Wednesday, February 4, 2009

Helgin í miðri viku og fleira...

Góða kvöldið!
Þá kemur smá skýrsla um það helsta sem við höfum afrekað síðan síðast:-)
Á laugardaginn skelltum við okkur til Toronto. Farið var í rútu (sem var reyndar svona skólabíll, gulur og fínn og alveg eins og í Simpsons fyrir þá sem kannast við slíkt, nema að bílstjórinn hét ekki Ottó…) Allaveganna. Við vorum búin að ákveða fyrirfram að skoða ROM (Royal Museum of Ontario) og sú ákvörðun reyndist vera býsna góð þegar á hólminn kom þar sem veðrið leyfði ekki mikið rólegheitarölt, á meðan við strunsuðum áfram í leit að lestarstöðinni hélt ég að fésið myndi frjósa af mér…en það tolldi á sem betur fer og stöðina fundum við og tókum metróið á safnið góða. Þetta er mjög flott safn, riiiiisastórt og fuuuuulllllt að skoða þarna. Við byrjuðum reyndar á veitingastaðnum þar sem allir voru orðnir glorsoltnir og lítt hæfir til annarra verka fyrr en maginn fengi sitt. En svo lá leiðin í risaeðludeildina, eygypsku deildina, inkadeildina, grísku deildina og ég veit ekki hvað og hvað. Þarna er líka vel gert við börn, fullt af sniðugu safna/vísindadóti fyrir þau að skoða og fikta í, enda lærir maður mest af slíku, ekki bara horfa í gegnum gler á gamalt dót…
Að öðrum deildum ólöstuðum held ég að risaeðludeildin standi uppúr eftir þennan dagspart þarna á safninu (sem reyndar spannaði milljónir ára og mörg menningarsamfélög þegar ég hugsa út í það…)
Um borgina sjálfa er það annars að segja að hún er vissulega stórborg og allt andrúmsloft og umhverfi markað af þeirri staðreynd. Við náðum aðeins að upplifa stemminguna með smá kaffihúsarölti eftir safnferðina og svo annarri metróferð til að kíkja á markað sem er mælt var með í túristaupplýsingum. Markaðurinn var mjög flottur, aðallega matur á boðstólum og við fjárfestum í ostum, salami og brauði. Þorvaldur Örn var á þeim tímapunkti orðinn frekar þreyttur og tíminn sem við höfðum til umráða við það að renna út, þannig að markaðurinn var skannaður fremur hratt og svo skálmað til baka í gula skóla/rútubílinn. Sá stutti svaf líka alla leiðina heim og foreldrarnir voru í svipuðum gír sömuleiðis. En dagurinn var góður og ferðin vel þess virði og þá er smá þreyta nú vel réttlætanleg. Nú hefur maður aðeins hugmynd um hvernig þessi borg lítur út og hvað er þar hægt að brasa.

Sunnudagurinn reyndist vera heitasti dagurinn sem við höfum fengið hér í Kanada. Veðrið var alveg frábært, sólin skein og enginn vindur, snjórinn bráðnaði á húsþökum og við Þorvaldur vorum reyndar sammála um að þetta minnti okkur bæði á ákveðna gerð af íslensku útmánaðaveðri...mig fór bara að langa norður á Vatnsnes í volgar kleinur og ískalda mjólk;-) Við ákváðum að nota veðrið og fá okkur góðan göngu/sleðatúr. Fundum rosa flotta brekku í almenningsgarði hér aðeins í burtu og tókum nokkrar góðar sallibunur í henni, Þorvaldur Örn náttúrulega aðalmaðurinn í því. Við þessi eldri fengum reyndar náðarsamlegast að fljóta með í nokkur skipti. Svo ætluðum við að rölta e-ð aðeins meira og fórum í skógargöngu í skóg sem var þarna alveg við brekku-garðinn. Þetta reyndist vera risastór skógur og ég hélt á tímabili að við kæmumst aldrei útúr þessum ósköpum, ég er ekkert rosalega hrifin af skógum svona almennt séð og mér var farið að þykja nóg um. Þorvaldi fannst það bara fyndið, so much fyrir skilning á þeim bænum…enda komumst við svo sem útúr þessu fyrir rest en þá vorum við auðvitað komin lengst í burtu að heiman svo við tók heillangt þramm til baka. Sem auðvitað var bæði hressandi og hollt í þessu góða veðri. Ég ákvað svo um kvöldið að taka einn skokk hring í tilefni veðurblíðunnar og komst alveg ókalin frá því;-)

Mánudagurinn komst svo mjög nærri sunnudeginum að veðurgæðum. En ef e-ð er að marka íslensku vísuna um kyndilmessu sem og múrmeldýrið Phil þá ku það ekki vera mjög jákvætt svona upp á veðurfarið næstu vikurnar…æi, ég nenni nú ekkert að vera að stressa mig yfir því, það kemur allt í ljós. Maður hefur a.m.k. afsökun að hanga í verslunum ef veðrið er leiðinlegt…hehehe;-)

Gærdagurinn var síðan skóladagur hjá Þorvaldi Erni. Og hann stendur sig ótrúlega vel krakkinn, er farinn að pikka upp eitt og annað úr engilsaxneskunni, þetta er allt á góðri leið:-)
Svo er stefnan að fara að negla og planleggja ferð til NYC. Það á víst að vera möguleiki að redda þokkalega ódýrum flugmiðum þangað í febrúar og þá er bara að finna dísent gistingu á Manhattan og fara að hlakka til:-) Já, og ef eitthvað verður tekið með í þá borgarferð þá verður það sko regnhlífarkerra fyrir Þorvald Örn þar sem ég sé fram á massívt stroll um göturnar og hans fjöggra ára fætur eru ekki að nenna slíku ef ég þekki þær rétt...;-)

Þetta er nú svona það helsta það sem á síðustu dagana hérna dreif. Endilega sendið mér línu ef þið hafið e-ð merkilegt eða ómerkilegt að segja:-)
Hafið það gott öll sömul,
Kveðjur að vestan
Magga&Þorvaldar

5 comments:

  1. Já ég verð að vera dugleg að kommenta fyrst ég fann út úr þessu kommenta-kerfi hérna.
    Greinilega mjög skemmtileg helgi að baki, en vá hvað ég er sammála þér í þessum skógarmálum!!
    Annars er gott að frétta af eyrinni, rosa kuldakast hérna þessa dagana, engin -30°C samt en alveg -15°C í dag sem er rosalegt hérna í rakapollinum sem Hvanneyri er.
    En NYC ferð hljómar rosa spennandi, ég hef aðeins komið á þangað og já ég mæli með kerru undir stubbinn!!
    Jæja best að fara að gera eitthvað...
    Knús á ykkur
    Bebba

    ReplyDelete
  2. -Gaman að heyra í e-um sem skilur skógarfóbíu;-) Ég hef aðeins frétt af kuldanum heima, það er bara einn ráð við því: Ullin góða, hún blívur alltaf og svo er ekki verra að undirbúa klæðnaðinn fyrir viskukúna...ætla framhaldsnemar að slá í lið þar or nott...? (Koma svo!;-)
    Knús til bage;
    Magga

    ReplyDelete
  3. Sé það að við verðum greinilega að taka smá rúnt til Kanada við tækifæri og kíkja á þetta safn, svona áður en Jómundur Örn fer af "risaeðluáhugaaldrinum"...hann hefði þvílíkt skemmt sér þarna...og Guðrún Þórey í egypsku deildinni og inka-deildinni :)
    Kynntist þessu nestisstandi þegar við bjuggum í Noregi...ekki gaman að standa í þessu, en þetta tekur allt enda. Sé að minnsta kosti ekki eftir peningunum sem fara í skóla- og leikskólamáltíðir! ;) Las reyndar viðtal við einhverja konu í fréttablaðinu um helgina en hún hafði lært að gera nesti á japanskan máta, gerir andlit úr matnum, raðar nestinu á mjög skemmtilegan hátt, þannig að það verður allt girnilegra, og þetta verður til þess að hún notar meira af allskonar litu grænmeti í nesti dóttur sinnar...kannski þú gætir gúglað þessu ef þú hefur áhuga ;)

    Gangi ykkur vel áfram, hlakka til að lesa meira :)

    Kv. Margrét og gengið úr 10a :)

    ReplyDelete
  4. Kvitta fyrir komuna, það var bara næstum hiti hér á hvanneyri í dag eða um 0°C sem er smá munur frá -10°C sem hefur verið síðasta hálfa mánuðinn. En ótrúlegt en satt hefur líka verið logn í marga daga í röð sem er nú bara afrek, mjög fallegt verður hérna.
    En hafið það gott úti.
    kv Þorbjörg Helga og Hákon sendir kveðjur

    ReplyDelete
  5. Takk fyrir innlitin allar saman, alltaf gaman að heyra í ykkur. -Verð að segja að það var veeeerulega spes að heyra um lognið á Hvanneyri, vona bara að e-r taki sig til og skrái þetta í merkar bækur...;-)
    Ég mun reyna að gera e-ð við þetta nestistips Margrét, verð eiginlega að reyna það þar sem sonurinn lifði á 5 vínberjum og einni jógúrtdós síðast þegar hann var í skólanum...ehemm...ég var ekki sátt...
    En nóg í bele, best að fara að snæða kveldskattinn:-)
    Rosa góðar kveðjur til ykkar allra,
    Magga

    ReplyDelete