

Jæja!! Þá er hann runninn upp og eiginlega að verða um garð genginn; síðasti dagurinn okkar hérna í Guelph! Helgin fór í þrif og niðurpakkningar og meiri þrif og meiri niðurpakkningar og mig langar að spyrja: Veit e-r hvaðan allt þetta dót kemur?! Núna sit ég hérna á stofugólfinu, umkringd ferðatöskum, sem eru svo gjörsamlega stöppufullar að ég krossa fingur og tær og vona bara að allir rennilásar haldi (svo ekki sé nú minnst á yfirvigtaráhyggjur-en þær koma þó ekki strax af fullum krafti;-) Nei, í alvöru þá finnst mér við ekki hafa verið að versla neitt svakalega mikið hér, ég keypti aðeins af fötum á Þorvald Örn þegar gengið var hagstætt og það er nú trúlega það helsta. Smá af fötum á okkur og smá minjagripir-og samt, belgfullar töskur horfa nú á mig úr öllum áttum...uss uss...
En það breytir ekki því að við erum búin að klára vistina hér í þessum bæ og nú tekur smá flakk við áður en heim verður snúið. Morgundagurinn verður vissulega strembinn, leigubíll-rúta1-rúta2-bílaleigubíll og hátt í 5 tíma keyrsla áður en áð verður í Ottawa. En ég hlakka bara til, er viss um að þetta verður rosa fjör:-) Ferðalög eru svoooooo skemmtileg.
Ég ætla að reyna að setja hér e-ar færslur svona við og við og láta heyra í mér en núna hef ég ekki meiri bloggtíma af því við verðum víst að klára fráganginn, það verður ræs árla í bítið á morgun;-)
-Gangi ykkur öllum vel í öllu ykkar brasi, ég sendi bestu kveðjur frá Guelph -trúlega í síðasta sinn:-)
Heyrumst síðar,
Magga&Þorvaldarnir kveðja í brjáluðu ferðastuði

Sunday, April 12, 2009

Páskar og bráðum ferðalag

Gleðilega páska allir saman!! Ég vona að páskarnir hafi verið –og séu enn, notalegir og góðir og með nóg af súkkulaði…Okkar páskadagur hófst á ratleik með það að markmiði að Þorvaldur Örn fyndi páskaeggið sitt. Það tókst á endanum (lokafelustaður eggsins var frystihólfið) og hann var kampakátur með árangurinn og át meira af egginu en nokkru sinni fyrr. Ég held að það megi rekja til þess að þetta var svona Rísegg og hann, sem er almennt frekar sérvitur þegar kemur að súkkulaði, sætti sig betur við það heldur en ef súkkulaðið hefði verið hreint. Málshátturinn var: Enginn fitnar af fögrum orðum…hmm…en mér er spurn; ætli það sé hægt að grennast af þeim..? Allaveganna, það er ekki eins og Þorvaldur Örn þurfi að passa línurnar, hann er í laginu eins og hrífuskaft blessað barnið (e-r hefði reynt að láta hann drekka rjóma er ég hrædd um;-) Svo var tekinn göngutúr, lesið og dundað inni og svo aftur farið út og dagurinn leið bara í þess háttar rólegheitum hjá okkur mæðginum. Þorvaldur K. eyddi honum hins vegar að mestu leyti á skrifstofunni að lesa fyrir próf morgundagsins sem er á þeim furðulega tíma kl.7 að kveldi…frekar skrýtið það og ég veit ekki hvort það er vegna páskanna (en annar í páskum er ekki alls staðar frídagur hér) eða hvað er málið eiginlega. Mér finnst það amk furðulegt að fara í próf á kvöldmatartíma á almennum frídegi.
En ég ætlaði líka að segja frá páskasteikinni meðan ég man. Þetta var sem sagt lambalæri af e-u mjólkurkyni (get ómögulega munað hvað sölukonan kallaði það, hafði ekki heyrt það áður). Og í stuttu máli þá minnti þetta mig frekar á kálfakjöt en lambakjöt-sem orsakast trúlega af því að þetta var mjólkurlamb en ekki svona páskalamb eins og við eigum að venjast heima. Rosalega meyrt og gott þannig en ekki beinlínis bragðmikið, meira svona út í það að vera mjög bragðlítið. En Þorvaldur brúnaði kartöflur og með St.Dalfour rifsberjasultu og salati var þetta auðvitað sælkeramatur allt saman. -En auðvitað hefur íslenska lambakjötið ennþá vinninginn með sitt fjallabragð-en ekki hvað…?;-)

Við Þorvaldur Örn erum bæði búin að fá okkur vorklippinguna hér og Þorvaldur K. ætlar að fylgja í fótspor okkar með það von bráðar. Við fórum á klippistofu sem er á campusnum og gaurinn sem klippti okkur leit meira út fyrir að vera e-s konar iðnaðarmaður, smiður eða e-ð svoleiðis, heldur en þessi standard klippitýpa sem maður á að venjast. Miðaldra, óskup venjulega gaur en klippti alveg ágætlega svo það greinilega felst ekki allt í lúkkinu hjá þessum klippurum…dettur í þessu sambandi í hug barnalæknirinn sem ég hélt fyrst að væri húsvörður;-)

En það er nú svo komið að nú er síðasta vikan okkar hérna í Guelph að renna upp-jahérna og jéminn hvað tíminn líður hratt. Við erum búin að fastsetja okkur bílaleigubíl í Toronto og búin að fá loforð um að mega geyma hluta af farangrinum þar hjá semi-íslenskri konu, þá þurfum við ekki að dröslast með allt með okkur allan tímann. Svo erum við búin að auglýsa þessi fáu húsgögn okkar sem möguleiki er að selja og alveg heilir 3 aðilar eru búnir að lýsa yfir áhuga á þeim, þannig að ég vonast nú bara til að geta selt þetta allt saman og þannig að fá amk helminginn af peningnum til baka. Svo voru Guðmundur og Jóhanna að segja mér að það sé víst eins gott að þrífa íbúðirnar hérna almennilega, fólkið sem var hérna á undan okkur fékk víst feitan bakreikning af því það þurfti að þrífa betur eftir þau. Eins gott að skúra, skrúbba og bóna-nenni ekki svoleiðis veseni og útgjöldum.
Vikan framundan fer þess vegna í frágang og snatt, húsgagnasölu, þrif og reyndar líka húllumhæ þar sem auðvitað eru feðgarnir báðir að ,,útskrifast” úr skólunum sínum og við verðum nú aldeilis að fagna því:-)
Næsta sunnudag verður allaveganna allt að vera klárt því þá byrjar ferðalagið-og ekki væri verra að krónugreyið myndi nú nota vikuna til þess að taka sig saman í andlitinu og styrkjast þó ekki væri nema um nokkur prósent…það væri óneitanlega ansi gott.

-Njótiði svo restarinnar af páskunum og bara alls hins besta:-)
Páskakveðjur að vestan,
Magga&Þorvaldarnir

Sunday, April 5, 2009

Vor eller ej...?

Á mánudaginn varð litla barnið í fjölskyldunni 5 ára!! Skrýtið að eiga bráðum barn í grunnskóla...tími líður og allt það. Afmælisdagurinn var rólegur, gjafir opnaðar og kaka borðuð og svo bara leikið og dundað í nýju dóti og allir sáttir. Veðrið var líka hundfúlt, ískalt og lítið gaman að útiveru, enda er: Vor-ekki vor, vor-ekki vor besta lýsingin á veðurfarinu sem verið hefur hérna núna undanfarna daga. Á föstudaginn rigndi eins og hellt væri úr nokkrum fötum og í gær var svona páskaeggjaleit fyrir krakka á collegíinu og það var ískuldi! Við dressuðum okkur upp, Þorvaldur Örn í snjóbuxum og úlpu, norpuðum um milli trjánna og týndum upp nokkur plastegg (sem reyndust nú meira vera svona dreifð um svæðið, fremur en týnd...). Hann fékk svo súkkulaði í verðlaun og við flýttum okkur heim og inn úr kuldanum. Svo í dag þá var þetta fína, hlýja vorveður. Við fórum niðrí bæ og byrjuðum á kaffibolla á Red Brick. Við Þorvaldur erum sammála um að það sé leitun að jafn góðum cappucino-bolla og á þessu kaffihúsi, alveg ferðarinnar virði í sjálfu sér. Tilgangurinn var samt ekki bara að sötra cappucino heldur fremur að kíkja á lestarstöðina og athuga hvort það geti verið fjárhagslega hagkvæmara að ferðast með lest fremur en leigja bíl í ferðalagið. Lestarstöðin opnaði ekki fyrr en kl.4 þannig að tímann sem við höfðum nýttum við í kaffidrykkju og svo gerðum við tilraun nr.2 til að skoða ,,dómkirkju“ svæðisins. Hún reyndist opin í þetta skiptið svo við gátum rölt um og skoðað. Ágætis kaþólsk kirkja bara svona og nú erum við amk búin að sjá hana. Svo loksins þegar lestarstöðin opnaði þá fengum við að vita að það er rándýrt að ferðast hér með lestum og ekki sjens að það borgi sig fyrir okkur að reyna slíkt ætlum við að halda budgeti. Skrýtið að almenningssamgöngur skuli vera svona dýrar í svona stóru landi.
Síðan brunaði strætóinn framhjá nefinu á okkur rétt áður en við gátum gómað hann til baka. Af því veðrið var svo frábært ákváðum við að rölta bara aðeins af stað, enda líður alveg hálftími milli vagna. Það teygðist svo úr því rölti því við enduðum heima í íbúð 30 án þess að taka nokkurn strætó. Vorum ekki mikið lengur en ca klukkutíma að því og Þorvaldur Örn labbaði nánast alveg allan tímann, pabbi hans rétt aðeins ferjaði hann síðasta spölinn. Uppskeran úr bæjarferðinni varð því í stuttu máli gott kaffi og góður göngutúr.

-Reyndar var uppskera dagsins aðeins meiri, því Þorvaldur K. skilaði af sér lokaverkefni í einum af þremur kúrsum og er þess búinn í honum og gaman að því, þetta er allt að koma:-)

Næst á dagskrá hjá okkur er að bóka bíl fyrir ferðalagið og gistingu, þ.e.a.s. fyrstu nóttina og svo trúlega á Prince Edward Island líka. Hinum nóttunum verður meira svona reddað þegar þess þarf-óþarfi að hengja sig í of stíf plön;-) Páskarnir alveg á næsta leyti með kanadísku lambakjöti og íslensku páskaeggi fyrir þann 5 ára, það á nú eftir að gera stormandi lukku er ég viss um.
Ætla ekki að hafa þetta mikið lengra í bili, en við sendum rosa góðar kveðjur til ykkar allra og vonum að vorið sé farið að verma klakann:-)
Knús frá Kanada,
Magga&strákarnir

Sunday, March 29, 2009

Afmæliskaffi og sitt hvað fleira

Nú er best að blogga svoldið, ég hef ekki staðið mig alveg í því stykkinu undanfarna dagana! Sko. Geirlaug yfirgaf okkur fimmtudaginn 19.mars. Heimferðin gekk nú e-ð betur hjá henni heldur en ferðin hingað, fyrir utan það reyndar að taskan ákvað að láta e-ð bíða eftir sér, var ekki alveg tilbúin að koma aftur til Íslands greinilega. Svo um helgina síðustu voru opnir dagar í skólanum hans Þorvaldar K. Þetta er árviss viðburður sem gengur undir nafninu Collage Royal (CR) (ég varð nú ekki vör við neina konungborna gesti samt...) og þarna kemur múgur og margmenni að skoða. Það eru um 3000 sjálfboðaliðar úr hópi nemenda sem standa að skipulagningunni og húrra fyrir þeim, því þetta er talsverð vinna trúi ég. Við mættum þarna uppúr hádegi á laugardeginum. Lögðum reyndar af stað um hálf 10 heiman að og tókum þá strætóinn framhjá skólanum og niður í bæ. Erindið var tvíþætt; annars vegar að taka púlsinn á þeim tveimur bílaleigum sem þar eru staðsettar vegna þess að nú líður óðum að ferðalaginu okkar og við þurfum aðeins að fara að skoða ferðamátann. Í stuttu máli voru gaurarnir á leigunum ekkert ægilega jákvæðir út í plönin okkar...það er greinilega ekki vinsælt að leigja bíla og nota þá til að keyra vítt og breitt og svo að ætlast til að geta skilið við þá í öðrum borgum (þar sem eru samskonar leigur eða branches nota bene), það mætti nú ekki miklum skilningi...þannig að við snérum nú fremur dræm frá bílaleigunum og erum núna að spá og spekúlera hvernig við ætlum að tækla þetta í apríl. Hin ástæðan fyrir bæjarreisunni var að sjálfsögðu bændamarkaðurinn góði sem við erum orðin frekar hrifin af. Þar tróðum við talsverðu af góssi í bakpokann, m.a. frábærum niðursoðnum kúrbít-alger snilld með steiktum eggjum, jarðarberjum og eggjum (no eggs, no omelette) úr hænum sem aldar eru upp á Mennonítabýli (gaman að segja frá því). Já og á markaðinum pöntuðum við líka páska-lambið hjá fulltrúa kanadískra sauðfjárbænda þarna. Stefnan er svo að sækja ketið á markaðinn laugardaginn 11.apríl.

Þannig að uppskeran úr bæjarferðinni var í raun ágæt, þó svo að bílaleigurnar hefðu mátt standa sig betur. Við gátum svo geymt bændamarkaðsgóssið á skrifstofunni hans Þorvaldar í skólanum og þurftum ekki að drasla því með okkur um háskólasvæðið. Opnu dagarnir eru nefnilega-eins og nafnið bendir til, opnir í þeim skilningi að allar skólabyggingarnar eru opnar almenningi og ýmislegt í boði á hverjum stað. Við fengum t.d. að strolla um fjósið þar sem boðið var upp á n.k. húsdýragarð og hægt að sjá þessi hefðbundnu húsdýr; kýr (með og án fistúlu-kannski ekki svo hefðbundnar þessar með fistúlurnar...), hross, svín, kindur o.þ.h. Allt saman ágætt við það. Svo var e-r húsdýrasýning í gangi í íþróttahöllinni og við þangað. Það tók okkur smá stund að átta okkur á því út á hvað sýningin gekk vegna þess að það voru dómar í gangi og nemendur að sýna bæði hross, kindur, kvígur og svín-en í raun var verið að dæma nemendurna og hvernig þeir sýndu dýrin en ekki dýrin sjálf! Frekar fyndið allt saman, sérstaklega þegar verið var að dæma svínin og krakkarnir stjórnuðum þeim með svona tré-göngustöfum og grísagreyin nenntu þessu veseni klárlega ekki;-) Þetta voru líka sömu krakkirnar að sýna mismunandi dýr og eins og við skildum þetta, þá höfðu þeir ekkert endilega þjálfað dýrin sjálfir heldur tóku bara við þeim þarna til að sýna þau. Magnað alveg og mjög fyndið. Allaveganna. Eftir meira rölt um fleiri háskólabyggingar (nóg er af þeim) þar sem hægt var að skoða hitt og þetta létum við staðar numið (í þeim skilningi að við löbbuðum heim). Daginn eftir kíktum við reyndar aðeins meira á CR til að sjá þar hundasýningu. Þar voru hlýðnidómar og mis-(ó)hlýðnir hundar á ferð. ÞK eyddi seinniparti dagsins á skrifstofunni og við ÞÖ fórum heim og steiktum lummur svona af því það var sunnudagur og afgangur af hafragraut í ísskápnum.

Síðan hafa dagarnir liðið í tiltölulegum rólegheitum. Kennarinn hans Þorvaldar Arnar stakk upp á því að stytta aðeins daginn hans og síðan þá hefur hann verið sáttur í skólanum-gaman að segja frá því og vonandi að það gangi þannig þessa daga sem eftir eru. Sem eru nú ekki margir þegar maður telur, enda Kanadadvölin tekin að styttast í annan endann.

Veðrið hefur verið ljómandi gott-svona langoftast þessa síðustu daga. Í gær t.d. röltum við Þorvaldur Örn aðra leið heim úr skólanum en vanalega, ákváðum nefnilega að skoða leiktæki sem við höfðum ,,spottað” e-n áður þegar ekki var færi á nánari athugun. Þetta reyndust hin ágætustu leiktæki og undirlagið var þessi fína ljósgráa möl sem Þorvaldur lék sér nú hvað mest að, það var t.d. hægt að fylla stígvélin af henni og búa til snjó-engla og almennt velta sér uppúr henni. Ég naut þess að láta sólina skína á mig á meðan og uppskar rauðan hársvörð fyrir vikið...greinilega spurning um að fara að fjárfesta í sólarvörn áður en langt um líður...

Í gær héldum við svo smá afmæliskaffi fyrir Þorvald Örn en hann verður hvorki meira en minna en 5 ára á mánudaginn kemur! Af því stólaeign okkar er ekki mikil ákváðum við að fá félags-íbúðina lánaða hérna, það er sem sagt bara svona venjuleg íbúð hérna á görðunum sem er nýtt sem svona félagsmiðstöð fyrir íbúana. Við keyptum köku og meðlæti og buðum nokkrum vel völdum gestum og þetta lukkaðist vel í alla staði (nema kannski þegar ég brenndi eplapæið sem Þorvaldur valdi í búðinni og hlakkaði svo til að smakka-það var reyndar hægt að skrapa brenndu skánina ofan af og borða restina, sem var alveg ágæt ;-). Veðrið var frábært og allt morandi í krökkum og fullorðnum úti fyrir og afmælisbarnið var sáttur með daginn. Eins gott að við ákváðum að hafa þetta í gær vegna þess að í dag rignir bara og rignir...

Framundan er svo síðasta kennsluvikan hans Þorvaldar K hvorki meira né minna! Auðvitað eru verkefnaskil og próf og e-ð svona vesen fram til 15.apríl en kennslu er allaveganna að ljúka og gaman að því. Ég er farin að hlakka heilmikið til þess að komast í ferðalagið okkar og sjá aðeins meira af landinu.

Jæja, ætli ég segi þetta ekki gott í bili, ætla að reyna að hafa styttra milli bloggfærslna í framtíðinni:-)
Vona að þið hafið það öll sömul sem allra allra best,
Kveðjur úr rigningunni héðan
Magga&Þorvaldarnir

Tuesday, March 17, 2009

Kveður í runni, kvakar í mó í Kanada

Þá er helgin liðin og við búin að flengjast hér um kanadískar koppagrundir og krummaskuð eins og vit og geta var til. -Þetta er nú kannski aðeins ofsögum sagt en eins og glöggir muna úr síðustu færslu hérna þá er mamma hans Þorvaldar núna í heimsókn og við reynum náttúrulega að sýna henni e-ð af svæðinu. Hún lenti reyndar í veseni á leiðinni hingað, missti af ekki einu heldur tveimur tengiflugum og varð fyrir vikið að eyða fyrstu nóttinni á hóteli í Montreal...tengiflug geta greinilega verið nett pirrandi, ég er bara fegin að allt gekk upp þegar við fórum hingað og eins náttúrulega að hún rataði á leiðarenda fyrir rest.
Og svo ég haldi áfram í jákvæðu deildinni þá er ég líka ægilega ánægð með veðrið sem hefur heldur betur verið til fyrirmyndar upp á síðkastið, bara tveggja stafa hitatölur, sól og fínt. Ég sat t.d. úti í garði í dag og sleikti sólina á hlýrabol og stuttu pilsi! Maður er alvarlega farinn að freistast til að halda að vorið sé rétt ókomið...verst að vera krónískur Íslendingur og búast náttúrulega við áhlaupi fyrst þessi góði kafli kemur núna;-) Hvort áhlaup verði hér um þessar slóðir er reyndar alveg efunarmál og annað mál útaf fyrir sig.

En við sem sagt leigðum bíl um helgina og byrjuðum á að bruna að Niagra fossunum sem Geirlaugu langaði að sjá. Verð að viðurkenna að það var meira gaman að sjá þá í svona góðu veðri, nefið á mér var ekki helblátt af kulda í þetta skiptið. En það er samt alveg nóg að koma þarna tvisvar (jafnvel einu sinni ef veðrið er gott). Á heimleiðinni tókum við smá dí-túr og skoðuðum bæ sem heitir Niagra-on-the-Lake og er rétt hjá fossunum eins og nafnið bendir til. Þetta er bær þar sem gömlu húsin eru mjög vel varðveitt og ótrúlega flott, svoldið eins og að koma í kvikmyndaver. Gaman að því.
Sunnudagurinn fór í bíltúr um nágrennið. Eyddum dálitlum tíma í að reyna finna e-a Equine Centre sem Þorvaldur hafði fundið á netinu og átti að vera hérna rétt hjá en reyndist vera e-s staðar annars staðar en þar sem við leituðum þennan daginn. Í staðinn keyrðum við í nágrannabæ sem heitir Elora og er í ca 25 km fjarlægð frá Guelph. Borðuðum í gamalli myllu þar og strolluðum um bæinn sem er nú í hreinskilni ekkert óskaplega merkilegur...en myllan var frekar fín og veðrið gott þannig að þetta var ágætt. Síðan erum við búin að taka rúnt um háskólasvæðið, skoða miðbæinn og bara hafa það fínt. Og auðvitað höfum við svo farið út að snæða og fundum þennan fína veitingastað hér í Guelph! Við Þorvaldur höfum nefnilega ekki verið neitt of dugleg að gera könnun á þeim (lesist: höfðum ekkert skoðað nema tvö kaffihús), þannig að til að geta nú boðið gestinum upp á e-ð meira fansí þá valdi Þorvaldur þennan úr e-u blaðinu og tókst svona líka vel upp með það.

Þorvaldur Örn tekur því náttúrulega mjög vel að hafa ömmu sína í heimsókn og þau brasa ýmislegt saman, úti og inni. Fyrir vikið fáum við Þorvaldur líka pössun og nýttum tækifærið og barasta fórum í bíó í gærkveldi;-) Ég var að reyna að rifja upp hvenær við fórum síðast saman í bíó og mig minnir að það hafi verið þegar við fórum með Þorvaldi Erni og sáum Bubba Byggir myndina...alveg að standa okkur í bíóferðunum...*hóst*...allaveganna, í gær sáum við Slumdog Millionarie og hún er svakaleg, mjög ljót á köflum en endar vel.
Og fyrst ég er byrjuð að tala um kvikmyndir þá höfum við reyndar tekið nokkrar myndir hér í sjónvarpsleysinu og eytt nokkrum góðum kvöldum í að horfa saman á þær í tölvunni, voða rómó;-) Þannig er ég aðeins búin að saxa á klassíska listann sem mig hefur lengi langað til og get núna strikað yfir myndir eins og An Affair to Remember, My Fair Lady, One Flew over the Cookoo´s Nest og Cat on a Hot Tinroof, já og Mamma Mia-við Þorvaldur vorum víst síðustu tveir Íslendingarnir sem komu því loksins í verk að sjá þá mynd, ætli hún teljist ekki sem klassísk...amk eftir e-r ár. Svo hafa aðrar minna klassískar vissulega flotið þarna með...nýjasta myndin sem við sáum var t.d. Vicky Christina Barcelona sem er vel með farin krúttleg saga og ég mæli með, bara af því hún er ekkert að rembast við að vera kvikmyndalegt stórvirki. -Best er samt serían um Jessicu Fletcher sem Þorvaldur mundi eftir síðan fyrir hundrað árum og við höfum aðeins kíkt á. Þetta er sem sagt glæpasería um hana Jessicu sem er glæpasagnahöfundur komin af léttasta skeiði og leysir, jú rétt er það, alvöru glæpamál í frítíma sínum. Framleiddir um 1970/80 og hrikalega fyndnir útfrá þeim punkti og efnistökum.

Á morgun er svo pre-moveout-inspection hér í Unit 30...ekki spyrja, ég veit ekkert um hvað þetta snýst, Kanadamenn eru mjög uppteknir af að halda vel utan um allt sem snýr að þessum nemendagörðum og hingað hafa komið hinir og þessir viðhalds-húsviðgerðarmenn og fixað hitt og þetta smálegt; gat á þurrkararöri, hurð sem lokaðist ekki, myglu á kjallaraveggjum etc. Og einn þurfti spesferð til að prófa reykskynjarana, ein kom hérna spesferð alveg í byrjun og sagði okkur eitt og annað gáfulegt um íbúðina, t.d. að hún væri gömul (nú er það) og að við skildum ekki setja heitan pott beint á viðarplötuna í eldhúsinu (nú af hverju ekki). Þannig að ég ætla nú ekki að setja mig í neinar stellingar fyrir morgundaginn, finnst ég vera búin að læra það að þessar heimsóknir þeirra heita stærri nöfnum en tilefnin eru til.

-Best væri svo að enda þetta á söng, það ku vera í tísku þessa dagana..hehe, amk á Hvanneyri;-) En þar sem þetta er bara aumt, skriflegt blogg þá verð ég víst að sleppa því. Í staðinn bið ég ykkur vel að lifa og vona að þið gróið bæði og grænkið af geislanæringunni.
Vorkveðjur frá Kanada,
Magga&Þorvaldarnir

Monday, March 9, 2009

Tíðindalítið á Vesturvígstöðvunum

Rigning í Guelph og dumbungsveður-en við erum allaveganna komin yfir á sumartíma þannig að vorið hlýtur að vera á næstu grösum auk þess sem núna munar aðeins litlum fjórum tímum á Íslandinu góða og Kanada. Skrýtið af hverju svona sumar/vetrartími er ekki á Íslandi…ég meina, fyrst enginn sagði neitt við því að nokkrir aðilar byggju til bankakerfi sem var stærra en 12-föld þjóðarframleiðsla, færi e-r að ybba sig yfir einum klukkutíma til og frá…? Það er kannski ekki meira rask á þjóðina leggjandi þessa dagana og best að vera ekki uppi á dekki með svona breytingatillögur;-)
En svo ég tali um annað þá hefur Þorvaldur Örn ekki tekið skólann sinn í fullkomna sátt ennþá…kennarinn lagði til að við myndum stytta daginn hans aðeins og vita hvort hann ætti ekki auðveldara með það. Stundum gengur þetta vel hjá honum en svo er hann voða lítill í sér inn á milli og með því að stytta dvölina þarna e-ð þá er kannski spurning um að hann gúteri þetta betur. Annars er nú faktískt ekki svo langt þar til við yfirgefum svæðið og leggjumst í ferðalög, svo er líka vetrarfrí 16.-20. mars og svo náttúrulega páskafrí, þannig að þetta er nú spursmál um nokkra skóladaga í viðbót hjá honum. Vona það besta bara eins og venjulega í því sambandi. Hann er samt ansi mikið farið að hlakka til að hitta hina íslenskumælandi vini sína á Hvanneyri aftur-skiljanlega, lítið gaman að reyna að tjá sig ef enginn skilur mann almennilega…
Að öðru leyti en smá brasi í kringum skólann hans leið síðasta vika stórtíðindalaust. Þorvaldur K. náttúrulega í sínum skóla eins og vanalega og ég náði smá törn í búðum þá daga sem við Þorvaldur Örn vorum ekki að skottast saman. Við erum nú ekki að tala um háar upphæðir í eyðslu, bara svona mjög svo létt innkaup-enda dollarinn kominn niður í 88 kr-jei! Og talandi um búðir þá skruppum við aðeins niður í bæ um helgina, heilsuðum upp á Red Brick kaffihúsið ,,okkar” og röltum um í rigningunni (sem var nú ekki á okkar dagskrá þarna-en mætti samt). Og á þessu rölti fundum við þessa ægilega skemmtilegu Fair Trade búð. Þar er fullt af öllu mögulegu, flottum fötum í bland við reykelsi (bókstaflega meint, þar sem reykelsislyktin af fötunum er gríðarleg) og bara alls konar dóti-allt auðvitað framleitt skv. stöðlum Fair Trade og alveg Fer-lega flott sumt hvert (haha Magga;-) En grínlaust þá ætla ég að skanna þessa búð betur, greinilega hægt að kaupa slatta þarna ef fjárlög leyfa. Önnur búð þarna sem gaman er að skoða er skemmtileg leikfangabúð. Ekki svona brjálæðislega stór og full af plasti heldur alveg svona temmileg og þótt vissulega sé plastið til staðar þarna þá eru flottir hlutir inn á milli. Þarna fann ég t.d. ótrúlega flottar diskamottur með lotukerfinu-bara þvílík snilld! Verð að fjárfesta í einni slíkri og hafa á skrifborðinu, alltaf gott að vera með frumefnin á hreinu (Mendeljev kallinn vissi hvað hann söng).
Svo í gær kíktum við í heimsókn til Guðmundar og Jóhönnu og sáum nýjasta fjölskyldumeðliminn sem er ægilega lítil og krúttleg eftir því. Þar náði Þorvaldur Örn sér á strik í leik með strákum á hans aldri sem tala íslensku og hann var ekki lítið glaður með það stubburinn.

Mamma hans Þorvaldar er svo væntanleg í heimsókn núna á miðvikudaginn og verður fram til 20.mars hjá okkur. Við ætlum að leigja bíl um helgina og gera e-ð skemmtilegt með henni þá, gaman að því og gaman að fá hana í heimsókn.

Svo hef ég ekki meira að segja þannig að ég ætla nú bara að enda þetta á að senda afmælisbarni dagsins netleiðis knús og kossa frá mér-til lukku með að vera enn og aftur orðin tvítug Þóra mín;-)
Hafið það ljómandi gott öll sömul,
-kveðjur á sumartíma
Magga&Þorvaldar

Sunday, March 1, 2009

Mars eins og nammið

Kominn sunnudagur og mars byrjaður. Hérna er líka svona aðeins eins og það sé farið að glitta í vorið...eða svoleiðis... Við Þorvaldur Örn fórum út á föstudaginn fyrir hádegi í hlýindum og rigningu og það var sullað og drullumallað enda snjórinn að bráðna og allt á floti (stígvélin komu þarna sterk inn). Svo þegar við fórum aftur út eftir hádegi þá var bara kominn ískuldi og héla á öllum pollum og við erum að tala um nokkra klukkutíma þarna á milli! Og restin af helginni hefur nú barasta verið fremur svöl (lesist: ísköld). Best greinilega að halda ekkert niðrí sér andanum hvað vorkomuna varðar hér...
Vikan var annars tiltölulega róleg. Þorvaldur K. eyddi meginparti tímans á skrifstofunni með nefið ofan í bókunum-þó ég segi sjálf frá þá finnst mér hann vera hellings duglegur við þetta kallinn. Enda er viðhorfið að nýta tímann hér í skólanum sem best og ná sem flestum einingum útúr þessu-það er auðvitað megintilgangurinn. Allaveganna. Þriðjudagurinn var skóladagur hjá Þorvaldi Erni og það gekk þokkalega. Fimmtudagurinn gekk ekki alveg eins vel, einhver neikvæðni í gangi hjá mínum manni og e-r mótþrói (vatnsneskur...?) gagnvart fyrirmælum. Við ætlum að reyna að bæta þetta ástand og byggja upp jákvæða stemmningu. Þorvaldur Örn er líka búinn að kynnast stelpu hérna í hverfinu, hún er frá Ísrael og er með honum í bekk. Þau náttúrulega skilja hvort annað frekar takmarkað og þetta er hálffyndið þegar þau eru að leika saman annað hvort hér í okkar íbúð eða hjá þeim, þá er ég að túlka fyrir Þorvald á íslensku og stelpan talar hebresku við mömmu sína og svo er það enskan þar á milli! Svoldill hrærigrautur allt saman en gaman að því og ég er alveg að pikka upp hebreskuna...hehe-eða ekki;-) Mamma stelpunnar vinnur ekki úti frekar en ég og við höfum aðeins verið að brasa saman með krakkana, fórum t.d. í dollarabúðaleiðangur eftir skóla á fimmtudaginn með þau sem endaði á Dairy Queen og fórum svo með þau í svona leiktækjasmiðju í dag. Sú smiðja heitir Funworkx og er ca 40 mín frá Guelph. Þetta er svona boltaland+rennibrautir+klifurgrind+e-ð meira á þremur hæðum og innandyra. Þetta var alveg ágætt, Þorvaldi Erni fannst gaman að príla og hlaupa þarna um. Og þar sem Þorvaldur K. var hvort sem er í áframhaldandi prófalestri í dag þá kom þessi tímasetning vel fyrir okkur öll og engum leiddist (jah, stuðið var trúlega meira hjá okkur mæðginum, þar sem það er lítið fjör að læra fyrir próf-en hann fékk amk gott næði til þess;-)

Í bókasafnsferðinni sem var á miðvikudaginn byrgði ég mig upp af ferðabókum. Við ætlum að skoða Toronto betur og svo er það lokaferðin náttúrulega. Við erum svona að settlast á ferðatilhögun og aðeins að byrja að kíkja á það svæði sem til stendur að skoða. Trúlega verður planið nú aldrei mjög stíft en það er svona skemmtilegra að vita e-ð um hvert maður fer áður en lagt verður af stað. Og talandi um að vita hluti þá var ég spurð í búð um daginn hvar þetta Ísland eiginlega væri...? Ég náttúrulega teiknaði í snarhasti þetta fína heimskort með puttunum á afgreiðsluborðið á meðan ég velti fyrir mér hvort og þá hvaða landafræði manneskjan hefði fengið í skóla. Og svo fór hún að spyrja hversu lengi við ætluðum að vera hérna í Kanada og kannski myndi okkur bara líka svo vel að við myndum bara setjast hér að en ég hélt nú ekki, við myndum snúa aftur á klakann eins og farfuglarnir. Hins vegar, eins og ástandið er heima þá mætti kannski réttilega spyrja hvað maður er að sækja til Íslands þessa dagana. En maður sér nú farfuglana líka koma úr suðlægri sælu til þess eins að hreppa norðlenskt hret í allri sinni ísköldu dýrð...Fréttaflutningur að heima er samt með ólíkindum-sem orsakast trúlega af því að ástandið er með ólíkindum. -En sjensinn að maður fari ekki heim sín aftur. Meðan flýtur og rammar taugar og allt það...

Og ætli ég láti það ekki bara verða lokaorðin í kvöld. Lifiði öll í stormandi lukku:-)
Knús að vestan,
Magga&Þorvaldarnir