Monday, March 9, 2009

Tíðindalítið á Vesturvígstöðvunum

Rigning í Guelph og dumbungsveður-en við erum allaveganna komin yfir á sumartíma þannig að vorið hlýtur að vera á næstu grösum auk þess sem núna munar aðeins litlum fjórum tímum á Íslandinu góða og Kanada. Skrýtið af hverju svona sumar/vetrartími er ekki á Íslandi…ég meina, fyrst enginn sagði neitt við því að nokkrir aðilar byggju til bankakerfi sem var stærra en 12-föld þjóðarframleiðsla, færi e-r að ybba sig yfir einum klukkutíma til og frá…? Það er kannski ekki meira rask á þjóðina leggjandi þessa dagana og best að vera ekki uppi á dekki með svona breytingatillögur;-)
En svo ég tali um annað þá hefur Þorvaldur Örn ekki tekið skólann sinn í fullkomna sátt ennþá…kennarinn lagði til að við myndum stytta daginn hans aðeins og vita hvort hann ætti ekki auðveldara með það. Stundum gengur þetta vel hjá honum en svo er hann voða lítill í sér inn á milli og með því að stytta dvölina þarna e-ð þá er kannski spurning um að hann gúteri þetta betur. Annars er nú faktískt ekki svo langt þar til við yfirgefum svæðið og leggjumst í ferðalög, svo er líka vetrarfrí 16.-20. mars og svo náttúrulega páskafrí, þannig að þetta er nú spursmál um nokkra skóladaga í viðbót hjá honum. Vona það besta bara eins og venjulega í því sambandi. Hann er samt ansi mikið farið að hlakka til að hitta hina íslenskumælandi vini sína á Hvanneyri aftur-skiljanlega, lítið gaman að reyna að tjá sig ef enginn skilur mann almennilega…
Að öðru leyti en smá brasi í kringum skólann hans leið síðasta vika stórtíðindalaust. Þorvaldur K. náttúrulega í sínum skóla eins og vanalega og ég náði smá törn í búðum þá daga sem við Þorvaldur Örn vorum ekki að skottast saman. Við erum nú ekki að tala um háar upphæðir í eyðslu, bara svona mjög svo létt innkaup-enda dollarinn kominn niður í 88 kr-jei! Og talandi um búðir þá skruppum við aðeins niður í bæ um helgina, heilsuðum upp á Red Brick kaffihúsið ,,okkar” og röltum um í rigningunni (sem var nú ekki á okkar dagskrá þarna-en mætti samt). Og á þessu rölti fundum við þessa ægilega skemmtilegu Fair Trade búð. Þar er fullt af öllu mögulegu, flottum fötum í bland við reykelsi (bókstaflega meint, þar sem reykelsislyktin af fötunum er gríðarleg) og bara alls konar dóti-allt auðvitað framleitt skv. stöðlum Fair Trade og alveg Fer-lega flott sumt hvert (haha Magga;-) En grínlaust þá ætla ég að skanna þessa búð betur, greinilega hægt að kaupa slatta þarna ef fjárlög leyfa. Önnur búð þarna sem gaman er að skoða er skemmtileg leikfangabúð. Ekki svona brjálæðislega stór og full af plasti heldur alveg svona temmileg og þótt vissulega sé plastið til staðar þarna þá eru flottir hlutir inn á milli. Þarna fann ég t.d. ótrúlega flottar diskamottur með lotukerfinu-bara þvílík snilld! Verð að fjárfesta í einni slíkri og hafa á skrifborðinu, alltaf gott að vera með frumefnin á hreinu (Mendeljev kallinn vissi hvað hann söng).
Svo í gær kíktum við í heimsókn til Guðmundar og Jóhönnu og sáum nýjasta fjölskyldumeðliminn sem er ægilega lítil og krúttleg eftir því. Þar náði Þorvaldur Örn sér á strik í leik með strákum á hans aldri sem tala íslensku og hann var ekki lítið glaður með það stubburinn.

Mamma hans Þorvaldar er svo væntanleg í heimsókn núna á miðvikudaginn og verður fram til 20.mars hjá okkur. Við ætlum að leigja bíl um helgina og gera e-ð skemmtilegt með henni þá, gaman að því og gaman að fá hana í heimsókn.

Svo hef ég ekki meira að segja þannig að ég ætla nú bara að enda þetta á að senda afmælisbarni dagsins netleiðis knús og kossa frá mér-til lukku með að vera enn og aftur orðin tvítug Þóra mín;-)
Hafið það ljómandi gott öll sömul,
-kveðjur á sumartíma
Magga&Þorvaldar

No comments:

Post a Comment