Tuesday, January 13, 2009

Sælt veri fólkið!

Jæja. Ég ákvað að á meðan vestanhafsdvölinni stendur myndi ég sjá um að skrá hérna helstu fréttir og ekki-fréttir af okkur fjölskyldunni. Ákvað reyndar fyrir löngu að fyrr myndi ég nú gera ýmislegt annað heldur en að blogga en svona gengur þetta stundum, greinilega á maður aldrei að segja aldrei (eða allaveganna frekar sjaldan…). En við erum sem sagt lent í Kanada, í bænum Guelph nánar tiltekið. Við komum hingað á nýársdag og ferðalagið gekk vonum framar. Bárum Þorvald Örn sofandi inn og útúr seinni flugvélinni og vorum öll orðin fremur slæpt þegar við náðum loks á gistiheimilið. Ákváðum að eyða fyrstu nóttinni þar vegna þess að okkar íbúð á kollegíinu (góð íslenska hér…) var gersamlega galtóm. Enda hafa þessar fyrstu vikur hérna farið í að skrapa saman dóti og helstu nauðsynjavörum svo við hringlum ekki þar bara þrjú. Annars er þetta ágætis íbúð og frekar stór á íslenskan nemendagarða-mælikvarða. Það er kjallari-með þvottavél og þurrkara (já!), svo eldhús, anddyri og stofa á 1.hæð og 2 svefnherbergi og bað efst. Allt með ágætum sem sagt. Og eftir nokkrar ferðir í nálægar búðir og eina á leigðum bíl í hina ljómandi fínu og alþjóðlegu verslun IKEA í nágrannabæ höfum við flest sem við þurfum. Enda eru nauðsynjavörur vissulega teygjanlegt hugtak, uppþvottavél er t.d. æðisleg en ekki nauðsynleg…nema maður eigi fjóra krakka og einn mann eins og Þorbjörg systir;-) Svo hefur maður vissulega gott af því að hafa hvorki bíl né sjónvarp og þurfa þ.a.l. bæði að hugsa og labba meira en ella. En tölvan er þó hér, árgerð 2005 og vel nettengd og þá er nú sambandið við umheiminn komið. (Svo getur Þorvaldur auðvitað horft á landsmótsdiskinn í henni;-)
Allaveganna. Hérna á kollegíinu er fólk af ýmsum þjóðernum, m.a. Íslendingar aðrir en við. Þau Guðmundur og Jóhanna sem bjuggu einu sinni líka á Skólaflöt 12 ásamt sínum strákum eru hér og búin að vera í 2 ár. Við fengum rosa góðar móttökur hjá þeim, munaði sko aldeilis um það þegar maður er nýr og þekkir ekki áttirnar, hvað þá meira. Svo er ein kona hérna líka sem bjó á Íslandi í 16 ár og tók vel á móti okkur sömuleiðis. Kollegíið sjálft eru nokkrar blokkir sem mynda lítið hverfi þar sem ekki er keyrt á bíl inn í (aha-sniðugt) og hér er smá leikvöllur fyrir börn og þetta er bara mjög fínt og skemmtilegt umhverfi. Blokkirnar sjálfar komast nú trúlega seint á heimsminjalista fyrir fagurfræðilegan arkitektúr en hverjum er ekki sama fyrst hverfið er fínt og staðsetningin góð.
Þorvaldur er ca korter að labba í skólann og við Þorvaldur Örn erum búin að skoða skólaumhverfið með honum. Þetta er reyndar alveg hellingur af byggingum á stóru svæði sem útleggst á ensku sem campus, allt fullt af lærandi fólki alls staðar og skemmtilegur andi yfir þessu öllu. Þorvaldur skráði sig í fimm kúrsa alls, síðasti skráningardagur var á föstudaginn og hann ákvað bara að skrá sig eins og enginn væri morgundagurinn og geta svo frekar skráð sig úr einhverju ef það virkar ekki. Fyrir vikið þá hefur hann nóg að brasa í skólanum.
Í dag fórum við í heiiiiilalanga strætóferð til að hitta skólanefndarkonu og fá hjá henni plagg svo við getum farið og skráð Þorvald Örn í skóla hérna. Krakkar byrja hér 4ja ára í svokölluðum junior-kindergarten sem er svona n.k. for-forskóli…magnað það. Og við mæðginin ætlum á morgun að trítla í skólann sem hann á að fara í –sem er í 15 mín. labbfæri héðan og vita hvort þetta gengur nú ekki allt upp. Samkvæmt okkar upplýsingum verður hann 2 daga aðra hverja viku og 3 hina. Dagana sem hann verður ekki í skólanum munum við tvö brasa e-ð saman, ég hef verið að halda uppi ákveðinni mynd af heimaskóla það sem af er og stefni ótrauð áfram. Verð samt að nota tækifærið og lýsa aðdáun minni á kennurum, er búin að komast að því að mínar þolinmæðislímingar dygðu skammt í slíkum störfum.
Og þá að veðri. Stutt og laggóð lýsing væri: Kalt. En svona til að prjóna aðeins við hana þá er reyndar mis-skítkalt og svo verð ég að viðurkenna að það er miklu meiri vetur hér heldur á Íslandinu góða. Þetta er svona vetur eins og ég man eftir síðan ég var krakki og eyddi löngum stundum í skólabíl, mismikið föst í skafli á góðum vegum Vatnsnesins. Snjór og kuldi maður lifandi en ekki snjór í tvær mínútur og svo er hann fokinn út í hafsauga, nái hann ekki bráðna í rigningunni fyrst. Og við erum vel búin og hlægjum bara stórkarlalega í kuldanum...ehehe
Svo erum við búin að skoða miðbæinn (sem lofar góðu) og finna okkar-kaffihús (sem Þorvaldur reyndar á heiðurinn af að finna með hjálp kaffilegu konunnar), búin að finna bíó og sjá þar frekar subbulega rottu-músa teiknimynd. Af hverju er ekki hægt að nota minna af loðnum nagdýrum og meira af raunverulegum börnum þegar verið er að gera teiknimyndir fyrir börn...? Best að láta Mikka mús svara þessu...
Og svona til að hafa smá samantekt á þessu þá erum við öll spræk og bjóðum nóg af gistiplássi ef einhvern langar í heimsókn:-)

Kveðjur úr Vesturheimi,
Magga&Þorvaldar

2 comments:

  1. Va Magga min! En otrulega spennandi og flott hja ykkur! Nu hofum vid ekki talad saman svo lengi ad eg hafdi ekki hugmynd um ad tid vaerud ad fara ut en tu ert nu buin ad tala um tetta lengi, t.e. ad tig langi ut. Glaesilegt hja ykkur! Af okkur er allt agaett ad fretta. Eg nykomin heim fra Sudurskautinu og tad er gott ad vera komin til baka, soldid skritid en gott.
    Hafid tad oll sem allra best og eg hlakka til ad lesa meira af dvolinni ykkar...p.s. hvad verdidi lengi?
    erla

    ReplyDelete
  2. Sæl Erla mín og velkomin að sunnan;-) Já, við ákváðum að drífa okkur bara út enda þarf Þorvaldur hvort sem er að taka doktorskúrsa erlendis og okkur langaði ekkert sérstaklega til skandinavíu, bæði búin að prófa DK og svona. Þannig að Kanada varð fyrir valinu og hér ætlum við að vera þar til 13.maí. Skólanum hans Þorvaldur lýkur reyndar ca mánuði fyrr og við höldum íbúðinni til lok apríl. Tímann frá skólalokum og að heimferð ætlum við að reyna að nýta sem mest til ferðalaga (eða eins og fjárhagur leyfir...). Eins langar okkur að skoða sem mest við getum um helgar, t.d. verð ég að heimsækja hana Carrie vinkonu mína í NYC;-)
    Knús elsku Erla mín&hafið það sem best í nýju íbúðinni þarna suður frá!
    maxine

    ReplyDelete