Thursday, January 29, 2009

Þorramas

Kominn tími á nýja bloggfærslu-er það ekki bara…? Allt er svosem gott héðan. Þorvaldur Örn er búinn að fara þrjá heila daga einn og óstuddur í skólann og líkar bara ágætlega. Hann er til skiptis 2 daga aðra vikuna og 3 hina og er einmitt á morgun líka. Hann fer m.a. í bóksafnstíma og leikfimi-sem á nú vel við minn mann sem vill stanslaust vera á iði. Reyndar tilkynnti hann mér að honum þætti leikfimiskennarinn sinn eiginlega aðeins of stjórnsöm, hún vildi ráða öllu...hmm...ég reyndi að útskýra fyrir honum að þannig væri það nú eiginlega alltaf í skóla, það væri einn fullorðinn kennari sem vildi ráða öllu, þannig væri það nú bara;-)
Maður kemst líka að því hvað maður er vanafastur þegar maður kynnist nýjum siðum í nýju landi. Hér er t.d. nestismenning ráðandi í skólum. Ég hafði svolitlar áhyggjur af Þorvaldi Erni vegna þess, veit að hann fær góðan heimaeldaðan og heitan mat í sínum leikskóla heima og er vanur því en nú verð ég að treysta því að barnið borði það sem ég sendi með honum og borði sig saddan af því. Og hingað til hefur þetta allt saman sloppið fyrir horn, verð samt að viðurkenna að ég er hrifnari af matarfyrirkomulaginu á Íslandi…mun minna vesen fyrir alla;-)

Ég notaði tækifærið verandi barnlaus heima í dag og kíkti aðeins í búðir (gengið líka hagstæðari en verið hefur…*hóst*) Gerði ágætis kaup og ekki orð um það meir:-) Svo heimsótti ég Þorvald í skólann, hann var í eyðu og við borðuðum saman í matsölunni þarna sem samanstendur af skrilljón tegundum af matsölustöðum og einum góðum matsal til að snæða öll herlegheitin í. Við kíktum líka á bókasafn skólans sem er á fimm hæðum, takk fyrir og bókafjöldinn eftir því. Mjög flott. Mér finnst alltaf svo frábært á bókasöfnum, eitthvað svo mikill sjarmi og notalegheit yfir þeim.

Svo erum við búin að planleggja dagsferð til Toronto um helgina:-) Vorum eitthvað að vesenast inn á einhverjum rútusíðum en ekki búin að kaupa miða, svo sér Þorvaldur fyrir tilviljun auglýsta ferð í skólanum og stökk á hana og gerði góð kaup þar. Þetta tekur ca 1 tíma og 40 mín með rútu og verður bara gaman er ég viss um. Stefnan er að skoða Royal Museum of Ontorio og ná bæjar/kaffihúsarölti. Meira held ég nú að vinnist ekki tími til í þetta skiptið-en það í allt í lagi af því við förum örugglega aftur til Toronto.

Kærar kveðjur héðan úr vetrarríki, vona að þið hafið það gott í stjórnleysinu þarna heima:-)
Magga&Þorvaldar

Sunday, January 25, 2009

Helgarútgáfan

Sunnudagurinn að kveldi kominn hér í Kanada og kominn tími til að segja aðeins frá helginni. Hún einkenndist af miklum bílferðum og góðum mat og var í alla staði vel lukkuð. Til að byrja nú á bóndadeginum (og til hamingju allir húsbændur á Íslandi með hann) þá komum við Þorvaldur Örn pabba hans á óvart með kökubakstri þegar hann kom heim úr skólanum. Svoldið gaman að segja frá því að kakan sem bökuð var kom úr nægtabúri Betty Crocker og það var reyndar Þorvaldur Örn sjálfur sem sá pakkann í búðinni einu sinni og leist svo vel á að hann stakk henni bara í körfuna án þess að vera neitt að bera það undir foreldrana (hefur greinilega ekki búist við samþykki við þeirri hugmynd sinni…hehehe). Allaveganna, e-n veginn þvældist kakan heim án þess að við tækjum eftir henni á færibandinu og á sínum tíma vorum við nú ekkert sérstaklega ánægð með þetta framtak guttans til að auka á sætabrauðsát heimilisins. En það breyttist nú allt um helgina þegar hún kom í svona líka góðar þarfir og smakkaðist alveg prýðilega. Betty Crocker veit greinilega alveg hvað hún er brasa blessunin, þetta eru mínu fyrstu kynni af þessari öflugu húsmóður og ég hugsa að hún eigi eftir að koma í góðar þarfir hérna í útlandinu ef baka þarf kökur í hvelli án þess að leggja í mikinn stofnkostnað við slík verk. Þorvaldur Örn var t.d. ekki alveg að gútera að það þyrfti bara duft úr pakka, egg og mjólk til verksins og fannst e-ð vera að gleymast. Á hinn bóginn er ég nokkuð viss um að Betty er ekkert mikið að tapa sér í hollnustunni…hefur trúlega ekki verið snefill af spelti eða hrásykri í þessu pakkadufti…-en skítt með það, kakan var góð og maður er nú ekki að þessu nema til hátíðabriggda;-)
Svo um kvöldið þá höfðum við fjölskyldu videokvöld og hvað haldiði að hafi verið í boði nema The Road to Avonlea!! Vá, það var fyndið að sjá þetta allt aftur, bara næstum eins og hitta gamla vini, maður kannaðist við öll andlitin og atriðin rifjuðust upp þegar maður sá þetta. Og Þorvaldur Örn skemmti sér prýðilega, greinilega smekkmaður á gott sjónvarpsefni.
En áfram með smjörið. Laugardagurinn var tekinn snemma, við nestuðum okkur upp og lögðum upp í ferð til að skoða fossana miklu. Og þeir voru á sínum stað blessaðir og bara býsna flottir. Reyndar var svo kalt til að byrja með að ef ég kem e-um myndum hér inn á eftir þá eigiði eftir að sjá mjög svo rauðnefjaða fjölskyldu á ferðinni…Það sem manni fannst náttúrulega skrýtnast við þetta allt saman er hvað umhverfið er brjálæðislega manngert og það er næstum eins og fossarnir, sem fólk kemur væntanlega fyrst og fremst til að skoða, séu bara aukaatriði. Þarna er allt gert til að selja fólki e-ð annað, spilavíti, hótel, matsölustaðir í massavís, spilasalir og ég veit ekki hvað og hvað. Svoldið annað en að skoða Dettifoss þar sem er einn kamar á ómalbikuðu bílastæði og svo bara göngustígur. Og hvort sem það er þjóðremba eða sveitamennska (og það er jákvætt orð í mínum huga) þá kann ég betur að meta svoleiðis aðkomu að náttúrunni. E-n veginn eðlilegra hefði maður haldið. Engu síður var gaman að sjá þetta allt, við borðuðum m.a. hátt upp í turni með útsýni yfir fossana og nágrenni og það var rosa fínt. Að lokum var tekinn góður skoðunarrúntur um staðinn og síðan haldið heim á leið. Þegar heim var komið heyrði ég aðeins í afmælisbarni dagsins-og innilega aftur til hamingju með daginn pabbi minn:-)
Sunnudagurinn rann svo bjartur og fagur og fjölskyldan bílóða hélt ótrauð keyrslunni áfram. Í þetta skiptið var ferðinni heitið til nágranna-smábæjar sem heitir St.Jacobs. Hann er m.a. þekktur fyrir stóran bændamarkað sem okkur langaði að kíkja á og sjá og kaupa kanadísku útgáfuna af beint frá býli vörum. Reyndar komumst við að því að markaðurinn er ekki opinn á sunnudögum…úps…en það var ákveðið að gera gott úr því, skoða bæinn (sem er krúttlega Lauru Ashley útgáfan af Hvammstanga) og fá sér e-a næringu og svona. Við römbuðum inn á veitingastað og ætluðum að fá okkur e-ð létt, súpu og salat eða e-ð svoleiðis bara en viti menn-við höfðum rambað á eitt það svakalegasta sunnudags-brunch sem ég hef á ævi minni upplifað. Þetta var í rauninni fáránlega ódýrt miðað við matarmagnið og úrvalið, 17 dalir fyrir hvort okkar Þorvaldar og ókeypis fyrir 4ja ára og yngri. En jéminn eini, það sem var í boði þarna! Og ég verð að viðurkenna að ég er farin að skilja offituvandamál í þessum heimshluta ef þetta er sýnishorn af normal matarmenningu. Þetta var vissulega gaman, maður var að smakka mat sem maður þekkti ekki og mér fannst t.d. gaman loksins að vita hvernig pumpkin-pie bragðast-sem er reyndar ekkert sérlega vel en það er aukaatriði ;-) Við ákváðum a.m.k. að kíkja þarna einhvern tímann aftur áður en Þorvaldur Örn verður 5 ára og þá líka á bændamarkaðinn.
Leiðin heim einkenndist af setningum á borð við: Hmmm…helduru að þetta sé rétta leiðin…? Mér finnst eins og við hefðum átt að beygja áðan…æi…þetta reddast, ég held að við séum örugglega amk að keyra í rétta átt…-og fleiri slíkum góðum þar sem við Þorvaldur náðum ekki alveg nógu góðum kontakt við google-leiðarlýsinguna…hehe…en e-n veginn gekk þetta nú allt saman og við enduðum hér heima öll sömul. –Nýttum reyndar að sjálfsögðu tækifærið og fórum í matvörubúð fyrst við vorum á bíl. Þar var ávaxtadeildin vel skönnuð, enda ætla ég ekki að taka þátt í þessari matarbilun (nema um svona sparihelgar þe;-)
Jæja, nú er ég búin að blaðra óhóflega mikið hérna og er að hugsa um að láta staðar numið. Fram undan er 3ja daga skólavika hjá Þorvaldi Erni og spennandi að sjá hvort það gengur ekki bara vel, a.m.k. gekk allt ljómandi vel á fimmtudaginn síðasta þegar hann var einn í skólanum næstum fullan dag. Áfram að vona það besta í því sambandi.

Sendum svo að lokum öll góðar kveðjur heim (og líka til útlandalesaranna) og vonum að sem flestir nái að borða fullt af góðum þorramat þessa dagana:-)

Bless í bili öll sömul og ég hlakka til að heyra frá ykkur,
Magga&Þorvaldar

Wednesday, January 21, 2009

Miðvikudagur og lífið gengur sinn gang

Þá eru komnar 3 vikur hér í Kanada og nokkurn veginn hægt að fara að tala um rútínu á heimilisfólki. Aðlögun Þorvaldar Arnar í skólanum er reyndar ennþá í gangi, við mættum í gær og förum aftur á morgun. Gærdagurinn gekk fínt, hann hefur reyndar ekki mikla þolinmæði þegar það eru tímar þar sem á að hlusta og sitja kyrr…en leiktímarnir úti og inni gengu vel. Ég er því bara býsna bjartsýn á þetta allt saman:-) Svo var keypt snjóþota á heimilið og hún stendur sig vel í hlutverki heimilisbílsins og er notuð til flutninga á barni, mat og töskum, alveg heilmikill munur. Hún svínvirkar líka sem snjóþota, við stórbætum millitímann í hvert skipti sem við brunum niður þessu fínu brekku sem er rétt við skólann (og er reyndar göngustígur líka...;-)

Við fundum bókasafnið í ca 1km fjarlægð héðan. Lítið útibú, minna en í Borgó reyndar-en þjónar sínu hlutverki og barnadeildin er alveg sérstaklega góð. Við mægðinin röltum þangað í dag og komum klifjuð heim. Öll útlán, bæði á bókum og dvd myndum eru ókeypis svo lengi sem maður bara býr í Guelph. Og þetta nýtum við okkur óspart og tökum fullt af bókum. Svo reyni ég að lesa Franklín skjaldböku og Litlu Snillingana á ensku og þýða jafnóðum yfir og vona að það skili sér í aukinni enskukunnáttu guttans. Og af því að hér er ekkert sjónvarp (sem venst býsna vel) þá flutu nokkrar dvd myndir með heim líka til að kíkja á í tölvunni á kvöldin. Úrvalið er bara gott, eiginlega frekar gamalt og gott;-) Ég tók t.d. The Road to Avonlea, ef e-r (væntanlega kvenkyns) man eftir þeim þáttum síðan…vá…alveg 1995 eða 96 minnir mig. Gaman að rifja það upp, á að gerast að mig minnir hérna í Kanada.

Um helgina er svo planið að leigja bíl og fara og skoða Niagra-fossana sem eru hérna rétt hjá. Örugglega gaman að því. Og svo ég tala aðeins meira um ferðaplön þá er ferð til NYC á dagskrá í febrúar!! Mig langar rosalega mikið til að skoða þá borg og hún er ekki það langt í burtu (amk ekki ef maður hugsar eins og flugvél…) og við ætlum að grípa tækifærið og kíkja þangað. Svo er jafnvel stefnan að skoða Toronto í mars, apríl er óráðinn en tvær vikur í maí fara í pjúra ferðalög.

Takk annars kærlega fyrir kommentin, það eru nokkrir sem hafa talað um að kommentakerfið sé ekki að standa sig sem slíkt en ég hef bara ekki hugmynd af hverju…þannig að endilega þeir sem geta kommentað þeir geri það af miklum móð-hinum er meira en velkomið að senda mér línu í pósti í staðinn:-)Alltaf gaman að heyra að heiman (þótt það virðist ríkja skálmöld á Íslandi núna, amk á Austurvelli…mér datt nú bara Flóabardagi í hug þegar ég heyrði um þetta grjótkast...).
Allaveganna, þá vona ég að þið hafið það öll sömul gott til sjávar og sveita.

Bestu kveðjur frá Kanada í bili,
Magga&Þorvaldar

Ps Ennþá kalt-en við höndlum það (vorum svo svöl fyrir hehehe)

Friday, January 16, 2009

Kalt-kaldara-kaldast

Þá er kominn föstudagur og helgin framundan. Síðan ég bloggaði síðast (sem var jafnframt þegar ég bloggaði fyrst) þá hefur lífið bara gengið bærilega hér í kuldanum. Sem er reyndar pent orð yfir þetta veður sem er hérna og er fremur mannfjandsamlegt. Ég taldi mig nú þekkja kulda utandyra ágætlega, borin og barnfædd á mínu frábæra annesi í nokkurn veginn beinni sjónlínu við Norðurpólinn. En eftir tilraunir mínar til reka hér út mitt norðlenska nef þá efast ég um kuldaþol mitt og minn stórkarlalega hlátur..ehemm. Ég hef t.d. reynt að skokka hérna nú í nokkur skipti og fram til þessa gengið bara ágætlega. Dressaði mig svo upp áðan í ullarnærföt og lopapeysu, með trefil og tvenna vettlinga og ætlaði aldeilis að massa þetta asnalega veður og taka einn góðan hring. Komst reyndar aðeins minni útgáfu af þeim hring sem ég hef tekið hingað til en mikið svakalega var mér kalt! Ef þið hafið séð Tomma&Jenna þáttinn þegar Tommi hendir Jenna út í snjóinn og tekur hann svo inn aftur með krumpað skott og helbláan þá var það nokkurn veginn þannig sem mér leið (mínus skottið). Veðurlýsingin talar um -18°C frost, sem ”feels likes -28°C” væntanlega út af því að samhliða er 71% raki og vindkæling...brrr...
En ekkert kvart hér, maður fær sér bara heitt kakó og hefur það kósí á meðan þetta varir.
Ég veit annars ekki hvort það var kuldinn eða hvað en Þorvaldur Örn varð lasinn í gær. Við vöknuðum extra snemma af því hann átti að byrja í skólanum. Svo gat minn ekki klárað morgunmatinn sinn, sem mér fannst pínu skrýtið því venjulega borðar hann manna mest. En áfram var haldið og við mæðginin löbbuðum í skólann í skítakulda. Þar varð hann fljótlega alveg ómögulegur, hékk bara á mér og vildi ekkert gera. Ég hélt kannski að þetta væri bara mótþrói og kvíði útaf skólanum en svo leit ég á krakkann og allt í einu kveikti ég á perunni-hann var að verða lasinn. Í stuttu máli þá voru þetta ekki skemmtilegar 2 klst í þessum skóla (sem mér líst reyndar annars alveg prýðilega á, fullt af skemmtilegum hlutum sem verið er að gera með krökkum þarna). Alltaf dró meira og meira af mínum manni og hann var orðinn heitur á enninu og ískaldur á höndunum þegar við fórum. Og þá sá ég fram á labb heim í títtnefndum ískulda, með strákinn sem stóð varla undir sjálfum sér plús töskur...en haldiði að ég sjái þá ekki eitt stykki Taxa í íbúðargötunni við skólann og ég dröslaði barninu yfir götuna og að bílnum og höslaði okkur far heim. Góðhjartaða konan sem keyrði hefur örugglega unnið í lottóinu í gær ef karma virkar. En Þorvaldur Örn fór beint í bólið og var svo með yfir 40 stiga hita í gærkvöldi. Hann var samt sem betur fer hitalaus í dag og þetta er vonandi að rjátlast af honum.
Læt þetta duga í bili. Á helgarplaninu er ekkert sérstakt, en ætli það fari ekki eftir heilsu- og veðurfari hvað verður gert.

Kveð í bili (stefnan er svo að setja hér inn e-ar myndir, e-n tímann...)
Magga&Þorvaldar

Tuesday, January 13, 2009

Sælt veri fólkið!

Jæja. Ég ákvað að á meðan vestanhafsdvölinni stendur myndi ég sjá um að skrá hérna helstu fréttir og ekki-fréttir af okkur fjölskyldunni. Ákvað reyndar fyrir löngu að fyrr myndi ég nú gera ýmislegt annað heldur en að blogga en svona gengur þetta stundum, greinilega á maður aldrei að segja aldrei (eða allaveganna frekar sjaldan…). En við erum sem sagt lent í Kanada, í bænum Guelph nánar tiltekið. Við komum hingað á nýársdag og ferðalagið gekk vonum framar. Bárum Þorvald Örn sofandi inn og útúr seinni flugvélinni og vorum öll orðin fremur slæpt þegar við náðum loks á gistiheimilið. Ákváðum að eyða fyrstu nóttinni þar vegna þess að okkar íbúð á kollegíinu (góð íslenska hér…) var gersamlega galtóm. Enda hafa þessar fyrstu vikur hérna farið í að skrapa saman dóti og helstu nauðsynjavörum svo við hringlum ekki þar bara þrjú. Annars er þetta ágætis íbúð og frekar stór á íslenskan nemendagarða-mælikvarða. Það er kjallari-með þvottavél og þurrkara (já!), svo eldhús, anddyri og stofa á 1.hæð og 2 svefnherbergi og bað efst. Allt með ágætum sem sagt. Og eftir nokkrar ferðir í nálægar búðir og eina á leigðum bíl í hina ljómandi fínu og alþjóðlegu verslun IKEA í nágrannabæ höfum við flest sem við þurfum. Enda eru nauðsynjavörur vissulega teygjanlegt hugtak, uppþvottavél er t.d. æðisleg en ekki nauðsynleg…nema maður eigi fjóra krakka og einn mann eins og Þorbjörg systir;-) Svo hefur maður vissulega gott af því að hafa hvorki bíl né sjónvarp og þurfa þ.a.l. bæði að hugsa og labba meira en ella. En tölvan er þó hér, árgerð 2005 og vel nettengd og þá er nú sambandið við umheiminn komið. (Svo getur Þorvaldur auðvitað horft á landsmótsdiskinn í henni;-)
Allaveganna. Hérna á kollegíinu er fólk af ýmsum þjóðernum, m.a. Íslendingar aðrir en við. Þau Guðmundur og Jóhanna sem bjuggu einu sinni líka á Skólaflöt 12 ásamt sínum strákum eru hér og búin að vera í 2 ár. Við fengum rosa góðar móttökur hjá þeim, munaði sko aldeilis um það þegar maður er nýr og þekkir ekki áttirnar, hvað þá meira. Svo er ein kona hérna líka sem bjó á Íslandi í 16 ár og tók vel á móti okkur sömuleiðis. Kollegíið sjálft eru nokkrar blokkir sem mynda lítið hverfi þar sem ekki er keyrt á bíl inn í (aha-sniðugt) og hér er smá leikvöllur fyrir börn og þetta er bara mjög fínt og skemmtilegt umhverfi. Blokkirnar sjálfar komast nú trúlega seint á heimsminjalista fyrir fagurfræðilegan arkitektúr en hverjum er ekki sama fyrst hverfið er fínt og staðsetningin góð.
Þorvaldur er ca korter að labba í skólann og við Þorvaldur Örn erum búin að skoða skólaumhverfið með honum. Þetta er reyndar alveg hellingur af byggingum á stóru svæði sem útleggst á ensku sem campus, allt fullt af lærandi fólki alls staðar og skemmtilegur andi yfir þessu öllu. Þorvaldur skráði sig í fimm kúrsa alls, síðasti skráningardagur var á föstudaginn og hann ákvað bara að skrá sig eins og enginn væri morgundagurinn og geta svo frekar skráð sig úr einhverju ef það virkar ekki. Fyrir vikið þá hefur hann nóg að brasa í skólanum.
Í dag fórum við í heiiiiilalanga strætóferð til að hitta skólanefndarkonu og fá hjá henni plagg svo við getum farið og skráð Þorvald Örn í skóla hérna. Krakkar byrja hér 4ja ára í svokölluðum junior-kindergarten sem er svona n.k. for-forskóli…magnað það. Og við mæðginin ætlum á morgun að trítla í skólann sem hann á að fara í –sem er í 15 mín. labbfæri héðan og vita hvort þetta gengur nú ekki allt upp. Samkvæmt okkar upplýsingum verður hann 2 daga aðra hverja viku og 3 hina. Dagana sem hann verður ekki í skólanum munum við tvö brasa e-ð saman, ég hef verið að halda uppi ákveðinni mynd af heimaskóla það sem af er og stefni ótrauð áfram. Verð samt að nota tækifærið og lýsa aðdáun minni á kennurum, er búin að komast að því að mínar þolinmæðislímingar dygðu skammt í slíkum störfum.
Og þá að veðri. Stutt og laggóð lýsing væri: Kalt. En svona til að prjóna aðeins við hana þá er reyndar mis-skítkalt og svo verð ég að viðurkenna að það er miklu meiri vetur hér heldur á Íslandinu góða. Þetta er svona vetur eins og ég man eftir síðan ég var krakki og eyddi löngum stundum í skólabíl, mismikið föst í skafli á góðum vegum Vatnsnesins. Snjór og kuldi maður lifandi en ekki snjór í tvær mínútur og svo er hann fokinn út í hafsauga, nái hann ekki bráðna í rigningunni fyrst. Og við erum vel búin og hlægjum bara stórkarlalega í kuldanum...ehehe
Svo erum við búin að skoða miðbæinn (sem lofar góðu) og finna okkar-kaffihús (sem Þorvaldur reyndar á heiðurinn af að finna með hjálp kaffilegu konunnar), búin að finna bíó og sjá þar frekar subbulega rottu-músa teiknimynd. Af hverju er ekki hægt að nota minna af loðnum nagdýrum og meira af raunverulegum börnum þegar verið er að gera teiknimyndir fyrir börn...? Best að láta Mikka mús svara þessu...
Og svona til að hafa smá samantekt á þessu þá erum við öll spræk og bjóðum nóg af gistiplássi ef einhvern langar í heimsókn:-)

Kveðjur úr Vesturheimi,
Magga&Þorvaldar