Sunday, February 15, 2009

Í ferðahug

Hvað get ég sagt nema New York, New York!! Loksins er sem sagt komið að því, við erum að fara til Stóra Eplisins og það barasta á morgun. Við erum öll spennt fyrir þessari ferð, Þorvaldur Örn sér fyrir sér M&M búð og hestavagnaferð í Central Park og það gerum við Þorvaldur K. reyndar líka-ásamt fleiru sem á dagskrá er.
En svo ég tali nú um e-ð annað en borgarferðina þá kom svona smá bakslag í skólagleðina hjá litla guttanum á fimmtudaginn. Þá var hringt í mig rétt fyrir 9 og bara sagt að hann væri ekki alveg að finna sig í dag, hvort ég gæti komið. Og ég náttúrulega fór og hitti minn mann sem var frekar lítill í sér og vildi alls ekki að ég færi. Það átti að vera smá Valentínusar-,,veisla” fyrir þau síðast um daginn og hann langaði nú svoldið að kíkja á það. Þannig að þetta endaði með því að ég var allan daginn í skólanum að skottast með stráknum mínum. Ágætis skóli alveg, ég held bara að honum finnist svo fúlt og glatað að geta ekkert tjáð sig við neinn, þótt að öllum kennurum beri saman um að hann geti alveg skilið það sem er um að vera þá náttúrulega getur hann ekki svarað eða tekið fullan þátt í því sem gengur á. Föstudagur var annar skóladagur og þegar það var svona klst eftir af deginum þá hringir skólinn í mig og þá langar Þorvald Örn að heyra í mér. Og við spjöllum aðeins saman, hann vildi bara að ég kæmi og næði í sig strax en ég gat talið hann á að klára daginn og hann var sáttur við það þegar upp var staðið. Vona bara að þessi frívika í NYC virki vel á skólagleðina hjá honum og hann verði tilbúinn að mæta næst þegar við komum aftur. Skil hann að sumu leyti samt mjög vel, mér þætti örugglega ekkert rosalega skemmtilegt að vera í t.d. rússneskum skóla og geta ekkert spjallað við neinn…en eins og ég hef sagt þá finnst mér mikilvægt að þetta geti gengið vel hjá honum og hann geti hitt og leikið sér við jafnaldra sína.

Í gær fórum við svo niðrí bæ og byrjuðum á því kíkja á Farmer´s Market. Það er mjög gaman að kíkja á hann, við höfum einu sinni áður farið og þetta er verulega sniðugt fyrirbæri. Alls konar dót, aðallega matur (kjöt, fiskur, grænmeti, ávextir, bakstursvörur…o.sv.fr.) á boðstólum og ýmislegt sem maður sér ekki oft m.a. alls konar vörur úr bæði sauða- og geitamjólk, hefur e-r t.d. smakkað ís úr geitamjólk?:-) Gaman að þessu og greinilega er þetta að svínvirka, alveg fullt af fólki sem mætir þangað og kaupir frekar beint af býli heldur en úr búð. Eftir að hafa sest aðeins niður, drukkið kaffi og spjallað aðeins við einhverja staðarbúa (allir voða kammó hérna) þá röltum við að finna rútustöðina (BSÍ þeirra hérna í Guelph). Þar keyptum við okkur miða til að komast nú örugglega til Toronto á morgun og líka heim á föstudaginn. Verðlagið aðeins undir því sem er heima (amk síðast þegar ég ferðaðist með rútu þar-sem er nú kannski ekkert til að miða við lengur…)
Og eins og ég minntist á um daginn þá fannst mér nauðsynlegt að fjárfesta í regnhlífarkerru fyrir guttann áður en út í stórborgarröltið væri haldið. Við lögðum því af stað í hina frábæru verslun Zellers þar sem hægt er að kaupa u.þ.b. allt en gæðin eru kannski ekkert til að fara heljarstökk yfir. Kerruna fundum við og þetta var reyndar alveg bráðfyndið allt saman. Þorvaldur Örn er náttúrulega að verða 5 ára og stór eftir aldri (hefur stærðina trúlega ekki frá móður sinni...)þannig að fyrst höfðum við augastað á kerru sem var frekar stór og hentaði honum ágætlega en hann var ekkert rosalega hrifinn af henni sjálfur, auk þess sem hún var helmingi dýrari en minni kerrur sem voru í boðinu líka. Hann hálftróð sér í eina slíka og fannst hún frábær og af því að ég sé ekki fram á notkun á þessum kerrugrip mikið umfram þessa borgarferð var ákveðið að spara pening og splæsa í eina af minni (og ódýrustu) gerðinni. Þannig að við strolluðum flissandi útúr búðinni með þetta fína farartæki og mér leið næstum því eins og ég væri að keyra pabba hans, því kerran er vissulega lítil og barnið vel stórt;-) En fyrir vikið getur hann hvílt sig aðeins á labbi í NY og við komumst hraðar yfir með hann í þessu kerruskrípi.

Svo í dag þá fór húsbóndinn aðeins í skólann en honum hefur tekist það sem hann ætlaði sér í lærdómi áður en frívikan kæmi og húrra fyrir því. Við Þorvaldur Örn dunduðum okkur á meðan við að pakka niður þeim þvotti sem þurr var orðinn, skila á bókasafnið og svo horfðum við (lesist aðallega ég) á Söngvakeppni Sjónvarpsins frá því á laugardaginn.
Þannig að svona er staðan núna, ferðalagið hefst snemma á morgun og JIBBÍ fyrir því. Læt kannski heyra frá mér ef tækifæri býðst meðan á dvölinni þarna stendur, annars bara þegar heim er komið.

Vona að þið séuð öll spræk og hafið það sem allra best, til sjávar og sveita:-)
-knús að vestan frá okkur
Magga&Þorvaldar

No comments:

Post a Comment