Sunday, January 25, 2009

Helgarútgáfan

Sunnudagurinn að kveldi kominn hér í Kanada og kominn tími til að segja aðeins frá helginni. Hún einkenndist af miklum bílferðum og góðum mat og var í alla staði vel lukkuð. Til að byrja nú á bóndadeginum (og til hamingju allir húsbændur á Íslandi með hann) þá komum við Þorvaldur Örn pabba hans á óvart með kökubakstri þegar hann kom heim úr skólanum. Svoldið gaman að segja frá því að kakan sem bökuð var kom úr nægtabúri Betty Crocker og það var reyndar Þorvaldur Örn sjálfur sem sá pakkann í búðinni einu sinni og leist svo vel á að hann stakk henni bara í körfuna án þess að vera neitt að bera það undir foreldrana (hefur greinilega ekki búist við samþykki við þeirri hugmynd sinni…hehehe). Allaveganna, e-n veginn þvældist kakan heim án þess að við tækjum eftir henni á færibandinu og á sínum tíma vorum við nú ekkert sérstaklega ánægð með þetta framtak guttans til að auka á sætabrauðsát heimilisins. En það breyttist nú allt um helgina þegar hún kom í svona líka góðar þarfir og smakkaðist alveg prýðilega. Betty Crocker veit greinilega alveg hvað hún er brasa blessunin, þetta eru mínu fyrstu kynni af þessari öflugu húsmóður og ég hugsa að hún eigi eftir að koma í góðar þarfir hérna í útlandinu ef baka þarf kökur í hvelli án þess að leggja í mikinn stofnkostnað við slík verk. Þorvaldur Örn var t.d. ekki alveg að gútera að það þyrfti bara duft úr pakka, egg og mjólk til verksins og fannst e-ð vera að gleymast. Á hinn bóginn er ég nokkuð viss um að Betty er ekkert mikið að tapa sér í hollnustunni…hefur trúlega ekki verið snefill af spelti eða hrásykri í þessu pakkadufti…-en skítt með það, kakan var góð og maður er nú ekki að þessu nema til hátíðabriggda;-)
Svo um kvöldið þá höfðum við fjölskyldu videokvöld og hvað haldiði að hafi verið í boði nema The Road to Avonlea!! Vá, það var fyndið að sjá þetta allt aftur, bara næstum eins og hitta gamla vini, maður kannaðist við öll andlitin og atriðin rifjuðust upp þegar maður sá þetta. Og Þorvaldur Örn skemmti sér prýðilega, greinilega smekkmaður á gott sjónvarpsefni.
En áfram með smjörið. Laugardagurinn var tekinn snemma, við nestuðum okkur upp og lögðum upp í ferð til að skoða fossana miklu. Og þeir voru á sínum stað blessaðir og bara býsna flottir. Reyndar var svo kalt til að byrja með að ef ég kem e-um myndum hér inn á eftir þá eigiði eftir að sjá mjög svo rauðnefjaða fjölskyldu á ferðinni…Það sem manni fannst náttúrulega skrýtnast við þetta allt saman er hvað umhverfið er brjálæðislega manngert og það er næstum eins og fossarnir, sem fólk kemur væntanlega fyrst og fremst til að skoða, séu bara aukaatriði. Þarna er allt gert til að selja fólki e-ð annað, spilavíti, hótel, matsölustaðir í massavís, spilasalir og ég veit ekki hvað og hvað. Svoldið annað en að skoða Dettifoss þar sem er einn kamar á ómalbikuðu bílastæði og svo bara göngustígur. Og hvort sem það er þjóðremba eða sveitamennska (og það er jákvætt orð í mínum huga) þá kann ég betur að meta svoleiðis aðkomu að náttúrunni. E-n veginn eðlilegra hefði maður haldið. Engu síður var gaman að sjá þetta allt, við borðuðum m.a. hátt upp í turni með útsýni yfir fossana og nágrenni og það var rosa fínt. Að lokum var tekinn góður skoðunarrúntur um staðinn og síðan haldið heim á leið. Þegar heim var komið heyrði ég aðeins í afmælisbarni dagsins-og innilega aftur til hamingju með daginn pabbi minn:-)
Sunnudagurinn rann svo bjartur og fagur og fjölskyldan bílóða hélt ótrauð keyrslunni áfram. Í þetta skiptið var ferðinni heitið til nágranna-smábæjar sem heitir St.Jacobs. Hann er m.a. þekktur fyrir stóran bændamarkað sem okkur langaði að kíkja á og sjá og kaupa kanadísku útgáfuna af beint frá býli vörum. Reyndar komumst við að því að markaðurinn er ekki opinn á sunnudögum…úps…en það var ákveðið að gera gott úr því, skoða bæinn (sem er krúttlega Lauru Ashley útgáfan af Hvammstanga) og fá sér e-a næringu og svona. Við römbuðum inn á veitingastað og ætluðum að fá okkur e-ð létt, súpu og salat eða e-ð svoleiðis bara en viti menn-við höfðum rambað á eitt það svakalegasta sunnudags-brunch sem ég hef á ævi minni upplifað. Þetta var í rauninni fáránlega ódýrt miðað við matarmagnið og úrvalið, 17 dalir fyrir hvort okkar Þorvaldar og ókeypis fyrir 4ja ára og yngri. En jéminn eini, það sem var í boði þarna! Og ég verð að viðurkenna að ég er farin að skilja offituvandamál í þessum heimshluta ef þetta er sýnishorn af normal matarmenningu. Þetta var vissulega gaman, maður var að smakka mat sem maður þekkti ekki og mér fannst t.d. gaman loksins að vita hvernig pumpkin-pie bragðast-sem er reyndar ekkert sérlega vel en það er aukaatriði ;-) Við ákváðum a.m.k. að kíkja þarna einhvern tímann aftur áður en Þorvaldur Örn verður 5 ára og þá líka á bændamarkaðinn.
Leiðin heim einkenndist af setningum á borð við: Hmmm…helduru að þetta sé rétta leiðin…? Mér finnst eins og við hefðum átt að beygja áðan…æi…þetta reddast, ég held að við séum örugglega amk að keyra í rétta átt…-og fleiri slíkum góðum þar sem við Þorvaldur náðum ekki alveg nógu góðum kontakt við google-leiðarlýsinguna…hehe…en e-n veginn gekk þetta nú allt saman og við enduðum hér heima öll sömul. –Nýttum reyndar að sjálfsögðu tækifærið og fórum í matvörubúð fyrst við vorum á bíl. Þar var ávaxtadeildin vel skönnuð, enda ætla ég ekki að taka þátt í þessari matarbilun (nema um svona sparihelgar þe;-)
Jæja, nú er ég búin að blaðra óhóflega mikið hérna og er að hugsa um að láta staðar numið. Fram undan er 3ja daga skólavika hjá Þorvaldi Erni og spennandi að sjá hvort það gengur ekki bara vel, a.m.k. gekk allt ljómandi vel á fimmtudaginn síðasta þegar hann var einn í skólanum næstum fullan dag. Áfram að vona það besta í því sambandi.

Sendum svo að lokum öll góðar kveðjur heim (og líka til útlandalesaranna) og vonum að sem flestir nái að borða fullt af góðum þorramat þessa dagana:-)

Bless í bili öll sömul og ég hlakka til að heyra frá ykkur,
Magga&Þorvaldar

4 comments:

  1. Það er aldeilis pistill :) Frábært framtak hjá þér frænka!! Það er nú meira hvað litli frændi er úrræðagóður, ha, náði aldeilis að plata ykkur uppúr skónum þarna í búðinni :) Enda afbragðs gen þarna á ferð ... geri ráð fyrir að þetta séu Þorgrímsstaðargenin þar sem útlitið er að mestu leyti komið frá pabbanum ;) Síðan erum við bara svo klárt fólk að það getur bara ekki annað verið :)
    Við hjúin skelltum okkur á þorrablót síðustu helgi og skemmtum okkur stórvel. Nonni var aðeins tekinn fyrir, ásamt bæjarstjóranum og öðrum samstarfsaðila, þar sem þeir eru allir svipaðir á hæð og voru því kallaðir dvergarnir sjö í hobbithöllinni :) Þetta var frekar fyndið :) Að vísu var lillilíus orðinn lasinn þegar við komum heim og rauk uppí 40 stig í gærdag ... fór síðan uppí 41 stig áðan ... mamman varð frekar nojuð (á górði ísl.) og hringdi hér tvisvar í vakthafandi lækni ... sem kom ekki að miklu gagni að mínu mati!!! En svona er þetta bara fjarri höfuðborginni. Hann nær aðeins að dorma inná milli og hitinn er nú kominn niður í 40 stig aftur en hann er ansi lasinn litli snáðinn :( Það fór því heldur lítið fyrir eldamennsku hér á bæ og pöntuðum við bara pizzu fyrir litlu dömuna og þá sem hafa matarlyst .....
    En frábært að heyra hvað ferðalagið gekk vel, ekkert smá tækifæri til þess að skoða heiminn og sjá nýja staði. Talaði einmitt við Gauju systir í dag og við vorum einmitt að tala um hvað það væri gaman að heimsækja ykkur. Við höldum bara frænkuhitting eftir nokkrar vikur - er þa'ggi - ég meina hann er nú alltaf hjá þér hvort eð er ... Hvanneyri - Kanada ... ég sé ekki hvert vandamálið er .... *hehhe* Ein sem lifir í bullandi sjálfsblekkingu *híhí* En þegar frænkuhittingurinn verður haldinn, á Hvanneyri býst ég við, þá verður líka nauðsynlegt að halda myndasýningu og borða eitthvað gott með, engin spurning.
    Jæja, Nonni gengur hér um íbúðina í leit að gleraugunum sínum og virðist engan veginn nálægt því að finna þau .... ætli það sé ekki best að kvekja á radarnum og aðstoða manninn. Hann er aðeins farinn að örvænta ;) Bið kærlega að heilsa þínum ektamönnum og sendi að sjálfsögðu stórt knús og kossa í kotið. Heyrumst svo síðar mín kæra, bestu kveðjur, Eyrún :*

    ReplyDelete
  2. Hæ elsku Eyrún mín, alltaf svo gaman að heyra frá þér:-)
    -Ég vona nú bara að litli guttinn sé á batavegi, skil þig vel með nojuna, ég hefði höndlað þetta alveg eins! Minnir reyndar að Þ.Ö. hafi sett svona hitamet þegar hann var á svipuðum aldri, svo bara lagaðist það á nokkrum dögum. Þau eru harðari en þau líta út fyrir þessi kríli, þótt auðvitað sé full ástæða til að athuga málið þegar hitinn fer svona hátt.
    Og hvað frænkuhittinginn varðar þá er um að gera að skella sér bara vestur;-) kannski meira að gera en að segja það...en væri samt alveg geggjað! En ef það tekst nú ekki þá er sko bókað mál að mitt hús á Hvanneyri er galopið í sumar fyrir frænkuhitting, bara enítæm-og það skal sko verða myndasýning&matur&allt saman. Þið verðið bara allar að gista hjá mér og jafnvel að hafa þetta bara barnlausan hitting svo við getum nú blaðrað frá okkur allt vit og skálað fyrir góðum félagsskap;-)
    Gangi þér svo vel í öllu saman dúllan mín, við biðjum sömuleiðis rosa vel að heilsa á heimilið (vonandi skiluðu gleraugun sér, stundum þarf nú ekki annað en að kvenmaður horfi í kringum sig til að hlutirnir finnist...;-)
    Hafiði það gott dúllur&skilaðu líka kveðju til Gaujunnar
    Knús frá Kanada
    Magga

    ReplyDelete
  3. Gaman ad lesa pistilinn thinn Maxine min:)
    Knus,
    erla

    ReplyDelete
  4. Takk Erla mín:-)
    en hvernig er það, ert þú í bloggpásu...?
    knús til baka
    Maxine

    ReplyDelete