Tuesday, March 17, 2009

Kveður í runni, kvakar í mó í Kanada

Þá er helgin liðin og við búin að flengjast hér um kanadískar koppagrundir og krummaskuð eins og vit og geta var til. -Þetta er nú kannski aðeins ofsögum sagt en eins og glöggir muna úr síðustu færslu hérna þá er mamma hans Þorvaldar núna í heimsókn og við reynum náttúrulega að sýna henni e-ð af svæðinu. Hún lenti reyndar í veseni á leiðinni hingað, missti af ekki einu heldur tveimur tengiflugum og varð fyrir vikið að eyða fyrstu nóttinni á hóteli í Montreal...tengiflug geta greinilega verið nett pirrandi, ég er bara fegin að allt gekk upp þegar við fórum hingað og eins náttúrulega að hún rataði á leiðarenda fyrir rest.
Og svo ég haldi áfram í jákvæðu deildinni þá er ég líka ægilega ánægð með veðrið sem hefur heldur betur verið til fyrirmyndar upp á síðkastið, bara tveggja stafa hitatölur, sól og fínt. Ég sat t.d. úti í garði í dag og sleikti sólina á hlýrabol og stuttu pilsi! Maður er alvarlega farinn að freistast til að halda að vorið sé rétt ókomið...verst að vera krónískur Íslendingur og búast náttúrulega við áhlaupi fyrst þessi góði kafli kemur núna;-) Hvort áhlaup verði hér um þessar slóðir er reyndar alveg efunarmál og annað mál útaf fyrir sig.

En við sem sagt leigðum bíl um helgina og byrjuðum á að bruna að Niagra fossunum sem Geirlaugu langaði að sjá. Verð að viðurkenna að það var meira gaman að sjá þá í svona góðu veðri, nefið á mér var ekki helblátt af kulda í þetta skiptið. En það er samt alveg nóg að koma þarna tvisvar (jafnvel einu sinni ef veðrið er gott). Á heimleiðinni tókum við smá dí-túr og skoðuðum bæ sem heitir Niagra-on-the-Lake og er rétt hjá fossunum eins og nafnið bendir til. Þetta er bær þar sem gömlu húsin eru mjög vel varðveitt og ótrúlega flott, svoldið eins og að koma í kvikmyndaver. Gaman að því.
Sunnudagurinn fór í bíltúr um nágrennið. Eyddum dálitlum tíma í að reyna finna e-a Equine Centre sem Þorvaldur hafði fundið á netinu og átti að vera hérna rétt hjá en reyndist vera e-s staðar annars staðar en þar sem við leituðum þennan daginn. Í staðinn keyrðum við í nágrannabæ sem heitir Elora og er í ca 25 km fjarlægð frá Guelph. Borðuðum í gamalli myllu þar og strolluðum um bæinn sem er nú í hreinskilni ekkert óskaplega merkilegur...en myllan var frekar fín og veðrið gott þannig að þetta var ágætt. Síðan erum við búin að taka rúnt um háskólasvæðið, skoða miðbæinn og bara hafa það fínt. Og auðvitað höfum við svo farið út að snæða og fundum þennan fína veitingastað hér í Guelph! Við Þorvaldur höfum nefnilega ekki verið neitt of dugleg að gera könnun á þeim (lesist: höfðum ekkert skoðað nema tvö kaffihús), þannig að til að geta nú boðið gestinum upp á e-ð meira fansí þá valdi Þorvaldur þennan úr e-u blaðinu og tókst svona líka vel upp með það.

Þorvaldur Örn tekur því náttúrulega mjög vel að hafa ömmu sína í heimsókn og þau brasa ýmislegt saman, úti og inni. Fyrir vikið fáum við Þorvaldur líka pössun og nýttum tækifærið og barasta fórum í bíó í gærkveldi;-) Ég var að reyna að rifja upp hvenær við fórum síðast saman í bíó og mig minnir að það hafi verið þegar við fórum með Þorvaldi Erni og sáum Bubba Byggir myndina...alveg að standa okkur í bíóferðunum...*hóst*...allaveganna, í gær sáum við Slumdog Millionarie og hún er svakaleg, mjög ljót á köflum en endar vel.
Og fyrst ég er byrjuð að tala um kvikmyndir þá höfum við reyndar tekið nokkrar myndir hér í sjónvarpsleysinu og eytt nokkrum góðum kvöldum í að horfa saman á þær í tölvunni, voða rómó;-) Þannig er ég aðeins búin að saxa á klassíska listann sem mig hefur lengi langað til og get núna strikað yfir myndir eins og An Affair to Remember, My Fair Lady, One Flew over the Cookoo´s Nest og Cat on a Hot Tinroof, já og Mamma Mia-við Þorvaldur vorum víst síðustu tveir Íslendingarnir sem komu því loksins í verk að sjá þá mynd, ætli hún teljist ekki sem klassísk...amk eftir e-r ár. Svo hafa aðrar minna klassískar vissulega flotið þarna með...nýjasta myndin sem við sáum var t.d. Vicky Christina Barcelona sem er vel með farin krúttleg saga og ég mæli með, bara af því hún er ekkert að rembast við að vera kvikmyndalegt stórvirki. -Best er samt serían um Jessicu Fletcher sem Þorvaldur mundi eftir síðan fyrir hundrað árum og við höfum aðeins kíkt á. Þetta er sem sagt glæpasería um hana Jessicu sem er glæpasagnahöfundur komin af léttasta skeiði og leysir, jú rétt er það, alvöru glæpamál í frítíma sínum. Framleiddir um 1970/80 og hrikalega fyndnir útfrá þeim punkti og efnistökum.

Á morgun er svo pre-moveout-inspection hér í Unit 30...ekki spyrja, ég veit ekkert um hvað þetta snýst, Kanadamenn eru mjög uppteknir af að halda vel utan um allt sem snýr að þessum nemendagörðum og hingað hafa komið hinir og þessir viðhalds-húsviðgerðarmenn og fixað hitt og þetta smálegt; gat á þurrkararöri, hurð sem lokaðist ekki, myglu á kjallaraveggjum etc. Og einn þurfti spesferð til að prófa reykskynjarana, ein kom hérna spesferð alveg í byrjun og sagði okkur eitt og annað gáfulegt um íbúðina, t.d. að hún væri gömul (nú er það) og að við skildum ekki setja heitan pott beint á viðarplötuna í eldhúsinu (nú af hverju ekki). Þannig að ég ætla nú ekki að setja mig í neinar stellingar fyrir morgundaginn, finnst ég vera búin að læra það að þessar heimsóknir þeirra heita stærri nöfnum en tilefnin eru til.

-Best væri svo að enda þetta á söng, það ku vera í tísku þessa dagana..hehe, amk á Hvanneyri;-) En þar sem þetta er bara aumt, skriflegt blogg þá verð ég víst að sleppa því. Í staðinn bið ég ykkur vel að lifa og vona að þið gróið bæði og grænkið af geislanæringunni.
Vorkveðjur frá Kanada,
Magga&Þorvaldarnir

2 comments:

  1. Takk fyrir skemmtilegt blogg, það er alltaf hressandi að lesa þessa pisla þína.
    Hérna gælum við líka við þá hugmynd að vorið sé komið, hitamælirinn hefur farið uppfyrir núllið tvo daga í röð.
    Jæja ætla að halda áfram, stefni á að skila í næstu viku...

    ReplyDelete
  2. Gaman að heyra það Berglind-og sérlega skemmtilegt að heyra að vorið sé að mæta á borgfirskar grundir:-) Ég geri þá líka ráð fyrir því að gæsirnar séu farnar að láta sjá sig og heyra í sér öllum til ánægju...;-)
    Gangi þér vel, þú massar þetta stelpa mín!

    ReplyDelete