Monday, February 23, 2009

Ferðasagan:-)

-Ég verð nú bara að segja VÁ. Og aðeins meira VÁ. Ég hafði heilmiklar væntingar til New York borgar og hún stóð algerlega undir þeim og meira til. Þessi borg er bara mögnuð, segi og skrifa mögnuð. Þarna gæti ég sko eytt heilmiklum tíma og sjálfsagt öðru eins af peningum því borgin flotta er frekar dýr (og Manolo Blahnik var ekki á okkar budget í þetta skiptið...) En sem sagt, borgin er frábær og ég mæli eindregið með henni. Og þá að frekari smáatriðum ferðarinnar:-) Við sem sagt lögðum af stað Guelph-Toronto á mánudagsmorgni í prýðisveðri, röltum upp í háskóla hvaðan rútan fór (svona Greyhound rúta ef e-r kannast við þær). Við vorum reyndar ansi tímanlega á þessu rölti sem skýrist kannski af noju minni við að missa af rútunni (og þar með fluginu og þar með New York) og ekki síður vegna þess að allir voru orðnir leiðir á að bíða heima og mun betra að sitja í rútuskýli og eyða slatta af mínútum í vísbendingaleik. Rútan kom svo auðvitað á endanum og við brunuðum í miðbæ Toronto aðeins til að taka þaðan aðra rútu út á flugvöll. Meiri bið á flugvellinum, öryggishlið og vesen eins og gengur en svo tókum við loks þessa fínu flugvél og lentum á JFK eftir ca 2 tíma ferð. Þá var klukkan orðin 6 að kveldi og við ákváðum að hóa í einn ekta gulan TAXA áleiðis á hótelið og fengum þá snarbrjáluðustu leigubílaferð sem ég hef upplifað, ég var eiginlega í hálfgerðu flisskasti alla leið yfir keyrslulaginu á manninum því þetta var eins og Þorvaldur orðaði það; ,,Eins og hann sé í tölvuleik maðurinn”-það var bara brennt fram úr og troðist milli bíla, flautað og flautað meira og gefið grimmt í, ég leyfi mér að efast um að bílstjórinn hefði getað keyrt öllu hraðar þótt hann hefði verið að flytja okkur með hjartastopp á sjúkrahús. En sem betur fer enduðum við nú bara á President hótelinu á Manhattan sem er staðsett rétt við Times Square. Og það svæði bókstaflega iðar allt, við tókum smá kvöldrölt eftir inntjekkun og vissum eiginlega ekki hvert við áttum að glápa því alls staðar blikkuðu ljós og alls staðar var hávaði og e-ð að sjá. Og haugur af fólki, alls konar fólki, alls staðar. Eftir aðeins meira rölt og smá át strolluðum við, dasaða fólkið úr sveitinni;-) upp á hótel og sofnuðum vært.
Dagur 2 hófst snemma með heimsókn á morgunverðarstað handan götunnar (Steina frænka fær meira kredit fyrir góða ábendingu þar, sem og víðar). Eins og sumir sem þetta lesa kannski vita þá elska ég góðan morgunmat og þarna hlóðum við batteríin vel fyrir komandi dag, Þorvaldur Örn átti samt vinninginn þar með góðan skammt af eggjum og beikoni (gott að vera ennþá á því stigi að vaxa upp en ekki til hliðanna...;-) Jæja, svo var labbað af stað. Labb var án efa lykilorð ferðarinnar og í ljós kom að regnhlífarkerran góða borgaði sig upp á fyrsta degi, ekki sjens að við hefðum komist allt sem við fórum án hennar. Við byrjuðum á Empire State byggingunni enda veðrið frábært og útsýnið ennþá betra, geggjað að sjá borgina svona vel til allra átta og þessi bygging er náttúrulega magnað mannvirki og einstök sem slík. Svo var labbað víðar, farið í Rockefeller Centre og skautasvellið skoðað og svo tekið gott stopp í Barnes and Nobles risabókabúð sem á vegi okkar varð. Þar keyptum við okkur öll bækur (þemað var New York, svo frumleg við fjölskyldan;-) Eftir bókabúðina var labbað ofar og farið í hestavagnaferð um Central Park. Sá garður er ennþá stærri en ég hafði ímyndað mér og það var ótrúlega gaman að feta þar um (fyrst í vagninum og svo á eigin tveimur), veðrið var svo gott og ekki margir á ferli og þetta er bara ótrúlega flottur staður. Og eflaust ennþá flottari þegar allur gróðurinn nýtur sín. Þarna fórum við Þ.Ö. í 100 ára gamla hringekju og skemmtum okkur bæði tvö (vorum í villtu stóði eins og sá stutti orðaði það;-) Frá hringekjunni strolluðum við á Metropolitan safnið og vildi þá svo skemmtilega til að það var frítt inn þann daginn, ekki amalegt það. Við vorum annars svoldið að upplifa okkur eins og art-hraðlest þarna á safninu, þetta er náttúrulega alveg magnað safn og RISA stórt og auðvitað þarf maður marga daga til að mastera það. Þann tíma höfðum við bara ekki og þess vegna var ákveðið að taka bara kæruleysið á þetta, rölta bara um hingað og þangað (ekki eins og við hefðum séð neitt af öllu þessu áður hvort sem er) og reyna bara að absorba allt sem fyrir augun bar eins mikið og hægt var. Frá safninu var stefnan svo tekin þvert í gegnum C.P. og svo labbað að vestanverðu niður áleiðis að hótelinu aftur. Af því kvöldin sem við höfðum til ráðstöfunnar í borginni voru 3 ákváðum við að hvert okkar mætti velja einn veitingastað. Ég byrjaði og hvað annað en asískan mat á minn disk. Hann fundum við á veitingastað sem mælt var með í e-i túristabókinni, heitir Bangkok House og er rétt hjá hótelinu og maður minn og lifandi hvað maturinn var góður! Vá, mæli með þessum stað-ekki vafi. Enginn sérstakur barnamatseðill reyndar í boðinu en Satay-kjúlli á grillpinnum sló í gegn hjá Þorvaldi Erni og eldri Þorvaldur sagðist aldrei hafa smakkað betri kjúklingarétt en þann sem hann valdi sér. Ég valdi mér að sjálfsögðu núðlur með sjávarfangi og ætla ekki að fara út í nánari lýsingar á þeim rétti hér þar sem mig langar hrikalega í hann aftur og það er grænmetissúpa og spæld egg á borðum í Kanada í kveld...
Allaveganna. Næsta dag tókum við rútu með guide, svona Sightseeing rútu þið vitið. Veðrið var leiðinlegra en daginn áður og fínt að byrja svalan dag í heitri rútu. Leiðsögumaðurinn sem við fengum var alger snillingur, bara svona venjulegur New York búi sem sagði manni fullt af hlutum um borgina-ekki bara tölulegar staðreyndir heldur líka svona skúbb-hluti á mannamáli og svo var hann fyndinn á köflum líka sem var ekki verra. Við fórum út neðarlega á Manhattan (vissuð þið að Manhattan er 59.47 km²? Spurning dagsins er þess vegna: Hvað er Vatnsnesið stórt?) og byrjuðum á því að kíkja á Ground Zero. Það verður reyndar að viðurkennast að við nenntum nú eiginlega ekki að skoða það svæði mjög nákvæmlega, enda veit ég svo sem ekki nákvæmlega hvað er þar að skoða, við sáum bara vel afgirt byggingarsvæði...en auðvitað er staðurinn merkilegur útaf fyrir sig. Og hrikkkalega góður samlokustaður þar rétt hjá þar sem kaffibollarnir eru eins og súpuskálar sem er gríðarlega jákvætt í mínum huga. Við löbbuðum þaðan yfir Brooklyn brúna (1.825 m skv.upplýsingum) og það er virkilega gaman að því (muniði ekki eftir þegar Miranda og Steve hittust þar...?;-). Reyndar ekki eins gaman að veðrinu því á bakaleiðinni yfir brúna fór að slydda á okkur og slyddan varð svo að rigningu sem kom til með að endast restina af deginum...svo að útsýnið þennan daginn var nú faktískt ekki upp á marga fiska. En skítt með útsýni, hver þarf það...ehehe? Svarið við þessari spurningu fékkst þegar við tókum ferjuna yfir til Staten Island og reyndum með góðum vilja að sjá Frelsisstyttuna...ok, við sáum hana en svona kannski mest af því að við vildum sjá hana og vissum af henni þarna;-) Þessu vandamáli var svo reddað seinna í ferðinni með því að fjárfesta í verrrulega stóru og góðu póstkorti af þessari ágætu konu með kórónuna sína og kyndilinn. Eftir ferjutúrinn var labbað af stað og markmiðið var að Þorvaldur Kristjánsson veldi veitingastað á leiðinni heim. E-r valkvíði var hins vegar að hrjá húsbóndann þetta kvöldið og þegar við vorum komin alla leiðina upp í Greenvich Village hverfið var ástandið orðið frekar krítískt, allir blautir, svangir og labbþreyttir. Ákveðið var að taka einn gulan og veitingastaður valinn nálægt hótelinu úr bókinni góðu. Sá reyndist vera fullbókaður og stemmingin í hópnum varð ennþá dræmari fyrir vikið...fyrir lán og lukku fundum við samt rosa fínan ítalskan stað (Þ.K. ætlaði alltaf að velja einn slíkan) og átum okkur þar pakksödd og sæl. Og ekki spillti fyrir að húsbóndinn var svo sætur að panta Cosmopolitan handa okkur tveimur -sem er alveg snilldar góður drykkur og greinilega ekki bara flottur og frægur. Fyndið samt að hann minnti okkur aðeins á ákveðinn skagfirskan landadrykk..hehehe;-)
Jæja. Síðasti dagurinn rann upp bjartur og fagur og við af stað vopnuð kerrunni góðu. Byrjuðum í MogM búð á þremur hæðum takk fyrir sem er rétt hjá hótelinu. Gríðarlega vinsælt fyrirbæri hjá Þorvaldi Erni og verður að segjast eins og er að þetta er auðvitað snilld útaf fyrir sig. Bara það eitt að láta sér detta í hug vörur allt frá jólaskrauti upp í skartgripi upp í alklæðnað á hunda sem tengjast þessu sælgæti er snilldarlegt og auðvitað brjálæðislegt líka. Og það var gaman að skoða þá snilldarlegu brjálsemi. Næst á dagskrá var Metro ferð niður á Union Square. Þaðan var labbað niður í Kínahverfið-sem er brillíant hverfi, við römbuðum beint inn á e-r matarmarkað og ég vissi ekki hvað helmingurinn hét af öllu þessu dóti sem var á boðstólum. Þröngar götur, kínversk skilti, kínverskt dót og auðvitað Kínverjar og fullt af þeim. Magnað allt saman. Á bakaleiðinni var komið við á svona gamaldags Diner og við Þorvaldur Örn fengum okkur ekta milkshake, hrikalega góður og gressilega fullur af kaloríum...og talandi um kaloríur þá bættum við nokkrum slíkum við í Magnolia Bakery í Greenvich Village þegar við keyptum okkur alvöru cup-cake svona upp á stemminguna;-) Metroið var svo tekið til baka upp á Upper West þar sem við ætluðum að skoða safn sem er sérhannað fyrir börn. Því miður höfðum við bara ekki nógu langan tíma þar sem skrifast á okkur foreldrana þar sem við föttuðum ekki alveg hvað tímanum leið og smá villutúr með Metro-inu var ekki til að bæta ástandið. En safnið er alger snilld og hefði verið stuð að geta stúderað það miklu betur. En klukkan 5 var lok og læs og við urðum að kyngja því. Og þá var komið að Þorvaldi Erni að velja veitingastað. Og hann tók hlutverkinu af fullri alvöru, vissi að sig langaði í hamborgara en staðarvalið reyndist vandasamt. Að lokum enduðum við á ekki ófrægari stað en MacDonalds og þar sem Þ.Ö. hefur aldrei áður farið á slíkan stað var ekki slorlegt að byrja í NYC. Hann var líka kampakátur með sitt barnabox og enginn fór svangur út.

Þetta fer nú annars að verða dáldið langt mál hjá mér, ég sé það núna, enda er nú svo sem flest upptalið sem við gerðum og sáum í þessari frábæru ferð. Þannig að til að enda þetta einhvern tímann þá er skemmst frá því að segja að við komust öll heil og höldnu heim aftur til Guelph og Kanada tók á móti okkur með kulda og snjó. Helgin leið og bolludagurinn er að klárast í þessum orðum töluðum. Við Þ.Ö. versluðum það sem okkur fannst líkjast bollum mest og redduðum þessu fína bollukaffi. Saltkjöt hins vegar finnum við trúlega ekki hér fyrir morgundaginn...það bíður mín í frystikistunni heima hins vegar ásamt slátrinu og bjúgunum og saltfiski og lambahakki og folaldakjöti og fleiru góðu. Spurning um að hafa þjóðlegt hlaðborð þegar heim verður snúið;-)
Og til að slútta þá bara ítreka ég það að þeir sem hafa möguleika á að heimsækja New York ættu endilega að gera það, þetta er gríðarlega skemmtileg borg að skoða og upplifa. Hún er óneitanlega frekar dýr en hverrar krónu virði.
Svo óska ég ykkur góðra bollna í dag, góðs saltkjöts á morgun og góðs veðurs á öskudaginn með alla sína 18 bræður:-)
Knús frá Kanada (og uppsafnað frá því í New York)

Magga&strákarnir

2 comments:

  1. Þetta hefur greinilega verið æðisleg NY ferð hjá ykkur, maður verður að skreppa þangað einhverntímann :) Helstu fréttir frá Hvanneyri er að eftir þetta frábæra logn sem var í jan er komið aftur rok og rigning og meira rok og slydda, gamla Hvanneyri bara :) Hér voru bakaðar margar plötur af bollum sem allar brögðuðust með bestu list og saltkjöt og baunir voru snæddar hér í gær, eldað af mér og Gunnfríði og smakkaðist alveg príðilega. Bið bara kælrlega að heilsa karlpeningnum á heimilinu og hafði það gott :)
    kv Þorbjörg Helga og Hákon sendir kveðju

    ReplyDelete
  2. -Já þið Hákon verðið endilega að skella ykkur þarna vestur, mæli sko eindregið með því!
    Verð nú aðeins að fá að öfundast útí heimabakaðar bollur og ennþá meira út í saltkjöt og baunir...*kjams* En hins vegar get ég alveg viðurkennt að ég sakna ekki roksins frá Hvanneyri...alveg makalaust hvað vindurinn getur blásið mikið á einum og sama staðnum;)
    Jæja, best að fara að horfa á fréttir á rúv svo maður geti fylgst með hvernig allt er í tómu klúðri þarna heima...meiri vitleysan allt saman, eina vitið greinilega að halda sig við sveitina, þá hefur maður amk alltaf e-ð að éta;)
    Bestu kveðjur frá okkur öllum:)
    Magga

    ReplyDelete