Sunday, April 19, 2009

Bless bless Guelph!

Jæja!! Þá er hann runninn upp og eiginlega að verða um garð genginn; síðasti dagurinn okkar hérna í Guelph! Helgin fór í þrif og niðurpakkningar og meiri þrif og meiri niðurpakkningar og mig langar að spyrja: Veit e-r hvaðan allt þetta dót kemur?! Núna sit ég hérna á stofugólfinu, umkringd ferðatöskum, sem eru svo gjörsamlega stöppufullar að ég krossa fingur og tær og vona bara að allir rennilásar haldi (svo ekki sé nú minnst á yfirvigtaráhyggjur-en þær koma þó ekki strax af fullum krafti;-) Nei, í alvöru þá finnst mér við ekki hafa verið að versla neitt svakalega mikið hér, ég keypti aðeins af fötum á Þorvald Örn þegar gengið var hagstætt og það er nú trúlega það helsta. Smá af fötum á okkur og smá minjagripir-og samt, belgfullar töskur horfa nú á mig úr öllum áttum...uss uss...
En það breytir ekki því að við erum búin að klára vistina hér í þessum bæ og nú tekur smá flakk við áður en heim verður snúið. Morgundagurinn verður vissulega strembinn, leigubíll-rúta1-rúta2-bílaleigubíll og hátt í 5 tíma keyrsla áður en áð verður í Ottawa. En ég hlakka bara til, er viss um að þetta verður rosa fjör:-) Ferðalög eru svoooooo skemmtileg.
Ég ætla að reyna að setja hér e-ar færslur svona við og við og láta heyra í mér en núna hef ég ekki meiri bloggtíma af því við verðum víst að klára fráganginn, það verður ræs árla í bítið á morgun;-)
-Gangi ykkur öllum vel í öllu ykkar brasi, ég sendi bestu kveðjur frá Guelph -trúlega í síðasta sinn:-)
Heyrumst síðar,
Magga&Þorvaldarnir kveðja í brjáluðu ferðastuði

Sunday, April 12, 2009

Páskar og bráðum ferðalag

Gleðilega páska allir saman!! Ég vona að páskarnir hafi verið –og séu enn, notalegir og góðir og með nóg af súkkulaði…Okkar páskadagur hófst á ratleik með það að markmiði að Þorvaldur Örn fyndi páskaeggið sitt. Það tókst á endanum (lokafelustaður eggsins var frystihólfið) og hann var kampakátur með árangurinn og át meira af egginu en nokkru sinni fyrr. Ég held að það megi rekja til þess að þetta var svona Rísegg og hann, sem er almennt frekar sérvitur þegar kemur að súkkulaði, sætti sig betur við það heldur en ef súkkulaðið hefði verið hreint. Málshátturinn var: Enginn fitnar af fögrum orðum…hmm…en mér er spurn; ætli það sé hægt að grennast af þeim..? Allaveganna, það er ekki eins og Þorvaldur Örn þurfi að passa línurnar, hann er í laginu eins og hrífuskaft blessað barnið (e-r hefði reynt að láta hann drekka rjóma er ég hrædd um;-) Svo var tekinn göngutúr, lesið og dundað inni og svo aftur farið út og dagurinn leið bara í þess háttar rólegheitum hjá okkur mæðginum. Þorvaldur K. eyddi honum hins vegar að mestu leyti á skrifstofunni að lesa fyrir próf morgundagsins sem er á þeim furðulega tíma kl.7 að kveldi…frekar skrýtið það og ég veit ekki hvort það er vegna páskanna (en annar í páskum er ekki alls staðar frídagur hér) eða hvað er málið eiginlega. Mér finnst það amk furðulegt að fara í próf á kvöldmatartíma á almennum frídegi.
En ég ætlaði líka að segja frá páskasteikinni meðan ég man. Þetta var sem sagt lambalæri af e-u mjólkurkyni (get ómögulega munað hvað sölukonan kallaði það, hafði ekki heyrt það áður). Og í stuttu máli þá minnti þetta mig frekar á kálfakjöt en lambakjöt-sem orsakast trúlega af því að þetta var mjólkurlamb en ekki svona páskalamb eins og við eigum að venjast heima. Rosalega meyrt og gott þannig en ekki beinlínis bragðmikið, meira svona út í það að vera mjög bragðlítið. En Þorvaldur brúnaði kartöflur og með St.Dalfour rifsberjasultu og salati var þetta auðvitað sælkeramatur allt saman. -En auðvitað hefur íslenska lambakjötið ennþá vinninginn með sitt fjallabragð-en ekki hvað…?;-)

Við Þorvaldur Örn erum bæði búin að fá okkur vorklippinguna hér og Þorvaldur K. ætlar að fylgja í fótspor okkar með það von bráðar. Við fórum á klippistofu sem er á campusnum og gaurinn sem klippti okkur leit meira út fyrir að vera e-s konar iðnaðarmaður, smiður eða e-ð svoleiðis, heldur en þessi standard klippitýpa sem maður á að venjast. Miðaldra, óskup venjulega gaur en klippti alveg ágætlega svo það greinilega felst ekki allt í lúkkinu hjá þessum klippurum…dettur í þessu sambandi í hug barnalæknirinn sem ég hélt fyrst að væri húsvörður;-)

En það er nú svo komið að nú er síðasta vikan okkar hérna í Guelph að renna upp-jahérna og jéminn hvað tíminn líður hratt. Við erum búin að fastsetja okkur bílaleigubíl í Toronto og búin að fá loforð um að mega geyma hluta af farangrinum þar hjá semi-íslenskri konu, þá þurfum við ekki að dröslast með allt með okkur allan tímann. Svo erum við búin að auglýsa þessi fáu húsgögn okkar sem möguleiki er að selja og alveg heilir 3 aðilar eru búnir að lýsa yfir áhuga á þeim, þannig að ég vonast nú bara til að geta selt þetta allt saman og þannig að fá amk helminginn af peningnum til baka. Svo voru Guðmundur og Jóhanna að segja mér að það sé víst eins gott að þrífa íbúðirnar hérna almennilega, fólkið sem var hérna á undan okkur fékk víst feitan bakreikning af því það þurfti að þrífa betur eftir þau. Eins gott að skúra, skrúbba og bóna-nenni ekki svoleiðis veseni og útgjöldum.
Vikan framundan fer þess vegna í frágang og snatt, húsgagnasölu, þrif og reyndar líka húllumhæ þar sem auðvitað eru feðgarnir báðir að ,,útskrifast” úr skólunum sínum og við verðum nú aldeilis að fagna því:-)
Næsta sunnudag verður allaveganna allt að vera klárt því þá byrjar ferðalagið-og ekki væri verra að krónugreyið myndi nú nota vikuna til þess að taka sig saman í andlitinu og styrkjast þó ekki væri nema um nokkur prósent…það væri óneitanlega ansi gott.

-Njótiði svo restarinnar af páskunum og bara alls hins besta:-)
Páskakveðjur að vestan,
Magga&Þorvaldarnir

Sunday, April 5, 2009

Vor eller ej...?

Á mánudaginn varð litla barnið í fjölskyldunni 5 ára!! Skrýtið að eiga bráðum barn í grunnskóla...tími líður og allt það. Afmælisdagurinn var rólegur, gjafir opnaðar og kaka borðuð og svo bara leikið og dundað í nýju dóti og allir sáttir. Veðrið var líka hundfúlt, ískalt og lítið gaman að útiveru, enda er: Vor-ekki vor, vor-ekki vor besta lýsingin á veðurfarinu sem verið hefur hérna núna undanfarna daga. Á föstudaginn rigndi eins og hellt væri úr nokkrum fötum og í gær var svona páskaeggjaleit fyrir krakka á collegíinu og það var ískuldi! Við dressuðum okkur upp, Þorvaldur Örn í snjóbuxum og úlpu, norpuðum um milli trjánna og týndum upp nokkur plastegg (sem reyndust nú meira vera svona dreifð um svæðið, fremur en týnd...). Hann fékk svo súkkulaði í verðlaun og við flýttum okkur heim og inn úr kuldanum. Svo í dag þá var þetta fína, hlýja vorveður. Við fórum niðrí bæ og byrjuðum á kaffibolla á Red Brick. Við Þorvaldur erum sammála um að það sé leitun að jafn góðum cappucino-bolla og á þessu kaffihúsi, alveg ferðarinnar virði í sjálfu sér. Tilgangurinn var samt ekki bara að sötra cappucino heldur fremur að kíkja á lestarstöðina og athuga hvort það geti verið fjárhagslega hagkvæmara að ferðast með lest fremur en leigja bíl í ferðalagið. Lestarstöðin opnaði ekki fyrr en kl.4 þannig að tímann sem við höfðum nýttum við í kaffidrykkju og svo gerðum við tilraun nr.2 til að skoða ,,dómkirkju“ svæðisins. Hún reyndist opin í þetta skiptið svo við gátum rölt um og skoðað. Ágætis kaþólsk kirkja bara svona og nú erum við amk búin að sjá hana. Svo loksins þegar lestarstöðin opnaði þá fengum við að vita að það er rándýrt að ferðast hér með lestum og ekki sjens að það borgi sig fyrir okkur að reyna slíkt ætlum við að halda budgeti. Skrýtið að almenningssamgöngur skuli vera svona dýrar í svona stóru landi.
Síðan brunaði strætóinn framhjá nefinu á okkur rétt áður en við gátum gómað hann til baka. Af því veðrið var svo frábært ákváðum við að rölta bara aðeins af stað, enda líður alveg hálftími milli vagna. Það teygðist svo úr því rölti því við enduðum heima í íbúð 30 án þess að taka nokkurn strætó. Vorum ekki mikið lengur en ca klukkutíma að því og Þorvaldur Örn labbaði nánast alveg allan tímann, pabbi hans rétt aðeins ferjaði hann síðasta spölinn. Uppskeran úr bæjarferðinni varð því í stuttu máli gott kaffi og góður göngutúr.

-Reyndar var uppskera dagsins aðeins meiri, því Þorvaldur K. skilaði af sér lokaverkefni í einum af þremur kúrsum og er þess búinn í honum og gaman að því, þetta er allt að koma:-)

Næst á dagskrá hjá okkur er að bóka bíl fyrir ferðalagið og gistingu, þ.e.a.s. fyrstu nóttina og svo trúlega á Prince Edward Island líka. Hinum nóttunum verður meira svona reddað þegar þess þarf-óþarfi að hengja sig í of stíf plön;-) Páskarnir alveg á næsta leyti með kanadísku lambakjöti og íslensku páskaeggi fyrir þann 5 ára, það á nú eftir að gera stormandi lukku er ég viss um.
Ætla ekki að hafa þetta mikið lengra í bili, en við sendum rosa góðar kveðjur til ykkar allra og vonum að vorið sé farið að verma klakann:-)
Knús frá Kanada,
Magga&strákarnir