Sunday, April 5, 2009

Vor eller ej...?

Á mánudaginn varð litla barnið í fjölskyldunni 5 ára!! Skrýtið að eiga bráðum barn í grunnskóla...tími líður og allt það. Afmælisdagurinn var rólegur, gjafir opnaðar og kaka borðuð og svo bara leikið og dundað í nýju dóti og allir sáttir. Veðrið var líka hundfúlt, ískalt og lítið gaman að útiveru, enda er: Vor-ekki vor, vor-ekki vor besta lýsingin á veðurfarinu sem verið hefur hérna núna undanfarna daga. Á föstudaginn rigndi eins og hellt væri úr nokkrum fötum og í gær var svona páskaeggjaleit fyrir krakka á collegíinu og það var ískuldi! Við dressuðum okkur upp, Þorvaldur Örn í snjóbuxum og úlpu, norpuðum um milli trjánna og týndum upp nokkur plastegg (sem reyndust nú meira vera svona dreifð um svæðið, fremur en týnd...). Hann fékk svo súkkulaði í verðlaun og við flýttum okkur heim og inn úr kuldanum. Svo í dag þá var þetta fína, hlýja vorveður. Við fórum niðrí bæ og byrjuðum á kaffibolla á Red Brick. Við Þorvaldur erum sammála um að það sé leitun að jafn góðum cappucino-bolla og á þessu kaffihúsi, alveg ferðarinnar virði í sjálfu sér. Tilgangurinn var samt ekki bara að sötra cappucino heldur fremur að kíkja á lestarstöðina og athuga hvort það geti verið fjárhagslega hagkvæmara að ferðast með lest fremur en leigja bíl í ferðalagið. Lestarstöðin opnaði ekki fyrr en kl.4 þannig að tímann sem við höfðum nýttum við í kaffidrykkju og svo gerðum við tilraun nr.2 til að skoða ,,dómkirkju“ svæðisins. Hún reyndist opin í þetta skiptið svo við gátum rölt um og skoðað. Ágætis kaþólsk kirkja bara svona og nú erum við amk búin að sjá hana. Svo loksins þegar lestarstöðin opnaði þá fengum við að vita að það er rándýrt að ferðast hér með lestum og ekki sjens að það borgi sig fyrir okkur að reyna slíkt ætlum við að halda budgeti. Skrýtið að almenningssamgöngur skuli vera svona dýrar í svona stóru landi.
Síðan brunaði strætóinn framhjá nefinu á okkur rétt áður en við gátum gómað hann til baka. Af því veðrið var svo frábært ákváðum við að rölta bara aðeins af stað, enda líður alveg hálftími milli vagna. Það teygðist svo úr því rölti því við enduðum heima í íbúð 30 án þess að taka nokkurn strætó. Vorum ekki mikið lengur en ca klukkutíma að því og Þorvaldur Örn labbaði nánast alveg allan tímann, pabbi hans rétt aðeins ferjaði hann síðasta spölinn. Uppskeran úr bæjarferðinni varð því í stuttu máli gott kaffi og góður göngutúr.

-Reyndar var uppskera dagsins aðeins meiri, því Þorvaldur K. skilaði af sér lokaverkefni í einum af þremur kúrsum og er þess búinn í honum og gaman að því, þetta er allt að koma:-)

Næst á dagskrá hjá okkur er að bóka bíl fyrir ferðalagið og gistingu, þ.e.a.s. fyrstu nóttina og svo trúlega á Prince Edward Island líka. Hinum nóttunum verður meira svona reddað þegar þess þarf-óþarfi að hengja sig í of stíf plön;-) Páskarnir alveg á næsta leyti með kanadísku lambakjöti og íslensku páskaeggi fyrir þann 5 ára, það á nú eftir að gera stormandi lukku er ég viss um.
Ætla ekki að hafa þetta mikið lengra í bili, en við sendum rosa góðar kveðjur til ykkar allra og vonum að vorið sé farið að verma klakann:-)
Knús frá Kanada,
Magga&strákarnir

1 comment:

  1. Úllalla! :) Á bara að fara í "fyrirheitna" landið sjálft, Prince Edward Island! Er ekki þar sem Anna í Grænuhlíð gerist og Road to Avonlea? Það er eins og mig minni það...gæti svo sem alveg skjátlast...langt síðan ég sá þættina.
    Til hamingju með barnið í fjölskyldunni, og gleðilega páska...
    Hér er líka svona "vor-ekki vor-vor" veður...búið að snjóa á nóttunni undanfarnar nætur og svo líka þetta fína gluggaveður á daginn, steikjandi hiti inni en nístingskuldi úti...held að vorið hafi nú að lokum betur, það er nú venjan...
    Það verður gaman að fá ykkur aftur í nágrennið, hér er verið að plana götugrill einhverntímann þegar gluggaveðrið byrjar að vera útiveður, væri frábært ef þið verðið komin heim fyrir þann tíma...engin tímasetning ákveðin á grillið enn...

    Góða ferð í langferðalaginu ykkar :)

    Kv. Magga hin og fjölsk... :)

    ReplyDelete