Sunday, March 1, 2009

Mars eins og nammið

Kominn sunnudagur og mars byrjaður. Hérna er líka svona aðeins eins og það sé farið að glitta í vorið...eða svoleiðis... Við Þorvaldur Örn fórum út á föstudaginn fyrir hádegi í hlýindum og rigningu og það var sullað og drullumallað enda snjórinn að bráðna og allt á floti (stígvélin komu þarna sterk inn). Svo þegar við fórum aftur út eftir hádegi þá var bara kominn ískuldi og héla á öllum pollum og við erum að tala um nokkra klukkutíma þarna á milli! Og restin af helginni hefur nú barasta verið fremur svöl (lesist: ísköld). Best greinilega að halda ekkert niðrí sér andanum hvað vorkomuna varðar hér...
Vikan var annars tiltölulega róleg. Þorvaldur K. eyddi meginparti tímans á skrifstofunni með nefið ofan í bókunum-þó ég segi sjálf frá þá finnst mér hann vera hellings duglegur við þetta kallinn. Enda er viðhorfið að nýta tímann hér í skólanum sem best og ná sem flestum einingum útúr þessu-það er auðvitað megintilgangurinn. Allaveganna. Þriðjudagurinn var skóladagur hjá Þorvaldi Erni og það gekk þokkalega. Fimmtudagurinn gekk ekki alveg eins vel, einhver neikvæðni í gangi hjá mínum manni og e-r mótþrói (vatnsneskur...?) gagnvart fyrirmælum. Við ætlum að reyna að bæta þetta ástand og byggja upp jákvæða stemmningu. Þorvaldur Örn er líka búinn að kynnast stelpu hérna í hverfinu, hún er frá Ísrael og er með honum í bekk. Þau náttúrulega skilja hvort annað frekar takmarkað og þetta er hálffyndið þegar þau eru að leika saman annað hvort hér í okkar íbúð eða hjá þeim, þá er ég að túlka fyrir Þorvald á íslensku og stelpan talar hebresku við mömmu sína og svo er það enskan þar á milli! Svoldill hrærigrautur allt saman en gaman að því og ég er alveg að pikka upp hebreskuna...hehe-eða ekki;-) Mamma stelpunnar vinnur ekki úti frekar en ég og við höfum aðeins verið að brasa saman með krakkana, fórum t.d. í dollarabúðaleiðangur eftir skóla á fimmtudaginn með þau sem endaði á Dairy Queen og fórum svo með þau í svona leiktækjasmiðju í dag. Sú smiðja heitir Funworkx og er ca 40 mín frá Guelph. Þetta er svona boltaland+rennibrautir+klifurgrind+e-ð meira á þremur hæðum og innandyra. Þetta var alveg ágætt, Þorvaldi Erni fannst gaman að príla og hlaupa þarna um. Og þar sem Þorvaldur K. var hvort sem er í áframhaldandi prófalestri í dag þá kom þessi tímasetning vel fyrir okkur öll og engum leiddist (jah, stuðið var trúlega meira hjá okkur mæðginum, þar sem það er lítið fjör að læra fyrir próf-en hann fékk amk gott næði til þess;-)

Í bókasafnsferðinni sem var á miðvikudaginn byrgði ég mig upp af ferðabókum. Við ætlum að skoða Toronto betur og svo er það lokaferðin náttúrulega. Við erum svona að settlast á ferðatilhögun og aðeins að byrja að kíkja á það svæði sem til stendur að skoða. Trúlega verður planið nú aldrei mjög stíft en það er svona skemmtilegra að vita e-ð um hvert maður fer áður en lagt verður af stað. Og talandi um að vita hluti þá var ég spurð í búð um daginn hvar þetta Ísland eiginlega væri...? Ég náttúrulega teiknaði í snarhasti þetta fína heimskort með puttunum á afgreiðsluborðið á meðan ég velti fyrir mér hvort og þá hvaða landafræði manneskjan hefði fengið í skóla. Og svo fór hún að spyrja hversu lengi við ætluðum að vera hérna í Kanada og kannski myndi okkur bara líka svo vel að við myndum bara setjast hér að en ég hélt nú ekki, við myndum snúa aftur á klakann eins og farfuglarnir. Hins vegar, eins og ástandið er heima þá mætti kannski réttilega spyrja hvað maður er að sækja til Íslands þessa dagana. En maður sér nú farfuglana líka koma úr suðlægri sælu til þess eins að hreppa norðlenskt hret í allri sinni ísköldu dýrð...Fréttaflutningur að heima er samt með ólíkindum-sem orsakast trúlega af því að ástandið er með ólíkindum. -En sjensinn að maður fari ekki heim sín aftur. Meðan flýtur og rammar taugar og allt það...

Og ætli ég láti það ekki bara verða lokaorðin í kvöld. Lifiði öll í stormandi lukku:-)
Knús að vestan,
Magga&Þorvaldarnir

No comments:

Post a Comment